Um Lemúrinn

Lemúrinn er veftímarit um allt, stofnað í október 2011. Ábendingar sendist á netfangið lemurinn [hjá] lemurinn.is.

Ritstjórn

Helgi Hrafn Guðmundsson
Björn Teitsson

Meðstofnandi var Vera Illugadóttir.
Sveinbjörn Þórðarson hannaði Lemúrinn.is.

Tímaritið dregur nafn sitt af lemúrum, hinum furðulegu frændum mannsins er byggja eyjuna Madagaskar úti fyrir ströndum Suðaustur-Afríku. Lemúrar eru ætt um 100 dýrategunda af ýmsum stærðum og gerðum. Minnsti lemúrinn er músalemúr frú Berthe, sem vegur aðeins 30 grömm, en sá stærsti er Indri indri, sem vegur um 9 kíló. Indri indri er þó langt því frá stærsti lemúr sögunnar, því fyrir aðeins tvö þúsund árum bjó lemúr á Madagaskar sem vó 200 kíló og var ekki ósvipaður í stærð og górillur nútímans. Lemúrar teljast, rétt eins og menn, til ættbálks prímata og eru því náskyldir okkur.

Lemúrar

Vofur næturinnar

Svíinn Carl Linneus, sem fann upp flokkunarkerfi nútímans í líffræði, gaf lemúrum nafnið á átjándu öld. Orðið lemúr er dregið af latneska hugtakinu lemures sem notað var yfir drauga eða næturverur í rómverskri hjátrú. Linneus valdi nafnið vegna draugalegs yfirbragðs næturdýrsins lemúrs. Nafnið rímar ennfremur við hjátrú fólksins á Madagaskar sem trúir að lemúrar séu endurholdgaðar sálir forfeðranna.

Eyjan Madagaskar tilheyrir afríska meginlandinu ekki í jarðsögulegum skilningi. Madagaskar var hluti heimsálfunnar Gondwanalands fyrir um 100 milljónum ára en í flekareki jarðkringlunnar brotnaði sá mikli landmassi upp í Suðurskautslandið, Indland, Austur-Afríku og eyjuna sem hér um ræðir.

Einangrunarvist í paradís

Forfeður lemúranna voru frumprímatar sem bjuggu í Afríku fyrir um 65 milljónum ára, eða um það leyti er risaeðlurnar dóu út. Vísindamenn hafa lengi velt vöngum yfir hvernig prímatar þessir komust til Madagaskar, en hið 600 kílómetra breiða Mósambíksund skilur eyjuna frá meginlandi Afríku.

Sú skýring er haft hefur mest fylgi – og hefur styrkst mikið á undanförnum árum – er að forfeður lemúranna hafi einfaldlega rekið yfir hafið frá Suðaustur-Afríku til Madagaskar með trjádrumbum og gróðri. Talið er að sú leið hafi hins vegar lokast fyrir tugum milljónum árum síðar þegar hafstraumar breyttust á Indlandshafi og útilokuðu rek gróðurs yfir Mósambíksund.

Lemúrar hafa lifað í einangrun í Madagaskar í tugmilljónir ára. Áður en menn námu fyrst land á eyjunni fyrir aðeins um tvö þúsund árum síðan, lifðu lemúrar í friði fyrir öðrum stórum spendýrum. Engir frekir apar á borð við frændur þeirra simpansa og górillur flæktust fyrir þeim. Madagaskar var frumskógarparadís, ein af landspildum jarðarinnar sem lengst fékk að vera í friði fyrir mannfólkinu.