Forest Green Rovers og Tranmere léku til úrslita umspils í efstu deild ensku utandeildarkeppninnar, Vanarama deildarinnar, um laust sæti í 4. efstu deild ensku deildarkeppninnar.

 

Leikurinn, sem fram fór á Wembley lauk með 3-1 sigri Forest Green og mun liðið leika í deildarkeppninni á næsta tímabili í fyrsta skipti í 128 ára sögu liðsins sem það gerist.

 

Leikurinn var kannski ekkert merkilegri en hver annar árlegur úrslitaleikur um sæti í deildarkeppninni en þeim mun heldur er lið Forest Green Rovers áhugaverðara en mörg önnur lið í utandeildarkeppninni og jafnvel deildarkeppninni ef þess er að leita.

 

Vídjó

 

Forest Green Rovers er fyrsta fótboltalið í heiminum sem vinnur markvisst með græna staðfærslu í sínu markaðsstarfi.

 

Óháð allri rómantík um fótbolta þá eru fótboltalið vörumerki í fræðilegum skilningi – fótboltalið mynda tengingar í huga fólks alveg á sama hátt og Coca Cola og Google.

 

Græna staðfærsla Forest Green Rovers kom til árið 2010 þegar liðið rambaði á barmi gjaldþrots. Stjórnendur liðsins leituðu til Dale Vince, stofnanda og forstjóra orkufyrirtækisins Ecotricity og báðu hann um fjármagn sem myndi fleyta liðinu áfram í nokkra mánuði.

 

Dale varð við ósk þeirra og gott betur, fyrirtæki hans keypti liðið og settist hann í sæti formanns stjórnar.

 

Ecotricity var stofnað árið 1995 og státar sig af því að vera fyrsta græna orkufyrirtækið í heiminum – að minnsta kosti það fyrsta sem byrjaði markvisst að vinna með græna og sjálfbæra staðfærslu. Þrátt fyrir að vera enn lítið fyrirtæki á breskum orkumarkaði hefur það sýnt sig að græn staðfærsla er sjálfbær í öllum skilningi orðsins – talað er um Dale sem 100 milljóna punda hippann.

 

Vörumerkið sem hann hefur byggt upp er nokkuð áhugavert ef litið er til orkufyrirtækja. Orkufyrirtæki sem eiga ættir að rekja til gamalla veitufyrirtækja hafa eins og fyrirrennarar þeirra geta reitt sig á sofandi viðakiptavini sem skipta lítið sem ekkert yfir til samkeppnisaðila.

 

Fyrirtæki eins og Ecotricity hafa hins vegar þurft að vinna alla sína viðskiptavini með því að byggja upp sterk vörumerki. Fyrirtækið býður upp á orku á samkeppnishæfu verði en hefur umfram það náð að byggja upp mikið virði í hugum viðskiptavina sinna með staðfærslunni.

 

Hin græna staðfærsla fyrirtækisins nær mun dýpra en hinn hefðbundni grænþvottur orkufyrirtækja. Sterkt vörumerki ristir mun dýpra en lógóið – vörumerkið snýst um ákveðna sýn á hlutina eða ákveðna heimspeki. Ecotricity er gott dæmi um þetta.

 

Fyrirhugaður leikvangur.

 

Í Bretlandi vildi ekkert fyrirtæki setja upp net hleðslustöðva því enginn átti rafbíla og enginn keypti rafbíla því það vantaði hleðslunet – fyrirtækið ákvað því að taka af skarið og koma upp hleðsluneti. Allur hagnaður fyrirtækisins fer í nýjar vindmillur.

 

Einnig hefur fyrirtækið fundið aðferð til að nota gras til að framleiða gas sem fer inn á gaskerfið í Bretlandi. Ecotricity hefur mælst mjög ofarlega í opinberum könnunum á ánægju viðskiptavina orkufyrirtækja í Bretlandi og þess má geta að fyrirtækið fékk verðlaun sem besta græna vörumerkið á CHARGE orkuráðstefnunni sem var haldin var í fyrsta skipti á Íslandi síðasta haust.

 

Rétt eins og vörumerkið Ecotricity snýst um meira en grænt lógó þá snerist kaup félagsins á Green Forest Rovers um meira en að breyta um nafn á leikvanginum og fá auglýsingar á treyjuna. Þess ber að geta að nafnið hélst óbreytt.

 

 

Klúbburinn hefur tekið róttækum breytingum á síðustu árum. Hafist var handa við að setja upp sólarsellur á þakið á stúkunni og tekinn var í notkun róboti knúinn sólarorku sem sér um að slá grasið. Mestur hluti þess vatns sem er notaður við að vökva flötina rennur niður í jarðveginn án þess að næra grasið, tók félagið því í notkun búnaðar sem endurnýtir það vatn sem annars færi til spillis.

 

Þá kom Ecotricity upp hleðslustaurum við leikvanginn enda tilvalið að skella sér á völlinn á meðan bíllinn er hlaðinn. Dale Vince hefur nú tilkynnt um áform sem miða að því að byggja nýjan leikvang fyrir liðið sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að í stað steypu og stáls verður notast við timbur.

 

Helen Taylor frá Ecotricity tekur við verðlaunum fyrir besta græna orkuvörumerki heims úr höndum Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þáverandi iðnaðarráðherra á CHARGE ráðstefnunni í fyrra.

 

Öll þessi upptalning er kannski eitthvað sem hvaða annars flokks auglýsingastofu hefði ráðlagt eigendum liðs sem ætlaði að ná til unga fólksins með því að grænþvo sig og lappa upp á ímyndina.

 

Til marks um að full alvara sé á bakvið grænu ímyndina fór liðið og umgjörðin í kringum það í gegnum róttækar breytingar á einhverju sem hefði þótt ómögulegt.

 

Breytingarnar voru það róttækar að stuðningsmenn liða í enska boltanum hafa tekið sig til og stofnað nýtt lið frá grunni fyrir minni sakir. Árið 2015 tilkynnti klúbburinn að Forest Green Rovers væri Vegan lið (stuðningsmenn Tranmere geta því bölvað helvítis Vegan liðinu).

 

Á vellinum er aðeins vegan fæða í boði fyrir áhorfendur og leikmenn liðsins eru komnir á strangt vegan fæði. Stuðningsmenn liðsins tóku þessum breytingum fagnandi og eru jafnan langar raðir í matsölunni á leikdegi.

 

Það fylgir ekki sögunni hvort liðið sé fjárhagslega sjálfbært en þessar róttæku breytingar hafa þó skilað liðinu miklum meðbyr í nærumhverfinu.

 

Liðið er staðsett í 2000 manna bæ í Gloucesterskíri. Að koma frá litlum bæ er ákveðið mótmæli upp á fjölda þeirra sem sækja leiki liðsins heim en landfræðileg staðsetning liðsins er einnig ákveðin hömlun – svæðið er það sem kallað er rúgbí og krikketland – íbúasamsetningin er semsagt þeir sem ættu að hafa mestan áhuga á siðmenntuðum íþróttum á meðan skítugur verkalýðurinn ætti að hafa áhuga á fótbolta.

 

Þrátt fyrir þetta koma fleiri áhorfendur á leiki liðsins en almennt gerist í 5. neðstu deild enskrar knattspyrnu og 2-300 manns fylgja liðinu á útileiki.

 

Þess má til gamans geta að áður en Tomi Ameobi gerði garðinn frægan hjá BÍ/Bolungarvík og Grindavík undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar, lék hann eitt tímabil með Forest Green Rovers. Tomi leikur nú við góðan orðstír hjá FC Edmonton í N-Amerísku NASL deildinni.

 

Sólarorkuróbótinn sem slær grasið og vallarstjórinn sem verður kannski óþarfur.