Það er örugglega ágætt að vera kóngafólk, enda getur kóngafólk gert ýmislegt sem við hin getum ekki jafn auðveldlega. Segjum sem svo að maður haldi sérstaklega upp á ákveðna sjónvarpsþætti og langi ekkert fremur en að leika í þáttunum sjálfur. Að uppfylla slíkar óskir er lítið mál ef maður er kóngafólk. Spyrjið bara Abdullah II Jórdaníukonung. Abdullah karlinn er mikill aðdáandi geimþáttanna vinsælu Star Trek. Árið 1995, þegar hann var krónprins, lét hann menn sína redda sér aukahlutverki í þætti í annari seríu Star Trek: Voyager.

 

Því miður gat Abdullah ekki reddað sér inngöngu í stéttarfélag bandarískra sjónvarpsleikara, og því fékk hann ekki að segja neitt. Konungurinn tilvonandi sést aðeins í örfáar sekúndur, þar sem hann stendur á gangi geimsskipins og starir aðdáunaraugum á skipverjann Harry Kim. Hann hefur sig síðan hljóðlega á brott þegar Kim þarf að fara að sinna erindum meira áríðandi en að kynda undir nördalegum hégómsskap í jórdönskum krónprinsi.

 

Vídjó

Að sögn leikaranna í Star Trek: Voyager var Abdullah hinn ljúfasti á meðan tökum stóð og bauð síðan tveimur leikurum, Robert Picardo og Ethan Phillips, í heimsókn til Jórdaníu.

 

Næst á dagskrá hjá Abdullah II konungi er að byggja Star Trek-skemmtigarð í jórdönsku hafnarborginni Aqaba, sem mun verða tilbúinn árið 2014.

 

Abdullah II konungur í annarskonar einkennisbúningi.