Nan Madol eru rústir fornar borgar á eyjunni Pohnpei í eyríkinu Míkrónesíu á Kyrrahafi. Borgin, sem líkist tökustað fyrir þáttaröðina Lost, var höfuðborg Saudeleur-veldisins þangað til um 1600 e. Kr.

 

Á þessu fagra og undarlega bæjarstæði byggðu Mikrónesar gríðarlega vandaða borg á tilbúnum eyjum með flóknu kerfi skurða. Nan Madol hefur verið uppnefnd „Feneyjar Kyrrahafsins“, en Nan Madol merkir „svæðið á milli“ sem vísar til skurðanna sem liggja í gegnum rústirnar endilangar.

 

Saudeleur-veldið á rætur að rekja til þjóða sem tóku höndum saman við að byggja upp samfélag í kringum ártalið 500. Nan Madol varð höfuðborg þessa veldis og er talið að um 25 þúsund manns hafi búið í öllu ríkinu og um 1000 manns í borginni.

 

Hafist var handa við að fylla upp í ströndina til að eyjarnar mynduðust á níundu öld. Gríðarstórir sexhyrndir grjóthnullungar voru notaðir í verkið. Fullsköpuð var þessi eyborg gerð úr yfir 90 misstórum eyjum.

 

Eyjan Pohnpei er fögur.

 

Í miðju borgarinnar höfðust æðstuprestar við en þeir drottnuðu yfir borgurunum bæði í trúarmálum og veraldlegum skilningi.

 

Dauðinn og eftirlífið virðist hafa verið þjóð þessari hugleikið því æðstuprestarnir lögðu 58 eyjar undir líkhús. Háir veggir umkringdir hofum rísa upp úr líkhúseyjunum. Hæstu veggirnir eru á stærstu líkhúseyjunni en þar skaga veggirnir 7,6 metra upp í loftið og umkringja aðalhofið á svæðinu.

 

Flestar eyjarnar voru á valdi prestanna sem notuðu þær ýmist fyrir eigin híbýli eða fyrir trúarathafnir. Aðrar eyjar voru notaðar fyrir sérhæfðar athafnir. Á eyjunni Usennamw fór fram matreiðsla, á Dapahu voru kanóar smíðaðir, og verksmiðja fyrir kókoshnetuolíu starfrækt á eyjunni Peinering.

 

Lengi hefur verið sagt að leynileg göng liggi frá miðri Nan Madol-borg og í gegnum berg og kóralgrunn eyjarinnar með opi á hafsbotninum skammt frá ströndinni. Kafarar hafa lengi leitað að þessum göngum en þau hafa ekki enn fundist þrátt fyrir að ýmis minni og styttri göng liggi undir borg Saudeleur-fólksins.

 

Sumir hlutar þessarar löngu yfirgefnu borgar liggja nú 15 metrum fyrir neðan sjávarmál.

 

Mynd: TaraDSturm

 

Mynd: Ctsnow

 

Mynd: Ctsnow

Kort frá Wikipedia sem sýnir byggingar Nan Madol.

 

Mynd: Ctsnow

 

Mynd: Ctsnow

 

Skammt frá er nýrri bygging, kaþólsk kirkja. Mynd: Wikimedia Commons

 

Myndir: TaraDSturm, ctsnow, SWBatzer, DVIDSHUB