„Fortíðin er framandi land (The past is a foreign country).“ Þetta eru upphafsorð skáldsögunnar The Go-Between frá 1953 eftir breska rithöfundinn L.P. Hartley og eru orðin að nokkurs konar málshætti. Því þessi snilldarlega en jafnframt einfalda setning fangar tilfinningar okkar þegar við hugsum um fortíðina.
Hér sjáum við ljósmyndir eftir meistara Magnús Ólafsson en myndir hans hafa margoft birst á Lemúrnum. Síðast sáum við ýmsar mannamyndir eftir hann sem teknar voru í Reykjavík fyrir öld síðan. Og hér sjáum við fleiri myndir frá sama tímabili. Þetta eru myndir frá um 1905-1915. Allflestar frá Reykjavík.
Það er undarlegt að sjá göturnar sem við göngum daglega á þessum myndum. Lækjargötu og miðbæinn. Tjörnina. Höfnina í Reykjavík. Þetta eru staðir sem við þekkjum svo vel. En hér birtast þeir eins og framandi land. Því Ísland fyrir 100 árum var allt annað land en það sem við þekkjum í dag. Þessi veruleiki er mjög framandi fyrir okkur.
Stórmerkilegur myndabanki Magnúsar Ólafssonar er geymdur hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Safnið er eitt fjölmargra stofnana í heiminum sem hlaðið hefur inn merkilegum gömlum ljósmyndum hjá Commons-verkefninu hjá vefsíðunni Flickr.
Það er mikilvægt að söfn miðli gersemunum sem þau geyma og Lemúrinn fagnar í hvert skipti sem Ljósmyndasafn Reykjavíkur hleður inn myndum á netið fyrir almenning. Við minnum einnig á annað bráðskemmtilegt verkefni sama safns á netinu, Ljósmynd vikunnar.
Við hvetjum öll söfn og stofnanir landsins sem geyma ljósmyndir sem hafa sögulegt og menningarlegt gildi að gera þær aðgengilegar á stafrænu formi. Landmælingar Íslands er dæmi um opinbera stofnun sem nýlega fór þá leið.