Árið 1983 hafði bjór ekki fengist í Áfengisverslun ríkisins í sjötíu ár. Ásgeir Þórhallsson Hvítaskáld skrifar langþreyttur í Morgunblaðið þann 17. nóvember og hvetur þar þjóðina til aðgerða:

 

Nú hafa þær öldur fallið í ládeyðu, sem risu hvað hæst upp á móti þegar ég fór að skrifa um bjórinn. Það er oft best að bíða af sér mótbárurnar. Nú er leiðin greið.

 

Í augum templara er allt áfengi eitur og allur unaður lífsins synd. Þetta er neikvæður hugsunarháttur. Helst vildu þeir leggja niður ríkið. En það þýður ekkert að taka flöskuna frá manninum, betra er að taka manninn frá flöskunni. Menn verða að læra að umgangast vín, eins og menn læra að um gangast dýnamít. Það er þessi neikvæði hugsunarháttur sem hefur alltaf ráðið þegar bjórfrumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi. Hversvegna að vera að hárreita sig yfir vægum drykk eins og bjór. Það er augljóst að drykkjusiðirnir munu ekki versna. Margir munu leggja sterka drykki á hilluna.

 

Við megum ekki kúga okkur sjálf; láta Íslending kúga íslending. Það er búið að kúga okkur nóg í gegnum aldirnar. Snúumst gegn heimsku og þröngsýni. Við eigum rétt á að drekka bjór eins og menn í öðrum löndum. Allir sem fara til útlanda drekka bjór. Margir fara ábyggilega bara þess vegna. Fólk borgar stórfé fyrir að lifa á Spáni í sól, sundlaugum og bjór. Spásserandi um á ermalausum bol, áhyggjulaust með gleði í hjarta. Hversvegna passa þessir templarar ekki bara upp á sjálfa sig, er það ekki nóg? Hversvegna eru þeir að reyna að passa upp á aðra? Þó að þið viljið ekki drekka áfengi, þá er ekki rétt af ykkur að banna okkur það. Ekki ætla ég að heimsækja ykkur með bjór í poka og hella ofan í ykkur, lauma í grjónagrautinn og svoleiðis. Mér er alveg sama hver drekkur og hver ekki. Þetta er bara prinsippið; að hver sem vill geti labbað ofan í ríki og keypt sér bjór.

 

Það hringdi aragrúi af mönnum í mig er það fréttist að ég ætlaði að stofna BJÓRVINAFÉLAG. Allir vildu drífa í þessu, endilega fá bjór inn í landið strax, sögðu þetta vera óviðunandi ástand. En svo mættu bara sex á stofnfundinn. Menn nenna ekki að leggja neitt á sig, þeir vilja fá hlutina á silfurfati. En bjórinn kemur ekki átakalaust. Þessi bjórfundur var þó vel heppnaður þar sem myndaðist góður kjarni manna sem hafa vilja. Fyrsta mál okkar er að opna augu allra íslendinga.

 

Að þeir skilji hversvegna við erum að berjast fyrir þessu. Þegar bjórfrumvarp fer aftur inn á Alþingi má það ekki falla einu sinni enn. Öll þjóðin verður að standa með mér. Til þess ætlum við að gefa út tímarit þar sem við getum tjáð hug okkar óþvingað. Margir góðir aðilar ætla að styrkja blaðið með auglýsingum. Þetta er algjörlega ópólitískt. Hér er stigið ofan á lágmarks kröfur mannsins um frjálsræði varðandi mat og drykk.

 

Bjór er framleiddur á íslandi og það hefur verið gert í fjölda ára. Ölgerðin Egill Skallagrímsson framleiðir POLAR BEER, sem er miðlungssterkur bjór og sagður afbragðsgóður. En Íslendingar … nei, þeir fá ekki að smakka á honum. Þeir eru lítil, vanþróuð börn sem ekki er treystandi. Í verksmiðjunni eru verðir sem passa allar litlu bjórflöskurnar sem streyma á færibandinu. Hverskonar ríki minna lögregluverðir á? Bjór þessi er svo seldur til sendiráða, fluttur út og hægt er að fá hann í Fríhöfninni. Kanarnir á vellinum gæða sér sjálfsagt á honum. Að það skuli virkilega vera hægt, að bjór, sem framleiddur er á Íslandi, skuli Íslendingar sjálfir ekki fá að smakka. Þetta er eins og við myndum flytja allan okkar fisk út því hann væri of góður fyrir okkur sjálf.

 

Hvað höfum við gert ykkur; þessum mönnum sem alltaf fella þetta mál á Alþingi? Hvað höfum við gert annað en að berjast við að komast af í þessu harðbýla landi? Vinnum aukavinnu, leggjum rafmagn, pípur og gröfum fyrir okkar eigin byggingu. Lifum lífi sem er aðeins vinna, sofa og éta. Enginn tími til að elska nema á hlaupum, aldrei hægt að slappa almennilega af, eiga drauma og lyfta sér upp í rólegheitum. Hví er okkur meinað að setjast inn á íslenska krá og fá okkur öl með félögum úr hverfinu. Hví fá Íslendingar ekki að dreypa á bjór fyrir framan sjónvarpið á laugardögum þegar horft er á ensku knattspyrnuna, eins og aðrir menn? Það er víst enginn bjór í himnaríki. Þessvegna viljum við drekka hann á meðan við erum hér.

 

Er ekki tími til kominn að við Íslendingar fáum að lifa eins og annað fólk? Niður með þröngsýni og þrjósku. Burt með veggi skilningsleysis. Drepum heimska drekann, sprengjum okkar eigin líkkistu og rísum upp úr gröfinni. Förum þangað sem grasið grær. Við viljum bjór.

 

———————

 

Ásgeir Hvítaskáld (Þórhallsson) hefur gefið út nokkrar bækur.