Vídjó

Árið 1947 voru níu Íslendingar dæmdir fyrir landráð vegna njósna fyrir Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni. Einn þessara manna var Guðbrandur Hlíðar dýralæknir. En Guðbrandur lýsti síðar yfir sakleysi og segir hér sögu sína í áhrifamiklu viðtali árið 1990. 

 

Guðbrandur Hlíðar (1915-2001) var námsmaður í Danmörku þegar síðari heimsstyrjöldin braust út. Einn góðan veðurdag birtist þar þýskur vísindamaður sem hafði stundað rannsóknir á Íslandi og þekkti foreldra Guðbrands.

 

Þessi maður starfaði nú fyrir þýsku leyniþjónustuna og virtist gallharður nasisti. Hann vildi að Guðbrandur tæki að sér njósnir á Íslandi fyrir Þjóðverja til dæmis með því að senda leynibréf og að aðstoða þýska njósnara sem sendir væru þangað. Leyniorðið sem nota átti í þessum samskiptum var „Kveðja frá St. Bernharðshundi Halldóri“.

 

Guðbrandur varð ekki við þessu en málið átti samt eftir að draga dilk á eftir sér. Hann var hnepptur í varðhald í Bretlandi og loks dæmdur fyrir landráð í hæstarétti Íslands. Hann hélt fram sakleysi sínu og segir hér Helga H. Jónssyni fréttamanni sögu sína, en þetta er brot úr hinni vönduðu þáttaröð Stríðsárin á Íslandi sem sýnd var á RÚV árið 1990.

 

Vegna langrar fangelsisvistar í Bretlandi var Guðbrandi ekki gert að dúsa í fangelsi á Íslandi vegna saka sinna. En hann var þó sviptur kosningarétti. Í dómi hæstaréttar sagði meðal annars: „Hann skal sviptur kosningarrétti og kjörgengi til opinberra starfa og til annarra almennra kosninga frá lögbirtingu dóms þessa að telja.“

 

Ásgeir Guðmundsson skráði árið 1992 æviminningar Guðbrands Hlíðar. Nefnist sú bók Eyrnatog og steinbítstak en í henni ræðir Guðbrandur nánar um þessa lífsreynslu sína.

 

 

Frétt í Alþýðublaðinu febrúar 1946 en þá voru mennirnir dæmdir í sakadómi.