Dr. Werner Gerlach var þýskur læknir og meðlimur í nasistaflokknum sem gegndi embætti aðalræðismanns Þýskalands á Íslandi á árum Þriðja ríkisins. Nasistafáninn blakti við hún við Túngötu 18 í Reykjavík. Þegar breskur her gekk á land á Íslandi 10. maí 1940 var eitt hans fyrsta verk að handsama þýska aðalræðismanninn. Gerlach hafði reynt að brenna pappíra og skjöl í baðkari í dauðans ofboði áður en hann næðist. Hann var fluttur til Englands og sat þar í fangelsi en var látinn laus árið 1941 í skiptum fyrir breska stjórnarerindreka.

 

Gerlach skrifaði afar áhugaverða minnispunkta um Ísland og íbúa þess. Nasistar höfðu mikinn áhuga á Íslendingum, sem þeir töldu að hlyti að vera ákaflega glæst og hreinræktuð norræn þjóð. En Gerlach skrifar hins vegar: „Ekkert er eftir af hinni aðalsbornu þjóð, stoltinu, heldur þrælslund, sómatilfinningaleysi, skriðdýrsháttur, niðurlæging.“

 

Á vef Þjóðskjalasafns Íslands, sem geymir þessa minnispunkta, segir um Gerlach:

 

Werner Gerlach kom til Íslands sem aðalræðismaður Þjóðverja í apríl 1939. Hann var hingað kominn í erindum Heinrichs Himmlers, sem var yfirmaður SS og þýsku lögreglunnar. Gerlach var m.a. ætlað að hamla gegn andþýskum áróðri í fjölmiðlum og menningarlífi Íslendinga. Þjóðverjar litu sem kunnugt er með velþóknun til hins norræna kynstofns og ekki síst Íslendinga. Dr. Bernhard Kummer, kennari við Jena háskóla og einn helsti lærifaðir Himmlers um norræn efni, ritaði bók um þann „andlega fjársjóð“ sem Þjóðverjar gætu sótt til Íslands; hetjulund og sæmd víkinga, frændrækni og þjóðareiningu, svo eitthvað sé nefnt. Hér átti Gerlach að finna þessar gersemar og nýta fyrir Þjóðverja, en uppræta hismi, meinsemdir og andstöðu gegn Þjóðverjum. Minnispunktar hans bera það glögglega með sér að hann hefur orðið fyrir sárum vonbrigðum með Íslendinga og niðurstaða hans var sú að þeir sem höfðu dásamað eiginleika þessarar smáþjóðar norður við ysta haf hefðu farið villur vega svo um munaði.

 

Gerlach handtekinn
En áður en við lítum á minnispunktana skulum við hlusta á breska hermanninn Bert Ward sem var í hernámsliði Breta á Íslandi árið 1940. Hann kom fram í þáttaröðinni Stríðsárin á Íslandi árið 1990 og ræddi við Helga H. Jónsson fréttamann:

 

Vídjó

 

Forhertur nasisti með háleit markmið á Íslandi

Þór Whitehead sagnfræðingur hefur rannsakað sögu Gerlachs og áætlanir nasista á Íslandi. Þetta er einnig brot úr Stríðsárin á Íslandi. Auk þess er rætt við Eystein Jónsson ráðherra og Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra sem sá um að ráðstafa eignum þýska konsúlatsins.

 

Vídjó

 

Lágkúra, skriðdýrsháttur og þrælslund

En áðurnefndir minnispunktar Gerlachs veita okkur innsýn í hugarheim hans. Greinilegt er á lestri þeirra að höfundurinn er bókstafstrúaður nasisti. Hann er ákaflega reiður yfir framkomu, hugmyndum og ástandi íslensku þjóðarinnar, telur hana spillta og heimska. Íslendingar valda honum vonbrigðum því þeir séu langt því frá hin glæsta aríaþjóð sem ýmsir þýskir og nasískir fræðimenn höfðu talið.

 

mgerlach_01

Síða 1. Tilræði við Foringjann, afstaða til Gyðinga ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

mgerlach_02

Síða 2. Blöð, bókmenntir, menningarmál ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

mgerlach_03

Síða 3. Leiksýning, liðhlaupamál, sólstöðuhátíð ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

mgerlach_04

Síða 4. Fréttastarfsemi, Jónas Jónsson, samvinnufélög ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

mgerlach_05

Síða 5 Alþingi, mannasiðir, skólamál ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

mgerlach_06

Síða 6. Áfengi, Háskólinn, klíkuskapur ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

mgerlach_07

Síða 7 Hljómlistarlíf, málarar, skáld og fjárglæframenn ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

mgerlach_08

Síða 8. Lyndiseinkenni, niðurlæging, þrælslund ofl. (Þjóðskjalasafn Íslands)

 

Um þessi skjöl segir á vef Þjóðskjalasafns: „Minnispunktar Gerlachs eru varðveittir í Þjóðskjalasafni Íslands; 1993-71 Fjármálaráðuneyti. Gerlachsskjöl sem gerð voru upptæk 1940. Frumgerð minnispunktanna hefur ekki komið í leitirnar.“ Lesið nánar um þýðingu þeirra hér.

 

Heimildir: 

Minnispunktar Gerlachs, á vef Þjóðskjalasafns: http://skolavefur.skjalasafn.is/mgerlach_00.html

Stríðsárin á Íslandi, RÚV 1990

 

Nánar er hægt að lesa um Gerlach og Himmler í bók Þórs Whitehead, Íslandsævintýri Himmlers.