Timothy Dexter var forríkur sérvitringur er bjó í Massachusetts-fylki í Bandaríkjunum á seinni hluta átjándu aldar. Hann gaf út sjálfsævisögu en hugaði hvorki að stafsetningu né greinarmerkjum svo hún varð nær ólæsilegur orðaflaumur. Þegar lesendur kvörtuðu yfir þessu bætti Dexter við blaðsíðu aftast í bókina með 13 línum af engu nema punktum og kommum.

 

Ævi hans var nokkurn veginn svona:

 

Dexter var fæddur árið 1748 og hlaut aldrei menntun. Til að framfleyta sér vann hann við ýmis störf sem barn og gerðist aðstoðarmaður á leðurverkstæði 16 ára. Nokkrum árum síðar kvæntist hann forríkri ekkju og fluttu þau á stórt óðalssetur.

 

Samborgarar Dexters, sérstaklega í hinu efra lagi samfélagsins, litu hann hornauga og álitu hann heimskan. Hófu þeir vísvitandi að veita Dexter vond ráð og ábendingar í viðskiptaheiminum í þeirri von að hinn nýkvænti nýríki leðursveinn myndi snöggtapa auðæfum sínum.

 

Þótti það til marks um annálaða fávisku Timothy Dexters þegar hann keypti gífurlegt magn peningaseðla sem höfðu hrunið stórkostlega í verði í sjálfstæðisstríði Bandaríkjanna, en nokkrir ólíkir gjaldmiðlar voru í notkun á þessum æskuárum stórveldisins.

 

Dexter græddi síðar stórfé á þessum viðskiptum sínum þegar gjaldmiðillinn rauk aftur upp í verði. Honum var þó hvergi klappað lof í lófa því hagnaðurinn var miklu frekar talinn til kominn vegna heppni Dexters frekar en viðskiptakænsku.

 


Lesið ævisöguna hér.

Flutti ull til Karíbahafsins og kol til Newcastle

Óvildarmaður Dexters benti honum lævíslega á að sniðugt væri að flytja ullarvörur til hinna hlýju Karíbahafseyja þar sem hitabeltisloftslagið yljar mönnum á öllum tímum árs. Dexter sló til og sendi þúsundir ullarvettlinga til hitabeltisins. Þegar skipið lá í sólbakaðri höfninni með óhreyfða ullina í lestum sínum birtust þar óvænt kaupmenn á leið til Síberíu sem keyptu allan farminn á góðu verði!

 

Næsta viðskiptaævintýri var ótrúlegast. Í ensku er orðtakið að flytja kol til Newcastle notað um sama verknað og að bera í bakkafullan lækinn á Íslandi og að flytja uglur til Aþenu á Grikklandi, að flytja eitthvað á stað þar sem ofgnótt er fyrir. Já, Dexter fyllti heilt skip af kolum og stefndi því til Newcastle. Um það leyti er skipið nálgaðist strendur Englands skall á verkfall kolanámumanna og gríðarleg eftirspurn eftir kolum myndaðist um leið!

 

Laug því að eiginkonan væri látin

Timothy Dexter var ekki vinsæll maður þar sem hann bjó í Newburyport-borg. Margir öfunduðu hann eða fyrirlitu vegna auðsins mikla sem hann hafði safnað og fengið af tilviljun og heppni. Dexter fór að verða alræmdur vegna heimiliserja – en hann stóð í stöðugum rifrildum við eiginkonu sína og börn. Á tímabili var svo komið að Dexter laug því að gestum sem bar að garði að kona sín væri látin. Þegar gestirnir þóttust hafa séð henni bregða fyrir í húsinu, úrillri og sárkveinandi, sagði Dexter það aðeins vera afturgöngu hennar sem svifi enn yfir vötnum á óðalssetrinu.

 

Dexter safnaði ýmsu glingri til að hafa við setrið og kom gylltum erni fyrir á þaki þess. Hann lét byggja grafhýsi undir sig í garðinum og reisti styttur af þeim er hann taldi mestu stórmenni heims: George Washington, William Pitt, Napóleon Bonaparte, Thomas Jefferson og auðvitað Timothy Dexter! Við styttuna af honum voru orð greypt í steininn: „Ég er fremstur í austrinu, ég er fremstur í vestrinu og mesti heimspekingur hins vestræna heims!“

 

Sviðsetti eigin jarðarför

Þegar Dexter varð fimmtugur skrifaði hann minningar sínar og gaf þær út í sjálfsævisögunni A Pickle for the Knowing Ones or Plain Truth in a Homespun Dress. Hann ræddi þar eigin mikilfengleika og baktalaði ýmsa samferðamenn sína, vini, viðskiptafélaga og eiginkonuna.

 

Bókin var nær níu þúsund orða löng en skrifuð án allra greinarmerkja sem gerði textann geysilega torskilinn og illlæsilegan. Auk þess var stafsetningin hörmuleg. Bókin varð gríðarlega vinsæl og þurfti að prenta hana átta sinnum. Þegar fólk kvartaði yfir að erfitt væri að lesa bókina vegna greinarmerkjaleysisins bætti Dexter við blaðsíðu aftast í bókina með 13 línum af engu nema punktum og kommum. Hann bað lesendur sína að krydda textann eins og þeim sjálfum þóknaðist.

 

Greinarmerki aftast í ævisögunni.

 

Eitt merkasta atriði í lífi Timothy Dexters, sem skráð er í sögubækur hins fáránlega, var þegar hann hélt sýndarjarðarför. Hann sat eitt vetrarkvöld við arineld og velti fyrir sér hver eftirmæli hans yrðu. „Hvað mun fólk segja um mig þegar ég dey?“ Dexter lét þau boð út ganga að hann væri látinn; 3.000 manns mættu í líkvökuna. Eiginkona Dexters var andsnúin hugmyndinni og neitaði að gráta krókódílatárum við athöfnina. Fyrir það refsaði hann henni með ofbeldi. Timothy Dexter lést örfáum árum síðar, árið 1806.

 

Hér er líka hægt að lesa ævisöguna með ítarefni.