Lemúrinn var stofnaður í október 2011 og varð því fjögurra ára um daginn. Ritstjórn þakkar frábærar viðtökur síðastliðin ár.
Lesendahópurinn heldur áfram að vaxa. Við minnum ykkur á að fylgjast með Lemúrnum á Facebook, en hópurinn þar telur nú hátt í sjö þúsunds manns. Við erum einnig á Twitter og með RSS veitu. Lesendur eru auðvitað hvattir til þess að segja vinum og vandamönnum frá okkur.
Hér eru sjö vinsælustu greinar undanfarið ár:
Ljósmyndir eru oftar en ekki mikilvæg sönnunargögn um atburði því þær frysta auðvitað ákveðin augnablik um aldur og ævi. Stundum eru ljósmyndir einmitt teknar á ótrúlegum augnablikum sem okkur finnst ógnvekjandi að skoða.
Sumir þekkja þessa tilfinningu: Að dröslast skömmustulegur á fætur eftir óhóflega neyslu áfengra drykkja. Timburmenn hefja störf og með þeim hellist yfir kvíði og eftirsjá. Og samviskubit. Hvað gerði ég af mér? Hvað var ég að röfla aftur? Og við hvern?
Fjölmargir kynfræðingar hafa komist að því að íbúar Þýska alþýðulýðveldisins, eða Austur-Þýskalands, áttu mun innihaldsríkara og ánægjulegra kynlíf en íbúar Sambandslýðveldins í vestri. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til stöðu kvenna í austurhlutanum en þar var jafnrétti kynjanna fest í lög.
Þeir sem áttu það til að sækja sér afþreyingu úr hundraðkallarekkanum á myndbandaleigum bæjarins, einhvern tímann fyrir aldamót, hafa vafalaust rambað á bíómynd með manninum með kjálkann ógurlega, Robert Z‘Dar.
Skömmu eftir innrás bandamanna í Normandí fór valdamesta fólkið innan bandarísku leyniþjónustunnar OSS að velta fyrir sér þeim möguleika að kanslari Þýskalands, Adolf Hitler, kynni að flýja fyrir lok síðari heimsstyrjaldar.
Lemúrinn rifjar upp Mánudagsblaðið, sem hlýtur að vera með athyglisverðari fyrirbærum íslenskrar fjölmiðlasögu en heyrist ekki oft getið í dag. Mánudagsblaðið var vikurit sem kom út í Reykjavík í frá 1948 til 1982.
Þegar Bretar frelsuðu útrýmingarbúðir nasista í Bergen-Belsen blasti við þeim skelfileg sjón. Sextíu þúsund fangar fundust á lífi, flestir alvarlega veikir vegna vannæringar. Þrettán þúsund lík lágu eins og hráviði út um allt. Eftir stríðslok var réttað yfir 45 af 480 starfsmönnum búðanna. Hér sjáum við myndir af nokkrum þeirra ásamt nöfnum og refsingu.