Eftir árás Japana á Pearl Harbour í Hawaii í desember 1941 óttaðist fólk mjög aðra árás á Bandaríkin, sérstaklega Hawaii. Meðal þess óhugnaðar sem Bandaríkin óttuðust af hendi Japana var einhverskonar efnaárás. Íbúum Hawaii til varnar sendu bandarísk yfirvöld því þúsundir gasgríma til eyjanna. En grímurnar pössuðu einungis á fullorðna, og vöktu þar að auki óhug hjá ungum börnum.

 

Gúmmífyrirtækið Sun Rubber Company fann þjóðráð við þessu vandamáli. Í samstarfi við efnahernaðardeild bandaríska hersins og Walt Disney framleiddu þeir sérstaka barna-gasgrímu með glaðbeittri ásjónu Mikka Músar. Börnin áttu að hafa grímuna á sér við öll tækifæra og setja hana reglulega upp sem leik. Þannig myndu þau venjast grímunum og ekki óttast ef til efnaárásar kæmi og þau þyrftu á þeim að halda í raun og veru.

 

Til allrar hamingju kom aldrei til þess að börn Hawaii þyrftu á grímunum að halda og þau 1000 eintök sem voru framleidd hafa nú flest gufað upp. Örfáar grímur eru til á söfnum.

 

Mikka Mús-gríma á hersafni í Fort Leonard Wood í Missouri.

 

Walt Disney sýnir herforingjum teikningu af grímunni.