Þetta eru hundrað ára gamlar litmyndir rússneska ljósmyndarans Sergeis Mikhailovich Prokudin-Gorskii sem sýna á ótrúlegan hátt lífið í rússneska keisaradæminu í upphafi tuttugustu aldarinnar. Þær eru ómetanleg heimild um lífið á jaðarsvæðum hins víðfeðma ríkis á þessum tíma. Margir hafa eflaust séð myndirnar sem hér birtast á ýmsum bloggum á síðustu árum. En góð vísa er aldrei of oft kveðin og Lemúrinn langaði að skoða myndirnar einu sinni enn.

 

Á árunum 1909 til 1915 ferðaðist Gorskii ljósmyndari um hið gríðarstóra rússneska keisaradæmi, ráðinn af Nikulási II Rússakeisara til að ljósmynda hið margbrotna ríki hans. Hann notaði sérsmíðaða myndavél til að fanga myndefnið í lit.

 

Það er harla erfitt fyrir okkur nútímamennina að trúa því að ljósmyndirnar séu hundrað ára gamlar. Þegar ljósmyndirnar voru festar á filmu var hvorki rússneska byltingin né fyrri heimsstyrjöldin hafin. Nútíminn átti ekki eftir að hefja innreið sína til óravídda rússneska keisaradæmisins fyrr en löngu síðar.

 

Ljósmyndarinn ferðaðist um Rússland og Mið-Asíu í sérhönnuðum lestarvagni þar sem hann hafði komið fyrir myrkraherbergi til að framkalla myndirnar. Hann tók margar ljósmyndir í röð með bláum, grænum og rauðum litsíum. Síðan sameinaði hann afraksturinn úr tökunum í litmyndir.

 

Dæmi um þrílitaaðferð Prokudin-Gorskii: Rauður, grænn og blár. Myndunum er blandað saman til að mynda litmynd.

 

Ljósmyndirnar eru gífurlega verðmætar því þær sýna með ótrúlegum hætti veröldina sem var áður en iðnbyltingin gjörbreytti lífinu á jaðarsvæðum keisaraveldisins. Sagnfræðingar telja að sumar þessara ljósmynda séu þær einu sem fyrirfinnast af svæðunum sem þær sýna, borgum og bæjum og jafnvel heilu menningarsvæðunum, og íbúum þeirra.

 

Líf hirðingjanna frá Mið-Asíu breyttist til að mynda gífurlega fáum áratugum eftir að myndirnar voru teknar þegar stjórnvöld í Kreml nútímavæddu samfélög þeirra með miklum hraði, sem neyddi þjóðirnar oftar en ekki til að hætta að lifa því lífi sem þær höfðu lifað um aldir til þess að taka upp nútímalegri lífshætti sem þær höfðu í mörgum tilfellum ekki forsendur til að skilja.

 

Hér birtum aðeins lítinn hluta úr þessu mikla safni og skoðum ljósmyndir sem sýna hinn mikla menningarlega fjölbreytileika í rússneska keisaradæminu.

 

Library of Congress í Bandaríkjunum keypti safnið af erfingjum ljósmyndarans árið 1948. Hægt er að skoða fleiri myndir á heimasíðu safnsins, en þær munu alls vera yfir 2000 talsins.

 

A. P. Kalganov fyrrum forstjóri vopnaverksmiðjunnar í iðnaðarþorpinu Zaloust í Úralfjöllum. Vopnaframleiðsla verksmiðjunnar var mikilvæg rússneska hernum.

 

Kona í hefðbundum klæðum Basjkíra frá Basjkortostan í Úralfjöllum. Mynd frá 1910.

 

Basjkíri heima hjá sér. 1910.

 

Börn í brekku við kirkju í Belozyorsk í evrópska Rússlandi.

 

Stríðsfangar frá veldi Austurríkis-Ungverjalands sem Prokudin-Gorskii ljósmyndaði á fyrstu árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Mennirnir eru líklega Pólverjar og Úkraínumenn sem börðust fyrir keisaradæmið í Vín en lentu í höndum Rússa í stríðinu. Ekki er vitað hvar myndin var tekin annað en staðurinn mun vera í Norður-Rússlandi í grennd við Hvítahaf.

 

Ljósmyndarinn ásamt tveimur kósökkum í Murmansk við Barentshaf árið 1916.

 

Konur og börn við vinnu sína á teakri í Chakvi á austurströnd Svartahafs þar sem nú er Georgía. Fólkið er af grískum uppruna en grískur minnihluti bjó í Kákakuslöndunum á öldum áður.

 

Kínverskur sérfræðingur á sama stað í Georgíu þar sem kjöraðstæður voru til teræktunar.

 

Dætur kotbænda bjóða ferðamönnum upp á ber fyrir framan heimili sitt, dæmagerðan rússneskan sveitakofa í izba-stíl.

 

Hjón í þjóðbúningum stilla sér upp í Gunib-héraði í norðurhlíðum Kákakusfjalla þar sem í dag er Lýðveldið Dagestan, sem er hluti rússneska sambandslýðveldisins.

Hjón í þjóðbúningum stilla sér upp í Gunib-héraði í norðurhlíðum Kákakusfjalla þar sem í dag er Lýðveldið Dagestan, sem er hluti rússneska sambandslýðveldisins.

 

Hér sjáum við fjölskyldu af þjóð Kasaka. Margir frá löndum Mið-Asíuríkjunum Kirgistan, Kasakstan og Úsbekistan lifðu flökkulífi á sléttum. Þessi mynd er tekin á Golodnia-steppunni þar sem í dag eru landamæri hinna sjálfstæðu ríkja Úsbekistan og Kasakstan.

Hér sjáum við fjölskyldu af þjóð Kasaka. Margir frá löndum Mið-Asíuríkjunum Kirgistan, Kasakstan og Úsbekistan lifðu flökkulífi á sléttum. Þessi mynd er tekin á Golodnia-steppunni þar sem í dag eru landamæri hinna sjálfstæðu ríkja Úsbekistan og Kasakstan.

 

Sólmyrkvinn 14. janúar árið 1907 skoðaður í snæviþöktum Tian Shan-fjöllum þar sem í dag er ríkið Tadsjikistan í Mið-Asíu.

Sólmyrkvinn 14. janúar árið 1907 skoðaður í snæviþöktum Tian Shan-fjöllum þar sem í dag er ríkið Tadsjikistan í Mið-Asíu.

 

Rússneskir innflytjendur í suðurhluta Kákasus, vestur af Kaspíahafi, stofnuðu þar litla nýlendu, rétt við landamæri Íran. Keisarastjórnin í Rússlandi hvatti evrópska íbúa veldisins að setjast að í fjarlægum annesjum þess.

Rússneskir innflytjendur í suðurhluta Kákasus, vestur af Kaspíahafi, stofnuðu þar litla nýlendu, rétt við landamæri Íran. Keisarastjórnin í Rússlandi hvatti evrópska íbúa veldisins að setjast að í fjarlægum annesjum þess.

 

Alim Khan (1880-1944), emírinn í Búkhara, stillir sér upp fyrir ljósmyndarann árið 1911, þá nýsestur á valdastól. Emírsdæmið Búkhara var þá lénsríki Rússlands, sjálfstætt að nafninu til, nefnt eftir höfuðborginni, hinni fornu menningarborg Búkhara sem nú er í Úsbekistan. Rúmum áratug síðar, þegar stór hluti Mið-Asíu var innlimaður í hin nýstofnuðu Sovétríki, flúði emírinn í útlegð til Afganistan.

 

Gyðingadrengir með kennara sínum í borginni Samarkand, sem nú er í Úsbekistan. Borgin Samarkand var lengi ein helsta borgin á silkiveginum sem tengdi Asíu og Evrópu og endurspeglaðist það í hinni fjölbreyttu mannlífsflóru sem hefur einkennt borgina öldum saman, en þar hafa búið Tadsjíkar, Úsbekar, Arabar, Gyðingar, Rússar og ótal fleiri þjóðarbrot.

 

Fangar og fangavörður í fangelsi í Mið-Asíu.