Björn Sv. Björnsson var einn þeirra Íslendinga sem gengu í lið með nasistum í stríðinu. Lemúrinn birtir gögn um feril Björns í hinum alræmdu sveitum SS sem hafa ekki sést víða.

 

Yfirmaður í SS skrifaði meðmælabréf um hann og lýsti Birni sem manni með „óaðfinnanlegan persónuleika og traustar hugsjónir“ og að hann hafi reynst „vel í bardaga sem hermaður við innrásina í Sovétríkin“.

 

Þetta var saga sem mátti ekki segja. Sonur forseta Íslands var nasisti og meðlimur SS.

 

Hann hét Björn Sv. Björnsson og var sonur Sveins Björnssonar, fyrsta forseta íslenska lýðveldisins.

 

Hann hafði verið búsettur í Þýskalandi í nokkur ár þegar síðari heimsstyrjöldin braust út.  Hann bauð sig fram til herþjónustu og gekk til liðs við Waffen SS árið 1941.

 

Hann starfaði innan stríðsfréttaritaradeildar SS, var sendur til austurvígstöðvanna og var viðstaddur nokkrar orrustur í stríði Hitlers við Sovétríkin, sem voru ein blóðugustu og grimmilegustu stríðsátök mannkynssögunnar.

 

„Í mínum augum var þetta herför gegn ógnun bolsévismans, þar sem Þjóðverjar börðust upp á líf og dauða. Mér fannst að þarna væri kominn sá óvinur sem ég vildi og ætti að berjast gegn,” sagði Björn í endurminningabók sinni Ævi mín og sagan sem ekki mátti segja. Bókin kom út árið 1989 og var skráð af Nönnu Rögnvaldardóttur.

 

Björn náði langt á skömmum tíma innan SS. Hann var hækkaður í tign nokkrum sinnum á meðan hann var á austurvígstöðvunum. Í september 1942 var hann svo sendur í liðsforingjaskóla SS í Bad Tölz í Þýskalandi. Hann fór ekki á vígstöðvarnar eftir það og fékk stöðuhækkun og var sendur til Kaupmannahafnar til að sinna áróðursmálum og fréttamennsku fyrir áðurnefnda stríðsfréttaritaradeild. Árið 1943 var Björn útvarpsstjóri danska ríkisútvarpsins í rúma viku eftir að danski útvarpsstjórinn var rekinn fyrir að taka þátt í allsherjarverkfalli.

 

Eftir stríðslok dúsaði hann í fangelsi í Danmörku í eitt ár en var látinn laus árið 1946, líklega vegna þess að hann var ekki Dani og landaráðalög náðu ekki yfir hann. Sú staðreynd að hann var sonur forseta Íslands gæti einnig haft sitt að segja um þessa mildilegu refsingu (þó að íslensk stjórnvöld hefðu neitað því að hafa beitt nokkrum þrýstingi). Málið var alla tíð óþægilegt fyrir Svein Björnsson og lét hann son sinn lofa sér því að þaga yfir þessari myrku fortíð sinni. Þetta væri saga sem ekki mætti segja.

 

Björn Sv. Björnsson flutti með fjölskyldu sinni til Argentínu á eftirstríðsárunum en sneri heim til Íslands eftir tiltölulega stutta vist þar í landi. Á Íslandi starfaði hann meðal annars við sölu á bresku alfræðibókinni Encyclopaedia Britannica. Hann lést árið 1998.

 

Í niðurlagi áðurnefndrar minningabókar sinnar skrifaði hann: „Mér hefur aldrei fundist ég vera meðsekur í glæpum nasista þótt ég hafi hrifist af stefnu þeirra og málflutningi. Ég lét blekkjast eins og milljónir annarra.”

 

Bandaríska þjóðskjalasafnið NARA (National Archives and Records Administration) geymir aragrúa skjala sem bandaríski herinn safnaði og gerði upptæk í rústum þriðja ríkisins. Það voru gögn sem notuð voru í uppgjöri síðari heimsstyrjaldarinnar í réttarhöldunum í Nürnberg og fleiri dómsmálum.

 

Á örfilmum sem geymdar eru í safninu eru skjöl um þúsundir manna, þar á meðal mjög margra SS-manna en mikil áhersla var lögð á að kortleggja almennilega starfsemi sveitanna, sem báru ábyrgð á mörgum af mestu grimmdarverkum nasista. Hér birtast nokkur skjöl með upplýsingum um Björn Sv. Björnsson.

 

Fyrst sjáum við bréf sem Björn sendir til yfirmanna sinna í SS og biður um peninga til kaupa á einkennisbúningi og spyr fregna varðandi yfirvofandi stöðuhækkunnar. Á þessum tíma var Björn kominn til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið nokkur misseri á vígvellinum í Rússlandi. Athygli vekur að bréfið er skrifað 6. júní árið 1944 eða sama dag og innrásin í Normandí hófst. 

 

 

„Kaupmannahöfn, 6. júní 1944
Berist til yfirliðsforingjans dr. Nachrodt,
[…]
Yfirliðsforingi!

Ég tók rétt í þessu á móti skeyti frá einkennisbúningaklæðskeranum Chr. Schwarz & Sohn í München, þar sem segir að einkennisjakki sem ég pantaði í fyrra sé tilbúinn og verði sendur til mín. Ég yrði yður mjög þakklátur, herra yfirliðsforingi, ef „Kurt Eggers“-herdeildin gæti fyrir mína hönd millifært upphæð að andvirði

110 ríkismarka og 35 Pfenniga

 

til viðkomandi fyrirtækis, þar sem ég á engan bankareikning í Þýskalandi. Féð get ég greitt af póst-sparireikningi mínum [aths. þýðanda: í Þýskalandi tíðkaðist og tíðkast raunar enn ákveðið kerfi póst-sparisjóða fyrir almenning sem eru óháðir hinu almenna bankakerfi og starfa eftir öðrum reglum]. Ég veit því miður ekki um neina aðra lausn á málinu, og biðst afsökunar á því að þurfa að leita til yðar.

 

Heimilisfang klæðskerans er:

Christian Schwarz & Sohn,
München.
Prielmayerstraße 12,
sími 52 852,
póst-tékkareikningur 21 59 í München,
Banki: Bayerische Hypotheken- und Wechsel-Bank,
Kaufingerstraße 8.

 

Varðandi: Stöðuhækkun.

Því miður verð ég enn að snúa mér til yðar vegna stöðuhækkunarinnar. Frá því að ég hafði samband síðast hafa allmargir árgangar kadetta lokið námi í liðsforingjaskólum og kadettar hlotið framgang sem luku námi mörgum mánuðum á eftir mér. Svo virðist næstum vera sem eitthvað standi í vegi fyrir framgangi mínum, nema aðalskrifstofan hafi gleymt stöðuhækkun minni. Ég yrði yður mjög þakklátur ef þér gætuð rætt málið ítarlega við herforingjann eða Kriegbaum höfuðsmann og sent mér skeyti um málið svo fljótt sem verða má.

Heil Hitler!

 

Björn Sv. Björnsson
Undirforingi í SS og yfirmaður Kaupmannahafnardeildar stríðsfréttaritara SS“

 

Næsta skjal er meðmælabréf frá yfirmanni í SS. Hann gefur Birni mjög góða einkunn og hvetur til þess að hann sé hækkaður í tign. Bréfið er dagsett í febrúar 1945, aðeins örfáum mánuðum fyrir uppgjöf Þjóðverja.

 

„Berlin-Zehlendorf, 28. febrúar 1945

 

Umsókn

 

Björnsson, Björn

 

Staða: SS-liðsforingi

Foringi stríðsfréttaritara SS í Kaupmannahöfn síðan 24. nóvember 1943

 

Síðasta stöðuhækkun: 20. apríl 1944

Sótt er um stöðu SS-yfirliðsforingja frá og með 20. apríl 1945.

 

Rökstuðningur:
Björnsson liðsforingi hefur óaðfinnanlegan persónuleika og traustar hugsjónir. Hann hefur agaða skapgerð og gott andlegt atgervi. Vinnusamur og ötull hermaður, öguð og fáguð framkoma, bardagafús svo að til fyrirmyndar er. Sem yfirmaður Kaupmannahafnardeildar herdeildarinnar hefur Björnsson liðsforingi unnið framúrskarandi starf í nýliðun Waffen-SS-sveitanna og aukið ítök í dönskum fjölmiðlum. Reyndist einnig vel í bardaga sem hermaður við innrásina í Sovétríkin. Er sonur núverandi forseta Íslands, sem ber að hafa sérstaklega í huga við mat á frammistöðu og verkum hans.

[ólæsileg undirskrift],

SS-Sturmbannführer “

 

Fleiri skjöl:

 

 

 

 

 

 

Texti: Helgi Hrafn Guðmundsson. Þýðing: AFS.

 

Lesefni:

 

Ævi mín og sagan sem ekki mátti segja. Endurminningar Björns Sv. Björnssonar.  Nanna Rögnvaldardóttir skráði. Iðunn, 1989.

 

Íslenskir nasistar. Illugi og Hrafn Jökulssynir. Tákn, 1988.

 

Berlínarblús. Ásgeir Guðmundsson. Skrudda, 2009.