Eitt af því sem hefur gert vestrænan fréttaflutning af borgarastyrjöldinni í Líbýu erfiðan er nafn hins fráfarandi einræðisherra. Það virðast vera til óteljandi leiðir að stafa nafn hans með latneska stafrófinu, og engin leið að koma sér saman um lausn, þó að nægur tími hafi gefist til á hinum 42 árum sem einræðisherrann sat á valdastól.

 

Fyrir heimsókn Gaddafís til Bandaríkjanna í hittífyrra tók fréttastofan ABC saman lista með 112 afbrigðum á nafni einræðisherrans. Greinarhöfundur rakst einnig nýlega á annan lista, sem inniheldur ein 34.560 möguleg afbrigði á nafninu.

 

Það sem veldur þessum langlífa ruglingi er fjölbreytileiki arabískrar tungu. Í raun væri réttara að tala um arabísku sem fjölskyldu skyldra tungumála sem oft eru ekki skiljanleg sín á milli. Meðal þess sem skilur hinar fjölmörgu afbrigði arabískunnar að er framburður. Arabaheimurinn á sér þó sameiginlegt ritmál byggt á klassískri arabísku Kóransins. Með arabísku letri er eftirnafn einræðisherrans القذافي , sem útleggst, með ströngustu reglum klassískrar arabísku, Al-Qaððāfī. Hér kemur hið íslenska Ð að góðum notum við að umrita stafinn „ذ„. Þegar það er ekki til staðar er stafurinn oft umritaður „dh“ eða „ḏ“ eða bara „d“. Fyrsti stafurinn í nafninu, „ق„, er jafnan umritaður sem „q“, en þekkist einnig að hann sé umritaður sem „k“ eða „kh“.

 

„Al“-ið í byrjun nafnsins er ákveðinn greinir, en nafn einræðisherrans vísar í ættbálk hans, Qaððafa. Greini í arabískum nöfnum er oft sleppt — en þannig heitir kollegi Gaddafís í Sýrlandi einnig fullu nafni Bashar Al-Assad, en bara Assad oft látið nægja.

 

Fáir ræða þó saman á klassískri arabísku á götum líbýskra borga. Á mállýsku flestra Líbýubúa er Q-hljóð klassískrar arabísku borið fram sem G, og Ð sem D.  Fyrrverandi þegnar einræðisherrans myndu því flestir kalla hann „Gaddāfī„.

 

Ein tilraun til sátta hefur verið að taka tillit til þess hvernig einræðisherrann sjálfur stafar eftirnafn sitt með latnesku letri. Helsta heimildin um það er bréf sem hann skrifaði til barna í öðrum bekk í skóla einum í St. Paul í Minnesota í Bandaríkjunum árið 1986. Í apríl 1986 var sprakk sprengja á diskóteki í Berlín og drap þrjá gesti, þar á meðal tveggja bandarískra hermanna. Bandaríkin kenndu Líbýu um árásina og svöruðu fyrir sig með því að gera sprengjuárásir á líbýsku borgirnar Trípólí og Benghazi. Þetta sprengjuregn olli 2. bekkingunum í St. Paul hugarangri og þau ákváðu því að senda bréf til Ronalds Reagans annarsvegar og Gaddafís hinsvegar og biðja þá að hætta þessari vitleysu.

 

Reagan lét ekki svo lítið að svara börnunum, en bekknum barst hinsvegar svar frá Gaddafí. Svarbréf hans var að mestu leyti á arabísku og í því fór hann mikinn um „barbarískar amerískar árásir“ og „barnamorðingjana“ Reagan och Thatcher. Í lok bréfsins var þó nafn bréfritara skrifað með latnesku stafrófi, „El-Gadhafi„. Þótti þetta stórtíðindi og ýmsir fjölmiðlar tilkynntu að þetta hlyti að gera útaf við deilumálið um nafn einræðisherrans. Svo varð þó ekki, „El-Gadhafi“ náði aldrei almennilegri fótfestu og er í dag með sjaldséðari útgáfum af nafni hans. (Athygli vekur að þegar fréttastofan AP sagði fyrst frá bréfi Gaddafís til barnanna, var fyrirsögnin „Second-Graders Get Letter From Khadafy.)

 

Enda virðist Gaddafí sjálfur ekki sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum. Árið 2002 fékk einræðisherrann sér heimasíðu  og var henni þá valið slóðin „algathafi.org„. Og eftir að líbýskir uppreisnarmenn lögðu undir sig höfuðstöðvar einræðisherrans í Trípólí í haust fundu þeir meðal annars vegabréf Múhameðs, eins af sona Gaddafís. Þar er hann titlaður „Mohammad Moammar Al-Gathafi, Son of the Leader of the Revolution“. En í viðtali við Newsweek árið 2007 sagði annar sonur, Saif al-Islam, aðhyllast umritunina „Qadhafi„.

 

Vídjó

Uppreisnarmenn státa sig af vegabréfi Múhameðs Gaddafísonar.

 

(Aðalmynd: Skilti í Ghadames lofprísar leiðtogahlutverk Gaddafís í Afríkusambandinu.)