Árið 1966 fékk Jim Henson, höfundur Prúðuleikaranna, hugmynd að nýrri gerð af skemmtistað. Hann vildi steypa saman öllum mögulegum miðlum fyrir einn klúbb – Cyclia – sannkallaða orgíu skynfæranna. Í upphafi var markmiðið að abstrakt teikningar og mynstur  sem kölluðust á við tónlistina yrði varpað á tjöld til að hughrif gestanna yrðu sem mest – en eftir sem á leið gat hinn frjói hugur Henson ekki stillt sig um að bæta við æ fleiri ævintýralegum pælingum við hönnunina, margt af því á mörkum hins framkvæmanlega.
 

Vídjó

 
Auk sækadelísku myndskeiðanna sem varpað yrði bæði á veggi og loft vildi Henson hafa lifandi tónlist, go-go dansara, hljóð- og ljósabúnað sem þekktist ekki áður inni á klúbbum og gólf sem myndi glóa, blikka og skipta um lit. Af þessari lýsingu að dæma var Henson kominn með hugmyndina að diskóteki, heilum áratug áður en slíkir staðir fóru að stinga upp kollinum. Hugmyndaflug Henson teygði sig þó enn lengra, því hann var einnig með háfleygar hugmyndir um arkitektúr og innréttingar Cyclia.
 
Hann sá fyrir sér litríka hvelfinu með einum risavöxnum aðalsal sem  gæti haldið um 300 manns. Um tylft 16mm myndvarpa sem dreift væri um salinn myndu sýna myndir af vötnum og skógum þegar leikin yrðu róleg lög, en svo tækju við tryllingslegar myndir af mannmergð stórborgar og blikkandi neon-ljósum þegar sýrurokkið byrjaði. Húsgögnin áttu að vera ultra-módern og loftið hannað þannig að það minnti á skorinn demant, ekki ósvipað loftinu í Hörpunni okkar góðu.

 

Árið 1967 var Henson og teymi hans komið á fulla ferð í undirbúningi að Cyclia. Á meðal þeirra sem voru Henson til  halds og trausts var Frank Oz, sem síðar átti eftir ljá rödd sína bæði Svínku  í Prúðuleikurunum og Yoda í Stjörnustríðsmyndunum. Tekið var upp ótrúlegt magn af myndefni, þar á meðal fengu þeir leyfi til að mynda múgæsingu áhorfenda á Bítlatónleikunum á Shea leikvanginum.
 
Leitað var að heppilegu húsnæði sem rýmt gæti þessa ofvöxnu drauma Henson og til greina komu húsnæði bæði í Los Angeles og New York. Reynt var að vekja áhuga fjárfesta með frösum á borð við: bylting –  framtíð skemmtanahalds – hvirfilbylur lita og tóna…
 

Cyclia að innanverðu

Árið 1969 var hugmyndin enn í smíðum – en áhuginn fór dofnandi og önnur verkefni voru byrjuð að toga í mannskapinn, ekki síst Henson sjálfan. Hann hafði gert nokkrar tilraunakenndar og tormeltar stuttmyndir á Cyclia-árunum, þar á meðal eina sem tilnefnd hafði verið til Óskarsverðlauna – en einnig nokkrar auglýsingar.
 
Miðað við þessi verkefni síðustu ára er ekki erfitt að skilja að Henson hafi verið nokkuð efins þegar framleiðsluteymið Children’s Television Workshop nálgaðist hann varðandi þátttöku í barnaefni með fræðslugildi. Að lokum þáði hann boðið vegna þess að honum fannst svo mikið til félagslegu markmiða þáttargerðarinnar koma.

 
Hann fékk ennfremur tækifæri til að halda áfram að þróa persónu nokkra sem hann hafði notað í brúðuþáttunum Sam and Friends á árunum 1955 til 1961 –  hliðarsjálf sitt, froskinn Kermit. Þættirnir fengu heitið Sesame-stræti – sem er eins og allir vita eitt vinsælasta barnaefni allra tíma.

 

Vídjó

 

Nokkrum árum síðar fékk Jim Henson loks grænt ljós á framleiðslu eigin sjónvarpsþáttaseríu þar sem hugmyndaflugi hans voru engin takmörk sett. Prúðuleikaranir Kermit, Svínka, Gonzo, trommuleikarinn Dýrið og ógrynni annarra litríkra persóna sáu til þess að fólk úr öllum aldurshópum gæti hlegið saman fyrir framan sjónvarpið. Skemmtistaðurinn Cyclia varð hinsvegar aldrei að veruleika.

 

Jim Henson í góðum félagsskap