Vídjó

 

„Það má jafnan telja merkisviðburð hjer, þá er hin stóru ferðamannaskip koma hingað, enda setur ferðamannafjöldinn sjerstakan svip á bæinn í hvert skifti. — Þetta sást og í gær, enda var það engin furða, þar sem svo margir ferðamenn komu með „Carinthia“.“

 

Þessi orð birtust í Morgunblaðinu hinn 9. júlí 1926 þegar skemmtiferðaskipið Carinthia frá Liverpool var í Reykjavík. Farþegarnir voru 350 bandarískir broddborgarar á siglingu um norðurslóðir.

 

Með skipinu var frægur ferðamaður, Burton Holmes að nafni, en hann er talinn brautryðjandi á sviði ferðakvikmynda og ferðaðist um allan heim á millistríðsárunum. Ljósmyndir hans og kvikmyndir þykja hvarvetna ómetanlegar heimildir – glöggt er gests augað – og kvikmyndin hér að ofan frá Reykjavík er gott dæmi um það.

Burton Holmes (1870-1958)

 

„Hefir Burton Holmes eigi gert annað í 25 ár en að ferðast um heiminn og halda svo fyrirlestra og sýna myndir — fyrst skuggamyndir og síðan kvikmyndir — frá þeim löndum er hann hefir ferðast um. —

 

Mr. Holmes hefir nú með sjer aðstoðarmann, Franklin Lavarre frá Honolulu. Tóku þeir báðir kvikmyndir hjer í gær og í fyrrakvöld. Í fyrrakvöld tóku þeir t.d. myndir af höfninni hjer og „Botniu“ er hún fór hjeðan; einnig af söngflokknum, sem kom um borð. En myndir af glímumönnunum mistókust þá. Þess vegna fjekk Mr. Holmes fjóra bestu glímumennina, ásamt Sigurjóni Pjeturssyni, til þess að koma um borð í gær og sýna þar glímu eftir fegurstu reglum listarinnar og voru þar teknar myndir af öllum brögðum, og vörnum gegn þeim.

 

Var Holmes ákaflega hrifinn af glímunni og munu myndirnar hafa tekist vel. Í gær voru teknar myndir af götulífi í Reykjavík og ýmsum merkum stöðum, svo sem Safnahúsinu og söfnunum, líkneski Ingólfs Arnarsonar, Austurstræti, fiskverkunarstöð og Laugunum.

 

Þótti þeim fengur að fá slíka mynd, þar sem margt fólk er við þvott í sjóðandi laug. — Alls munu þeir hafa tekið 1000 metra „filmur“, en í dag ætla þeir að bæta miklu við, ef veður leyfir.“

 

Dagskráin er kunnugleg og rímar við ferð þýskra ferðamanna sumarið áður, sem Lemúrinn fjallaði um fyrir skömmu. Glíma, söngflokkar, Þingvellir.

 

„Leiðinlegast var, að veðrið var ekki gott, rigning mikinn hluta dagsins og þykt loft. Klukkan um 9 í gærmorgun fór þó allstór hópur, eitthvað um 80 manns austur að Þingvöllum í fjölda mörgum bifreiðum. Var þar veður hið besta, sólskin og blíða allan tímann.“

 

RMS CARINTHIA var gríðarstórt skip, smíðað í Englandi árið 1924. Það tók 1650 farþega og 450 manna áhöfn.

Bæjarbúar í Reykjavík voru farnir að venjast komu ýmissa útlendinga á sumrin, ferðamannastraumurinn var hafinn. En árið 1926 voru ekki bara eintómir túrhestar á flækingi því mánuði áður en Burton Holmes og ferðafélagar stigu á land hafði sjálfur Kristján 10. Danakonungur komið til Íslands. Íslendingar voru jú þegnar hans og tóku á móti honum og Alexandrínu drottningu með pompi og prakt.

 

Loftur Guðmundsson ljósmyndari gerði fræga kvikmynd frá konungskomunni. Hún hefur varðveist og það væri gaman að sjá hana stafrænu formi. Á þessum tímum var koma konungs mikil hátíð fyrir alla landsmenn. Í dag þurfum við ekki að hlaupa niður á höfn til að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum, við sjáum þeim kannski bregða fyrir í sjónvarpsfréttum og það er alveg nóg.

 

Erlendur Sveinsson fjallaði um komu konungs og Burtons Holmes í Vísi árið 1977.  „Það var með komu skemmtiferðaskipsins eins og konungsins í næsta mánuði á undan, að hún hafði bein áhrif á líf fólksins í bænum. Sannaðist enn sú milda speki að fásinnið eflir upplifunarhæfileikann en offramboðið slævir. Auk Þingvalla og Kambabrúnar þótti Hafnarfjörður til að mynda fullboðleg túristaattraksjón.

 

En Íslendingar létu sér þá ekki nægja að sýna landið heldur fóru þeir um borð Carinthiu og skemmtu ferðamönnunum með söng, hljóðfæraslætti og glímusýningum. Í þakklætisskyni héldu ferðamennirnir dansleik um borð. Vafalaust hefur ekki skort veitingar það kvöldið og ef líkum lætur hefur mönnum verið skenkt í glös þeirri veig, sem Einar Benediktsson, skáld, kallar um þetta leyti „ósvikið kláravín“.“

 

Skip í Reykjavíkurhöfn 1926. Mjög líklega Carinthia. Úr Kortasafni Jóns Halldórssonar.

„Við komum til Íslands, til þess að fá sólskin, þá er hjer þoka og súld“

Morgunblaðið ræddi við fararstjórann á Carinthiu, Mr. Alden Degen frá Boston.

„Skýrði hann frá því, að meðal farþega væru 9, sem hefði verið hjer áður á vegum félagsins. Farþegarnir væru nú fleiri en við hefði verið búist í fyrstu og rjeði þar um hvað tíðin hefði verið köld vestra í vor og sumar. „Og svo þegar við komum til Íslands, til þess að fá sólskin, þá er hjer þoka og súld.“

 

— Hvert er ferðinni heitið hjeðan?

— Við förum hjeðan annað kvöld kl. 11 áleiðis til Hammerfest í Noregi og Nord Kap. Þaðan suður með landi til Þrándheims, Bergen og Osló. Þaðan til Kaupmannahafnar. Þaðan til Amsterdam. Þaðan til Southampton í Englandi og er búist við að koma þangað 30. júlí. Þar skilja farþegar við skipið og fara ýmsir á ferðalag víðsvegar um Evrópu.

 

„Carinthia“ fór fyrstu för sína frá Southampton í ágúst í fyrra. Eftir það fór skipið 5 mánaða hringferð umhverfis hnöttinn fyrir Raymond & Whitcomb Co. Í október fer skipið aðra hringferð umhverfis hnöttinn fyrir oss.

 

Auk þess höfum við þrjú önnur skip í förum: „Columbus“ (32.500 smál.) fer til Vestur-Indía; „Laconia“ (20.000 smál.) siglir suður til Panama, gegnum skurðinn, suður fyrir suðurodda Ameríku og heim aftur eystri leiðina. Fjórða skipið heitir „Samaria“ (20.000 smál.) og fer það skemtiför til Miðjarðarhafsins.“ (Mbl 9. júlí 1926).

 

Sorgleg örlög í stríðinu

RMS Carinthia sigldi með farþega um allan heim til ársins 1939, þegar skipinu var breytt í herflutningaskip fyrir breska sjóherinn.

 

Klukkan 13:13 hinn 6. júní 1940 skaut þýski kafbáturinn U-46 tundurskeyti í Carinthiu skammt undan ströndum Írlands. Skipið var mjög laskað eftir árásina en sökk ekki fyrr en 36 tímum síðar. Fjórir drukknuðu.

 

Heimilisblaðið sagði að sjálfsögðu frá konungskomunni á hinu tíðindamikla sumri 1926.

 

 

 

Fyrirlestur Burton Holmes, meðal annars um ferðina til Íslands, auglýstur.

 

Íslenskir krakkar sem Burton Holmes myndaði.