Konungur sænska skógarins, elgurinn, er tilkomumikið dýr. Hann er bæði háfættur og tignarlegur en einnig stórhættulegur. Argur elgur getur léttilega orðið fullvaxta manneskju að bana.

 

Í september árið 2008 fannst Agneta Westlund látin við vatnið Frisksjön í Loftahammar í Svíþjóð. Bar lík hennar þess merki að hafa verið beitt miklu afli og beindust sjónir lögreglunnar nánast samstundis að eiginmanni Agnetu, Ingemar Westlund.

 

Tilgáta rannsóknarlögreglumanna var sú að Ingemar hefði gengið í skrokk á eiginkonu sinni, ekið yfir hana á traktor og síðan flutt líkið frá heimili þeirra. Ingemar sat í gæsluvarðhaldi í samtals fimm mánuði á meðan á rannsókn málsins stóð og neitaði allan tímann sök.

 

Við rannsóknir á lífssýnum sem fundust á Agnetu tók rannsókn málsins skyndilega nýja og furðulega stefnu. Á henni fundust leifar munnvatns sem reyndist að öllum líkindum vera frá þeim sem bar ábyrgð á dauða hennar. Voru þau lífssýni ekki frá eiginmanni hennar komin heldur sjálfum konungi skógarins, elg.

 

Screen Shot 2013-10-11 at 12.18.43 AM

Agneta Westland.

Screen Shot 2013-10-11 at 12.17.14 AM

Frétt um málið og mynd af Ingmar við gröf eiginkonunnar.

 

Fyrst um sinn var lögreglan efins um að nokkuð dýr í Svíþjóð gæti veitt manneskju svona mikla áverka. Við rannsóknir á því barst lögreglunni myndband sem sýnir svo ekki sé um villst að elgir eru fullfærir um að bana fullorðinni manneskju.

 

Í myndbandinu gefur að líta elgskú með kálf sem ræðst að manni og slær hann niður með framfótunum og traðkar síðan á honum.

 

Málið hefur vakið mikla athygli og í sjónvarpsþættinum Veckans Brott gagnrýndi afbrotafræðingurinn frægi Leif GW Persson lögregluna harkalega fyrir slæleg vinnubrögð. Í viðtali Västerviks Tidningen gagnrýnir eiginmaður Agnetu lögregluna einnig og segir að reynt hafi verið að gera hvað sem er til að skella skuldinni á hann.

 

Hér er myndband hjá Expressen af árás elgsins sem sannfærði lögreglu um sakleysi Ingemars.