Í júlíbyrjun árið 1910 var þýska skemmtiskipið Grosser Kürfurst frá Brimarhöfn í Reykjavík. Það var fullt af þýskum og frönskum ferðamönnum sem stigu á land í tvo daga og ferðuðust um Reykjavík og nágrenni.

 

Einn skipverja var ónefndur franskur ferðamaður sem tók 78 ljósmyndir á Íslandi yfir þessa daga og límdi inn í albúm með handskrifaðri ferðasögu. Í albúminu eru einnig myndir frá Skotlandi, Jan Mayen, Svalbarða og Norður-Noregi. Myndirnar eru varðveittar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Og hér birtum við fjórar þeirra.

 

Írski rithöfundurinn Henry De Vere Stacpool var einnig staddur í Reykjavík á sama tíma, en líklegt að hann hafi komið með sama skipi. Hann skrifaði langa grein um ferðina til Íslands en hún birtist í Vestur-Íslendingablaðinu Lögbergi árið 1912.

 

Henry De Vere Stacpool öðlaðist heimsfrægð árið 1908 þegar hann sendi frá sér rómantísku skáldsöguna Bláa lónið, sem fjallaði um ástir tveggja unglinga sem eru strandaglópar á paradísareyju í Kyrrahafinu. Bókin hefur verið kvikmynduð nokkrum sinnum en líklega er myndin frá 1980, sem skartaði kornungri Brooke Shields, þeirra frægust.

 

Írski rithöfundurinn ferðaðist víða um heiminn og skrifaði ferðasögur um exótíska staði sem fáir heimsóttu – til dæmis norðurslóðir og Kyrrahafseyjar.

 

Í grein sinni um Ísland dregur hann upp, innan um gamalkunnar klisjur, athyglisverða mynd af Reykjavík, sem þá var ekki nema lítið þorp í dreifðu og fátæku landbúnaðarsamfélagi.

 

Hér birtum við greinina eins og hún birtist í þýðingu Lögbergs.

Hér sjáum við íslenskar stúlkur dansa á túni við Esjurætur í botni Kollafjarðar. Þar var haldin skemmtun til heið­urs erlendu gest­unum af skip­inu. Ferðamennirnir fóru í dags­ferð til Mosfellssveitar og var greini­lega vel tekið af heimamönnum.

 

Ekkert nema kindur og smér, saltfisk, hross og skáld

 

„Það er ómögulegt að sjá það á íslenzkum karlmönnum, hvaða landsmenn þeir eru, hvort heldur þýzkir, danskir eða sænskir, en íslenzkt kvenfólk er engu líkt nema sjálfu sér, og alveg ólíkt öllu öðru kvenfólki sem eg hef séð.

 

Það kemur sjaldan fyrir að íslenzkar stúlkur brosi. Þær gjalda ekki bros við brosi, einsog þeirra suðrænu systur; manni er alls ekki um það gefið í fyrstunni, hvað þurlegar þær eru, sérstaklega þarsem maður kemur í búðir að kaupa. Eg kunni ekki annað í íslenzku en „og“ og „já“, og varð að gera mig skiljanlegan með bendingum, en þegar svo stendur á, léttir það svo fjarskamikið undir ef bros mætir brosi.

 

En þegar frá líður, hætti maður að þykkja þennan þyrking í svip og fasti, með því að hann sprettur hvorki af ógeði né kaldlyndi, heldur af einhverju öðru, sem eg veit varla hvaða nafn eg á að gefa, nema ef vera skyldi það að þær fari hátíðlega hjá sér. Þetta kvenfólk virðist alla tíð búa yfir einhverjum miklum, sútfullum þankabrotum, einhverjum háleitum, almennum sorgarþanka, álíka og ef einhver þjóðskörungur hefði dáið deginum áður og enginn vissi neitt um það, nema kvenfólkið.

 

Frá svölum þess hótels sem eg gisti á blasir við mér eldbrunninn fjallahringur, forvörður þess eyðilega og hrjóstruga landsvæðis, þarsem Þingvelli og Geysi er að finna, svo og Gullfoss, en fegurð hans róma allir ferðamenn.

 

Til norðurs eru víkur og vogar og við sjóndeildarhring ber þar Snæfellsjökul, en ofan um gíg hans lætur Jules Verne þá menn fara, er hann segir frá í ferðinni að miðpunkti hnattarins.

 

Stacpool fór ekki í Bláa lónið á Íslandi en skrifaði hins vegar bók sem hét því nafni. Hún fjallaði um tvo unglinga sem búa einir á eyðieyju. Fræg bíómynd var gerð eftir sögunni sem skartaði Brooke Shields.

Fyrir fótum mér er torgið í Reykjavík; þar stendur lúðraflokkur af lystiskipinu Grosser Kurfurst hjá líkneski Thorvaldsens og spilar fyrir fólkið. Það er aðeins hálf stund til miðnættis, en þó nálega eins bjart eins og á degi.

 

Eg sé mörg skáld fyrir mér á þessu torgi, nærri allir Íslendingar yrkja og margir þeirra eru skáld. Á Íslandi eru mennirnir eins ólmir að skrifa og skálda einsog eldfjöllin að gjósa: eg veit fyrir víst að meðal fjöldans niðri á götunni eru um tuttugu ritstjórar, vegna þess að allir sem vetlingi geta valdið í Reykjavík eru þar staddir, og þar eru gefin út 20 blöð í hverri viku. Sá lítilmótlegasti sem fyrir þér verður, er vel líklegt að sé rithöfundur og eg get borið um að sú bezta bók sem eg hef lesið um Ísland var eftir leiðsögumann ferðamanna.

 

Mig bar svo hátt yfir á svölunum, að eg sá yfir torgið og þinghúsið og til tjarnarinnar bakvið; meðfram henni, standa laglegustu íbúðarhúsin. Flestöll hús í Reykjavík eru úr tré og lögð bárujárni. Þó ekki sé vænlegt að heyra, þá eru þau samt traustleg og lagleg til að sjá, með því að þau eru mjög ramlega bygð og fallega máluð. Það er óhætt að segja að það er furðuleg sjón, þegar þess er gætt að efnið er aðkeypt utanlands frá; því að Íslandi fæst hvorugt, bárujárn né viður.

 

Ísland hefir ekkert aflögum nema kindur og smér, saltfisk, hross og skáld. Eg tala nú ekki um hin kynlegu áhrif á ímyndunaraflið er stafa frá þeim þokudumbung er landinu fylgir og oss mætti langt úti í hafi, heltist yfir oss hjá gnúpum og suðandi gjögrum Vestmannaeyja og komst í algleyming þegar „úfið risaklungur“ og afréttarvatn blasir við manni af hæðinni fyrir ofan Þingvelli.

 

Þar er langt komið frá sjó, láglendið eins eyðilegt og hugsast getur, en yfir því og allt um kring mæna fjöllin með basalt virkjum og vígisturnum; því líkustum, sem gerð væru af fordæmdum önum, og er sú sjón áhrifamikil og ömurleg. Gnýpur og höfðar vaða í þoku og virðast þjóta hjá líkt og fylking brynjaðra riddara á harða ferð.“

 

 

Iðandi mannlíf í Hafnarstræti.

 

 

Vegfarendur spjalla saman í Pósthússtræti.