Húsin sem við sjáum til vinstri á samsettri mynd af Austurvelli eru ekki lengur til. Því þau brunnu til kaldra kola í hræðilegum eldsvoða í Reykjavík árið 1915 þegar heil 12 hús brunnu í miðbænum. Var eldurinn svo mikill að til hans sást alla leið til Keflavíkur. Tveir létust í brunanum.

 

Þetta var aðfaranótt 25. apríl 1915. Það var vor  í lofti og glæsileg brúðkaupsveisla hafði farið fram um kvöldið. Veislan fór fram á Hótel Reykjavík, sem var glæsilegt og stórt timburhús sem stóð við Austurstræti. Það má sjá á samsettu myndinni fyrir og ofan einnig hér að neðan. Húsið við hlið þess var kallað Syndikatið.

 

Hótel Reykjavík um 1910. Mynd: Magnús Ólafsson.

 

Um klukkan þrjú um nóttina kom skyndilega upp eldur í einu herbergja hótelsins. Það hafði hins vegar ekki verið í notkun þetta kvöld, ekki nema sem geymsla fyrir fáeinar flíkur brúðkaupsgesta.

 

Eldurinn magnaðist hratt og ekki leið á löngu uns hann barst í nærliggjandi hús með skelfilegum afleiðingum. Við verðum að muna að Reykjavík var agnarlítill bær í samanburði við það sem hann er núna. Lemúrinn birti til dæmis um daginn kort frá 1909 sem sýnir Reykjavík sem þá var ekki nema nokkrar götur. Þetta var því mikill skaði fyrir lítið samfélag.

 

Slökkvilið var frumstætt á þessum árum og raunar illa búið miðað við viðmið síns tíma.

 

Hér birtum við ítarlega grein Guðmundar Karlssonar brunavarðar sem birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 26. febrúar árið 1950. Guðmundur var mikill sérfræðingur um brunann mikla og skrifaði bókina Í björtu báli sem út kom árið 1963 þar sem fjallað var um málið frá ýmsum hliðum.

 

Greinin sem hér birtist segir frá öllum helstu málavöxtum. Guðmundur reynir að kanna ástæður brunans, en eldsupptök voru aldrei kunn. Greinin er nokkurs konar spennusaga um raunverulegan og hræðilegan atburð sem varð í hjarta miðborgarinnar fyrir tæpum 100 árum síðan.

 

„Hótel Reykjavík að brenna. Yst til vinstri sést á Herdísarhúsið.“

Mögnuð mynd Magnúsar Ólafssonar af brunanum mikla. „Hótel Reykjavík að brenna. Yst til vinstri sést á Herdísarhúsið.“

 

 

Guðmundur Karlsson brunavörður: Bruninn mikli 1915

 

LAUGARDAGINN 24. apríl 1915 voru gefin saman í hjónaband jungfrú Jósefína Zoëga og Mr. Hobbs fiskkaupmaður.

 

Helgi Zoëga hjelt brúðkaupsveislu dóttur sinnar og fór hún fram að Hótel Reykjavík, en það var timburhús, tvær hæðir og ris og stóð þar sem nú er versl. Júlíusar Björnssonar og Skóversl. Stefáns Gunnarssonar við Austurstræti. Eigandi hótelsins var Margrjet Zoëga, systir Helga.

 

Segist Helga svo frá, að kl. um tvö hafi veislugestir flestir farið, en brúðhjónin kl. um hálf þrjú um nóttina. Klukkan lauslega þrjú voru þau að fara, Helgi og fólk hans, voru um það bil að kveðja Margrjeti.

 

Annað fólk statt í húsinu, voru tvö börn Einars Benediktssonar, en hann var tengdasonur Margrjetar, Guðjón Jónsson dyravörður, nú kaupm., Englendingur nokkur er þar bjó og nokkrar þjónustustúlkur. Runólfur Stefánsson, vinnumaður hjá frú Margrjeti var genginn til náða á herbergi sínu er var á kvisti hússins.

 

Í Ingólfshvoli, sem enn stendur á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis, bjó ásamt konu sinni, Eggert Briem bóndi frá Viðey. Hjá honum voru gestir þetta kvöld, Guðjón Sigurðsson úrsmiður, Ólafur Björnsson ritstj. og Hannes Hafstein þá bankastj.

 

Kl. tæplega þrjú fóru gestirnir og fylgdu þau hjónin gestunum heim á leið eða suður að apótekinu, en það var þá á horni Thorvaldsensstrætis og Kirkjustrætis. Kvöddu þau þar gestina og sneru heim á leið.

 

Varð Eggert þá litið á Hótel Reykjavík, en það blasti nú við þeim hjónum handan við Austurvöll. Sá hann þá eldbjarma í glugga á annari hæð. Hljóp Eggert þegar af stað sem fætur toguðu og kallaði um leið:  „Eldur!  Eldur!“.

 

Heyrðu  til hans tveir menn, er voru á gangi þar skamt frá, en annar þeirra mun hafa verið Þórður Geirsson, þá næturvörður. Brugðu þeir þegar við og gerðu slökkviliðinu aðvart með svo kölluðum „brunakallara“ eða það sem nú er nefnt brunaboði.

 

Bruninn mikli 1

 

Eggert hljóp nú áfram að hótelinu og inn í veislusalinn á fyrstu hæð, en þar var fólkið statt, sem fyr segir frá. Kallaði hann upp að kviknað væri í húsinu, en ekkert þeirra virtist trúa því.

 

Hljóp Eggert áfram upp stigann og upp á loftið. Kom fólkið á eftir honum þrátt fyrir vantrú sína.

 

Margrjet opnaði nú hurðina að herbergi sínu, er var nr. 29 og sást þar ekkert athugavert. Reyndi hún því næst dyrnar að nr. 28, en tókst ekki að opna þær, sem ekki var von, því þær voru læstar. Kom nú Guðjón Jónsson, sneri lyklinum í skránni og opnaði dyrnar.

 

Var herbergið þá alelda að innan, þó mest að ofan, eftir því, sem þeim segist frá. Var myrkur niðri við gólfið og gátu þau sjer þess öll til að þar hefði safnast saman reykur og gas.

 

Eldurinn magnaðist nú strax er hurðin var opnuð og ætlaði Guðjón því að skella henni aftur, en tókst ekki. Virðist hún því hafa verið skilin eftir opin.

 

Margrjet ætlaði nú inn í herbergi sitt til að ná í einhverja muni, er hún hugðist bjarga, en Guðjón varnaði henni þess og þaut fólkið nú út á götu, enda mátti ekki seinna vera, því nú kváðu við sprengingar, hver eftir aðra og varð húsið alelda á einu augabragði.

 

Vinnustúlkur komust þó út úr kjallaranum um glugga. Guðjón braust einnig inn í kjallarann til að loka fyrir gasið, en húsið var lýst með gasljósum.

 

Eggert hljóp nú að þinghúsinu og braut brunaboða, og var það annað kallið, er kom fram á slökkvistöðinni. Þórður Geirsson hafði þegar gert aðvart.

 

Áfram hljóp Eggert og niður að slökkvistöð í Tjarnargötunni. Þar var Gísli Halldórsson varðmaður ásamt öðrum manni. Voru þeir þegar komnir út með slönguvagn og á leið að eldstað.

 

Eggert tók nú við vagninum og fór með hann ásamt Kolbeini Þorsteinssyni, trjesmíðameistara, er var í slökkviliðinu, en Gísli fór að vekja slökkviliðsstjóra og slökkviliðið, en það var gert með hringingu heim til þeirra.

 

Slökkviliðsstjóri var þá Guðmundur Olsen, kaupmaður, en vara slökkviliðsstjóri Pjetur Ingimundarson, síðar slökkviliðsstjóri.

 

Sögðu þeir síðar að hringt hefði verið til sín eðlilega snemma, eða um kl. 3.15.

 

Var slökkviliðsstjóri kominn á eldstað um 8 mínútum síðar, að því er hann segir sjálfur frá.

 

Þess ber að geta, að einhverju örlitlu getur munað um tímaákvörðun í þessu sambandi eins og sjest á eftirfarandi bókun í dagbók slökkvistöðvarinnar frá þeim tíma:

 

Ár 1915 hinn 25. apríl kl. 3,18 árdegis, kom fram brunaboð frá 10 á 3. línu og frá 12 á 3. línu og 4 á 1. línu og var eldur í Hótel Reykjavík í fyrstunni og breiddist hann út. Miðbæjarliðið var kvatt til og Austurbæjar- og Vesturbæjarliðið.

 

Miðbæjarmenn mættu seint og voru 3 menn sem komu á stöðina eftir 4 mínútur en hinir komu ekki, en fóru að eldinum. 39 slöngur voru notaðar við eldinn. Slökkviliðsmenn mættu allir nema Jónas H. Jónsson og Kristinn Árnason, sem höfðu gildar ástæður, voru fjarverandi. 26. apríl Rvík 1915. G. Olsen.“

 

Stutt og laggott.

 

Bruninn mikli 2

 

Í þá daga voru 36 menn í aðalslökkviliðinu. Var þeim skipt niður í þrjár tólf manna sveitir, Vesturbæjar, Miðbæjar og Austurbæjarlið.

 

Þessir menn höfðu bjöllur heima hjá sjer og voru hringdir út er eld bar að höndum.

 

Auk þessa voru allir verkfærir menn í bænum skyldir til að mæta á eldstað og gengu þá menn um bæinn (brunakallarar) með lúður einn mikinn og framleiddu með honum ámátlegt hljóð. „Brandlúður“ þessi var borinn á brjósti og snúið þar handfangi.

 

Tæki stöðvarinnar voru frekar fábreytt. Þrjár handslökkvidælur, þrír björgunarstigar, einn sjálfheldustigi og átta slönguvagnar.

 

Þótti það víst nóg fyrir ekki stærri bæ en Reykjavík. Þrem árum áður hafði Ágúst Flygenring í Hafnarfirði útvegað vjeldælu frá Svíþjóð, en umboðsmaður var kapteinn Carl Trolle (Trolle & Rothe).

 

Dæla þessi var á fjórum hjólum, sem óalgengt var þá og dældi um 480 lítrum á mínútu hverri. Þáverandi borgarstjóri, Páll Einarsson, taldi dæluna of stórvirka fyrir Reykjavík og vildi ekki kaupa.

 

Var og álitið að ekki þyrfti dælur eftir að vatnsveitan kom 1912. Þessi dæla var síðan geymd hjer, og síðasta árið í vörslu slökkviliðsins.

 

Til gamans má geta þess, að nú mundi jafn afkastalítil dæla sem þessi ekki þykja nothæf við slökkvistarf. Sæmileg slökkvidæla nú á dögum dælir um tveim tonnum vatns á mínútu.

 

Þessi umdeilda dæla var nú tekin traustataki um kl. fjögur um nóttina og stjórnaði henni hr. Jessen frá Stýrimannaskólanum.

 

Er það álit margra að dælan hafi átt sinn stóra þátt í að takast skyldi að stöðva útbreiðslu eldsins þar sem raun varð á.

 

Slökkviliðsstjóra mun hafa fundist að menn mættu ekki nægjanlega fljótt og vel, því hann bað nú menn að fara til brunakallaranna, en þeir voru Magnús Guðmundsson á Bergsstöðum í Austurbænum og Bjarni Pjetursson, blikksmiður í Vesturbænum.

 

Annar þeirra manna, er um þetta voru beðnir var Þórður Geirsson og fór hann til Bjarna og vakti hann.

 

Um hinn veit enginn til þessa dags, en víst er það að Magnús var ekki vakinn og vissi hann ekkert um brunann fyr en hann vaknaði á venjulegum tíma um morguninn.

 

Bjarni tók nú með sjer aðstoðarmann frá verkstæði sínu og fóru þeir með brandlúðurinn vestur um allan bæ og bljesu til skiptis. Hafði Bjarni verið brunakallari í mörg ár og ávalt farið sömu leið um Vesturbæinn. Gerði hann svo í þetta skifti.

 

Kom hann síðan að máli við slökkviliðsstjóra er bað hann um að fara einnig í Austurbæinn. Gekk hann þá eitthvað upp Laugaveg og niður Hverfisgötu. Hjer er sagt frá þessu vegna þess að raddir komu upp um það að láðst hefði að blása í brunalúðrana, en það mun ekki vera rjett, eins og á þessu sjest.

 

Slökkviliðsmenn drifu nú að úr öllum áttum og héldu þeir til húsa þeirra, er geymdu slökkvitækin. Voru þau síðan dregin og borin í Miðbæinn og komið fyrir þar sem best þótti.

 

Var síðan farið að tengja slöngur við vatnshana bæjarins, en nokkrir þeirra reyndust með öllu ónothæfir vegna þess að farist hafði fyrir að tæma þá vatni, hafði síðan frosið í þeim og þeir sprungið.

 

Reynt hafði verið að sprengja þá verstu, en það virtist lítil bót.

 

Tveir vatnshananna, sem nota átti, láku svo mikið að þeir reyndust ónothæfir, en sá þriðji datt alveg í tvent. Var sá á horni Bankastrætis og Lækjargötu.

 

Voru þrátt fyrir þetta tengdar slöngur við eina 10—20 vatnshana, en þrýstingurinn reyndist með öllu ónógur, sem vonlegt var, enda tóku slöngurnar nú brátt að leka hver um aðra þvera.

 

Var nú lokað fyrir vatnsrennslið í Vesturbæinn og nokkuð af Austurbænum, en alt kom fyrir ekki. Hefur vatnsskorturinn lengi verið þyrnir í augum slökkviliðsins í Reykjavík og er það enn.

 

 

Bruninn mikli 3

Edinborgarhúsið í Austurstræti (en þar voru Egill Jacobsen og Nathan & Olsen).

 

Nú er að víkja að eldinum.

 

Hótel Reykjavík varð strax alelda og var ekki viðlit að bjarga þaðan út dauðu nje lifandi. Kom brátt í Ijós að vinnumaður Margrjetar, Runólfur Stefánsson, hafði ekki komist út og brann hann inni.

 

Hægur vindur var af suð-suðvestri og skýað loft. Breiddist eldurinn brátt í húsið nr. 14 við Austurstræti, á suðvesturhorni Pósthússtrætis og Austurstrætis.

 

Hús þetta var þrílyft timburhús, nýbyggt og eign Th. Thorsteinssonar kaupmanns. [Svokallað Syndikat, húsið sem við sjáum á samsettu myndinni efst í greininni við hliðina á Hótel Reykjavík]

 

Brann það niður á skömmum tíma og bjargaðist lítið sem ekkert þaðan út. Handan Pósthússtrætis var þá verslunarhús „Godthaab“. Náði eldurinn því og brann það til grunna.

 

Ógerningur var að komast að eldinum Austurstrætismegin, því eldhafið lagði yfir götuna og hitinn óbærilegur.

 

Barst eldurinn því bráðlega í húsin norðan Austurstrætis, Landsbankann á horninu og næsta hús þar vestur af, en þar voru til húsa Nathan & Olsen og EgiII Jacobsen og þar vestar kjötbúð Gunnars Gunnarssonar. Þá brann svokallað Herdísarhús er var næst Hótel Reykjavík að vestan, eða þar sem verslunarhús Ragnars Blöndal er nú.

 

Var eldurinn stöðvaður í Austurstræti að sunnan við nr. 8 (Ísafold), en þar var sund á milli húsa og svokallaður „brandgafl“.

 

Var segl breitt þar á og dælt stöðugt vatni. Norðan Austurstrætis var eldurinn stöðvaður við hús Ólafs Sveinssonar nr. 7, þar sem nú er Búnaðarbankinn.

 

Enn breiddist eldurinn út til Hafnarstrætis, og í Edinborgarhúsin tvö og hús Gunnars Gunnarssonar. Á horni Pósthússtrætis var nýlegt hús, Ingólfshvoll, er enn stendur.

 

Þar kviknaði í þaki og brann mikið af efstu hæð, en var þá slökt.

 

Voru þá 10 hús brunnin niður í grunn og það ellefta, Ingólfshvoll, stórskemt. Útveggir Landsbankans stóðu að vísu enn, enda voru þeir úr steini.

 

Um tíma kviknaði og oft í hinu nýja Pósthúsi, en þar tókst að slökkva áður en verulegar skemdir yrðu.

 

Eldhafið var ægilegt á að líta og geta menn gert sjer í hugarlund af myndum þeim, sem til eru af bruna þessum, hversu geysilegur eldurinn hefur verið.

 

Enda sást hann greinilega til Keflavíkur og Hafnarfjarðar, enda boðin hjálp þaðan, en kom of seint.

 

Þá komu og skip af hafi til hjálpar. Var það enskt kaupskip, vopnað, og dró það fána í hálfa stöng til samúðarmerkis.

 

Hitt skipið var eftirlitsskipið Geir og lánaði það vjeldælu, Utla, til notkunar við slökkvistarfið.

 

ÖII áhersla var nú lögð á að stöðva útbreiðslu eldsins frá því, sem orðið var, því auðsjeð var að ekki þýddi að reyna að slökkva í húsum þeim, er þegar brunnu.  Kom jafnvel til mála að sprengja upp og rífa hús þau, er þóttu í mestri hættu. Var þó horfið frá því ráði, enda tókst nú að halda eldinum í skefjum.

 

Eitt af húsum þeim, er reynt var að ráði til að slökkva í, var Ingólfshvoll. Var það nýlegt steinhús, bygt 1903 og átti það Guðjón Sigurðsson úrsmiður, faðir Gunnars skipamiðlara í Reykjavík.

 

Kviknað var í efstu hæð og þótti reynandi að koma slöngum upp á þakið og freista að slökkva í því. Var þá reistur stigi upp við húsið, en  hann reyndist of stuttur.

 

Var Guðjón staddur við húsið og áhugasamur um að tækist að bjarga húsinu, sem vonlegt var.

 

Matthías Þórðarson, þjóðminjavörður var og staddur þarna. Segist honum svo frá að Guðjón hafi talið að nauðsynlegt væri að koma slöngu upp á þakið og eina leiðin til þess væri að fara upp á þak í gegnum húsið.

 

Ætlaði hann þá strax að láta til skarar skríða og leggja af stað. Matthías þóttist vita að lífshætta væri hverjum manni að reyna slíkt og helt því í Guðjón, og hugðist varna honum að fara. Hafði

 

Guðjón þá rifið sig af honum og sagt sem svo að hann rjeði líklegast sjálfur hvað hann tæki sjer fyrir hendur í sínu eigin húsi.

 

Hljóp hann síðan inn í brennandi húsið. Segir í einu af dagblöðum bæjarins frá þeim tíma að Geir Sigurðsson,  skipstjóri, hafi hlaupið á eftir honum, en orðið að hverfa frá við efstu hæð vegna elds og reyks.

 

Guðjón fórst þarna í eldinum og þótti það mannskaði mikill. Mun hann hafa kafnað og fannst lík hans við kvistglugga á þakhæð, lítið eða ekkert brunnið, er tekist hafði að slökkva í húsinu.

 

Guðjón var vel efnaður maður og mælti hann svo fyrir í erfðaskrá sinni að mestur hluti eigna sinna skyldi renna í sjóð til eflingar tónlistarlífi í bænum.

 

Hefur honum að vonum þótt það nokkuð fábreytt í höfuðstað landsins.

 

Eldurinn dvínaði nú hvað af hverju, enda tókst að hefta útbreiðslu hans við það er orðið var og segir G. Olsen síðar að það hafi verið sannkallað kraftaverk.

 

Logaði þó í rústunum í marga daga á eftir. Rask mikið komst á bæjarlífið við bruna þennan, enda varþetta aðal verslunarhverfi bæjarins.

 

Íbúðir voru ekki margar í þessum húsum, aðeins í Hótel Reykjavík og Ingólfshvoli, að jeg held, og var það bót í böli, því húsnæðisleysið var, einnig þá, mikið í bænum.

 

Skaðinn, sem vátryggingarfjelögin urðu fyrir var síðar áætlaður 750.000—1 miljón króna, sem þá var mikið fje, en flest af því er brann virðist hafa verið vátryggt að undanskildu Hótel Reykjavík og innbúi þar. Einnig eitthvað af vörum hjá Gunnari Gunnarssyni.

 

Fyrirtæki þau, sem í húsum þessum voru, urðu skiljanlega fyrir miklu tjóni þótt vátrygt væri, en þó var töluverðu bjargað úr húsunum, sem síðast brunnu og einhverju af skjölum úr skápum, sem áttu að vera eldtraustir, en reyndust misjafnlega.

 

Samúðarskeyti barst frá konungi til ráðherra á þessa leið: „Jeg bið yður að votta djúpa samúð mína út af hinu alvarlega slysi, er hent hefur Reykjavíkurbæ. — Chr. R.“

 

Um upptök þessa mikla eldsvoða er fátt vitað. Herbergið, er eldurinn kom upp í hafði verið læst alt kvöldið og lykillinn staðið í að utan.

 

Þjónustustúlka, Valgerður Guðmundsdóttir, 26 ára, frá Hjeðinshöfða, hafði geymt hatt sinn og kápu í herberginu og ber öllum vitnum saman um að enginn annar umgangur hafi þar verið um kvöldið.

 

Hagaði svo til, að Ijós var ekkert í herberginu, en gaspípan stóð ber niður ur miðju loftinu. Gasljós var a ganginum fyrir utan, gegnt dyrunum, er lýsti inn í herbergið ef hurðin var opin.

 

Segir Valgerður svo frá að um kl. 3 um nóttina, rjett áður en eldsins varð vart, hafi hún farið inn í herbergið og náð í hatt sinn og kápu.

 

Hafði hún einskis óvenjulegs orðið vör. Ljós, eða eld var hún ekki með, en ljet Ijósið i ganginum lýsa sjer. Aðrar upplýsingar  um upptök eldsins komu ekki fram í rjettinum þá, aðrar en ágiskanir. Er stúlka þessi nú dáin fyrir nokkru.

 

Tilgáta ein, er mjer virðist nokkuð sennileg, kom frá Ólafi Theodór Guðmundssyni, trjesmið og slökkviliðsmanni, en hann var yfirsmiður við byggingu hússins og síðan eftirlitsmaður um viðgerðir og var hann því allra manna kunnugastur fyrirkomulagi þess.

 

Gat hann sjer þess til að reykháfur hússins hafi sprungið veturinn áður, en þá gengu jarðskjálftar í Reykjavík.

 

Dag þennan var brúðkaupsveisla í húsinu, sem fyr getur, og eldavjelin því verið rauðkynt mikið af deginum.

 

Hafi þá komist eldur, í trjespæni á milli lofta og verið þar að búa um sig í nokkurn tíma, þar til hann loks braust út.

 

Um sprengingar þær er um getur hjer að framan og menn heldu að væri frá Ijósagasi, þykist jeg mega segja að hafi orðið af öðrum ástæðum.

 

Ólíklegt er að Ijósagas hafi getað orsakað slíka sprengingu, því að annaðhvort hefur logað á gasljósum, eða þau verið lokuð og slíkt gas því alls ekki getað safnast saman á svo skömmum tíma.

 

Gas hefur þó verið orsök þessa, en það gas hefur aðrar orsakir. Því er þannig háttað að er eldur brennur innilokaður nokkra stund, kemur að því að súrefnisskortur verður við eldinn og er bruninn því ófullkominn, sem kallað er, og myndast þá gastegund, sem kolsýrlingur heitir.

 

Þegar svo loft kemst að gasi þessu og nægjanlegur hiti er fyrir hendi, verður sprenging, ekki óáþekk þeim, er lýst er þarna. Þetta hefur komið fyrir við þó nokkra bruna hjer í bæ og þá ekki verið öðru til að dreifa.

 

Erfitt er að koma í veg fyrir slíkar sprengingar við bráða húsbruna en tilraunir í þá átt eru oftast eitt af fyrstu verkum slökkviliðsins.

 

Sennilegt er að stöðva hefði mátt bruna þennan fyr en raun varð á ef slökkvilið bæarins hefði verið betur skipulagt og hefði haft öðrum og betri tækjum á að skipa og má í því sambandi minna á Hótel Íslands brunann.

 

Voru skilyrði til slökkvistarfs við þann bruna að öllu leyti mikið verri, en í þetta skifti, en þó tókst að verja öll nærliggjandi hús.

 

Álit mitt er þó, að slíkur bruni sem þessi, sje ekki með öllu óhugsanlegur enn þann dag í dag í hinum eldri hverfum bæarins, en þar mætti margt gera til úrbóta með litlum tilkostnaði, ef rjett væri á haldið.

 

Læt jeg svo útrætt um atburð þennan, en hann mun mesti bruni er á Íslandi hefur orðið til þessa dags. Vil jeg að lokum geta þess að heimildir mínar eru að mestu rjettarskýrslur frá þeim tíma og dagblöð bæarins að nokkru leyti.

 

Hafnarstræti, lengst til vinstri sést Ingólfshvoll.

Hafnarstræti, lengst til vinstri sést Ingólfshvoll.