Til hvers að leggja á sig allt erfiðið að fara í stríð hinu megin á hnettinum, og koma svo heim án nokkurs til minja? Í Kyrrahafsstríðinu komst á sú tíska meðal bandarískra hermanna að taka sér búta af líkum japanskra óvina þeirra  sem minjagripi.

 

Helst voru það hauskúpur, tennur og eyru úr Japönum sem rötuðu til Bandaríkjanna í fórum hermanna á heimleið. En einnig aðrir líkamshlutar — sjálfur Roosevelt forseti á að hafa fengið að gjöf frá ónefndum þingmanna bréfahníf búinn til úr handleggsbeini úr japönskum hermanni.

 

Heryfirvöld fordæmdu og bönnuðu þessa iðju snemma en hermennirnir héldu þó ótrauðir áfram. Fjölmiðlar fjölluðu og oft lofsamlega um minjagripasöfnunina. Þessi mynd birtist í tímaritinu Life í maí 1944 undir titlinum „Stríðsstarfsmaður í Arizona skrifar kærastanum sínum í sjóhernum þakkarbréf fyrir hauskúpuna úr Japanahelvítinu [e. Jap] sem hann senti henni.“

 

Myndatextinn hljóðaði á þessa leið: „Þegar hann kvaddi Natalie Nickerson, 20 ára, fyrir tveimur árum, lofaði stóri, myndarlegi sjóherslautinantinn henni Japana. Í síðustu viku fékk Natalie senda hauskúpu, áritaða af lautinantinum hennar og 13 vinum hans og á henni stóð: ‘Þetta er góður Japani — dauður Japani sem við náðum í á ströndinni í Nýju Gíneu.’ Natalie, undrandi yfir gjöfinni, skírði hana Tojo. Hernum mislíkar mjög svona gjafir.“