Vopnafjörður á norðausturströnd Íslands heitir eftir landnámsmanninum Eyvindi vopna, en hann nam land í firðinum ásamt Hróaldi bjólan og Lýtingi Ásbjarnarsyni. Í Vopnfirðinga sögu er sagt frá baráttu fylkinga í firðinum á 10. öld, og margslungnum persónum þar.

 

Hér sjáum við ljósmyndir sem Bretinn Frederick W.W. Howell tók á Vopnafirði um aldamótin 1900.

„Vitað er að erlendir kaupmenn sigldu til Vopnafjarðar fyrr á öldum en á einokunartímanum var Vopnafjörður einn af þremur verslunarstöðum á Austurlandi. Þegar verslun var gefin frjáls 1787 hófu ýmsir aðilar að versla á Vopnafirði en 1814 hafði Ørum & Wulff komið sér fyrir og rak upp frá því umsvifamikla verslun í meira en öld. 1918 var Kaupfélag Vopnfirðinga stofnað og rak verslun allt ársins 2004 er félagið lagðist af en var alla öldina einn helsti atvinnurekandinn á staðnum. Kaupfélagið rak auk verslana slátur- og frystihús, bifreiðaverkstæði og trésmiðju ásamt því að vera hluthafi í fyrirtækjum,“ segir á vefsíðu Vopnafjarðarhrepps um sögu staðarins.

 


„Hafnaraðstaða er miður góð frá náttúrunnar hendi og höfnin var illa varin. Urðu bátar oft fyrir skemmdum í vondum veðrum. “

 

Á vefsíðu hreppsins má lesa fróðlega samantekt um húsin í þorpinu, sem við sjáum sum á myndunum:

 

„Kaupvangur eða Faktorshúsið er eitt af gömlu húsunum í bænum. Það var byggt sumarið 1884. Byggingameistarinn var hinn danski Fredrik Bald, sá hinn sami og reisti Alþingishúsið í Reykjavík. Danska verslunarfélagið Ørum & Wolff nýtti húsið til 1918 en þá keypti Kaupfélag Vopnfirðinga húsnæðið og rak þar verslun til ársins 1959.“

 

Howell var mikið á Íslandi á síð­asta áratug nítj­ándu aldar og starf­aði meðal ann­ars sem leið­sögu­maður fyrir erlenda ferða­langa. Hann gekk á Hvannadalshnúk árið 1891, hugs­an­lega fyrstur manna, og fór yfir Langjökul þveran 1899. En Howell drukkn­aði í Héraðsvötnum sumarið 1901 og var jarð­aður að Miklabæ.

 

Lemúrinn mælir með bók­inni Ísland Howells — Howell’s Iceland (1890–1901), eftir list­sagn­fræð­ing­inn Frank Ponzi, en hún kom út árið 2004.

 

„Howell tók þessar myndir á þeim tíma sem nútíma­menn­ing var vart farin að ryðja sér til rúms á Íslandi, og því hafa þær mikið heim­ilda­gildi,“ sagði Ponzi í við­tali við Morgunblaðið árið 2004. Ljósmyndasafnið er geymt hjá Cornell University Library.

 

Fleiri myndir eftir Howell hér.