Borgarastyrjöld braust út á Spáni árið 1936 þegar fasísk íhaldsöfl — falangistarnir svokölluðu — risu upp gegn lýðræðislega kjörinni vinstristjórn landsins. Styrjöldin stóð yfir í þrjú ár, kostaði um hálfa milljón manns lífið og hefur haft afgerandi áhrif á stjórnmál, sögu og menningu Spánar fram til dagsins í dag.

 

Áróðursmynd lýðveldissinna sýnir allt sem spænskir vinstrimenn óttuðust - kirkju, kapítalisma og fasisma.

Áróðursmynd lýðveldissinna sýnir allt sem spænskir vinstrimenn óttuðust – kirkju, kapítalisma og fasista.

Skömmu eftir að stríðið hófst settu vestrænu lýðræðisríkin Bretland, Frakkland og Bandaríkin vopnasölubann á Spán. Samhliða því ljáðu fasistaríkin Þýskaland, Ítalía og Portúgal falangistum umfangsmikla aðstoð. Aðeins Sovétríki Stalíns voru reiðubúin til þess að hjálpa lýðveldissinnum.

 

Sjálfboðaliðar flykktust til Spánar erlendis frá til að verja nýstofnaða spænska lýðveldið gegn ágangi fasismans. Þar í flokki var breski rithöfundurinn George Orwell, sem síðar greindi frá upplifunum sínum í bókinni frábæru Homage to Catalonia.

 

Borgarastyrjöldinni lauk árið 1939 með afgerandi sigri falangista. Í kjölfarið var stofnað rammkaþólskt einræðisríki og leiðtogi falangistanna, herforinginn Fransisco Franco, réði lögum og lofum á Spáni fram til dauðadags 1975.

 

Bresku heimildarþættirnir The Spanish Civil War frá árinu 1983 greina frá þessari atburðarás og geyma merkileg viðtöl við fólk sem upplifði hörmungar styrjaldarinnar. Þættirnir eru sex talsins. Áhugasömum er einnig bent á bókina The Battle for Spain: The Spanish Civil War 1936-1939 eftir sagnfræðinginn Anthony Beevor.

 

Vídjó