Þau Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt vöktu mikla og verðskuldaða athygli fyrir fyrstu bók sína, Reykjavík sem ekki varð, sem kom út árið 2014. Nú hefur nýtt verk eftir þau Önnu og Guðna litið dagsins ljós, Laugavegur.

Eins og nafnið gefur til kynna er það lífæð höfuðborgarinnar, gatan okkar allra sem er miðstöð verslunar, menningar, veitingastaða og mannlífs sem er umfjöllunarefnið. Rölt er upp Laugaveginn, og reyndar Bankastræti líka, og á meðan er farið í gegnum sögu og skipulag hverrar byggingar fyrir sig í máli og myndum. Bókin er mikið konfekt fyrir sögugrúskara og skipulagsnörda sem eru margir hverjir nú þegar byrjaðir að gæða sér á bestu molunum.

Engin lýsing til
Laugavegur. Höfundar Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðni Valberg. Útgefandi Angústúra.

Lemúrinn fékk að skyggnast bak við tjöldin og ræddi við þau hjónin. Um leið birtist hér ágætis forsmekkur af gríðarmiklu myndefni og fróðleik sem bókin hefur að geyma. Í henni eru yfir 200 ljósmyndir og vel yfir 100 teikningar. Myndatextar í þessari grein eru fengnir úr bókinni.

Stórhýsi Kristjáns Sigurgeirssonar árið 1960. Ári áður hafði Kristján látið setja merki fyrirtækisins KS á ljóshring efst á húsið. Þar snerist það um ás og sást víða að og setti svip á miðbæinn. Húsið teiknaði Gunnlaugur Pálsson arkitekt 1953. Mynd: Andrés Kolbeinsson/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Lemúrinn: Segið okkur aðeins frá uppruna verksins, hvernig varð hugmyndin að því til? 

Guðni: Það mætti segja að hugmyndin sé næstum 20 ára gömul, því árið 2002 opnaði ég verslunina Dogma á Laugavegi með bræðrum mínum og þar kviknaði áhuginn og forvitnin um sögu húsanna við götuna. Umræðan um hana hefur svo auðvitað verið mjög lifandi og rýmið tekið heilmiklum breytingum sem gerði það að verkum að löngunin til að ráðast í þessa rannsókn bara óx. Hugmyndin um Laugavegsbókina var svo sett aðeins til hliðar fyrir um níu árum  þegar við Anna ákváðum að skrifa bók um Reykjavík sem ekki varð. Það var mjög skemmtilegt samstarf sem við ákveðum að fylgja eftir með þessari eldri hugmynd að bók. 

Bankastræti um 1929. Mikill uppgangur einkenndi síðari hluta 3. áratugarins og byggingarframkvæmdir eftir því. Stórhýsi Lárusar G. Lúðvígssonar er nýreist við Bankastræti 5 og handan götunnar er búið að reisa fyrstu hæð af þremur fyrirhuguðum fyrir Hans Petersen. Í bakgrunni má sjá Hótel Borg í byggingu og nýreista Landakotskirkju. Mynd: Geir Geirsson Zoëga/Ljósmyndasafn Íslands.

Anna: Í Reykjavík sem ekki varð fjölluðum við um opinberar byggingar í miðbæ Reykjavíkur sem átti að reisa í annari mynd eða á öðrum stað en þær risu á endanum. Það mætti segja að það hafi verið ansi góð æfing fyrir nýju bókina, en þar tökum við fyrir 120 hús við Bankastræti og Laugaveg í stað átta í þeirri gömlu. 

Stórhýsi Marteins Einarssonar á Laugavegi 31 er eitt margra reisulegra húsa sem risu við Laugaveginn á 3. áratugnum. Þau voru almennt þrílyft með eitt eða tvö verslunarrými á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Kaupmenn bjuggu gjarnan með fjölskyldum sínum fyrir ofan eigin verslanir. Mynd: Jón Jónsson Dahlman/Ljósmyndasafn Íslands.

Lemúrinn: Voruð þið á kunnuglegum slóðum á Laugavegi í þeim efnum, rákust þið á byggingar við Laugaveg sem aldrei urðu? 

Guðni: Já, það var einmitt það sem okkur fannst hvað mest spennandi í upphafi rannsóknarvinnunnar, hvort það myndu ekki leynast hús við götuna sem ekki urðu, og það var raunin. Á teikningavef borgarinnar fundum við hátt í fimmtíu teikningar að húsum sem ekki risu, eða risu aðeins að hluta til í upphaflegri mynd. Nær öll þessi hús voru teiknuð á tímabilinu 1927-1950 sem má rekja til þess að í tengslum við skipulagsuppdráttinn af Reykjavík frá 1927 virðist hafa verið gerð krafa um að ekki mætti lengur byggja litlar viðbyggingar við gömlu timburhúsin nema sýnt væri fram á að nýi húshlutinn væri hluti af stærri hugmynd. 

Stórhýsi Andrésar Andréssonar var reist í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn reist 1921 austan við gamla timburhúsið sem Andrés hafði keypt nokkrum árum fyrr og rekið þar verslun sína og saumastofu. Gamla húsið var rifið 1927 þegar annar áfangi stórhýsins var reistur. Mynd: Óskar Gíslason/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Anna: Svo kemur kreppan 1930 og þá stöðvast nær alveg þessi uppbygging sem hafði verið á þriðja áratugnum en þá reis fjöldi þrílyftra steinsteyptra húsa við götuna og heilmikið sem ekki varð var teiknað. Það er ekki fyrr en á sjötta áratugnum, eftir rúma tvo áratugi af kreppu, innflutningshöftum og heimsstyrjöld að farið er að fjárfesta í uppbyggingu á Laugavegi að einhverju ráði. Í millitíðinni var því mikið um að byggðir væru litlir hlutar stórhýsa sem svo voru ekki kláruð.

Nýbyggt Laugavegsapótek á horni Vegamótastígs á seinni hluta 3. áratugarins. Húsið er teiknað af Jens Eyjólfssyni 1923 fyrir Stefán Thorarensen apótekara. Sonur Stefáns sagði Jens reyndar aðeins hafa skrifað upp á teikninguna sem væri í raun eftir danskan arkitekt. Mynd: Magnús Ólafsson/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Lemúrinn: Laugavegur á sérstakan stað í hjörtum Íslendinga. Hún er okkar helsta verslunargata og, tja, djammgata. En það var ef til vill tilviljun að svo varð?

Guðni: Það eru skemmtilegar sögur af djammi í bókinni frá bannárunum á millistríðsárunum. Til dæmis var krá á Laugavegi 6 þar sem skáld og sjóarar sátu oft saman. Þrátt fyrir áfengisbann var þó almenn vitneskja að vín væri oft haft um hönd á slíkum stöðum. Í heimildum mátti finna frásagnir af því að slagsmál hafi borist út á götu þegar lögreglan mætti stundum á svæðið. Það var svo dálítið svakalegur staður sem hét White Star á Laugavegi 11 á fjórða áratugnum. Hann var vinsæll meðal erlendra sjóara og þótt margt sem þar gerðist á lágu siðferðislegu plani. Silli og Valdi opnuðu síðar Adlon bar þar árið 1950, en hann var yfirleitt kallaður Ellefu. Þar var svala fólkið, áhugafólk um listir og menningu. Þetta var líka umtalaður samkomustaður samkynhneigðra karlmanna í Reykjavík. 

Laugavegur 28B á 8. áratugnum með svipaðan rekstur og yngri Reykvíkingar þekkja en lengst af á 21. öldinni hefur fataverslunin Spútnik verið á neðri hæð hússins en öldurhúsið Boston á efri hæð og risi sem síðar varð. Mynd: Kristinn Guðmundsson/Ljósmyndasafn Íslands.

Á sjöunda og áttunda áratugnum voru svo margir af vinsælustu skemmtistöðunum jafnvel komnir út fyrir miðbæinn, eins og til dæmis Röðull í Skipholti, sem byrjaði reyndar á Laugavegi 87. Svo virðist hafa orðið nokkur breyting þar á í lok níunda áratugarins, en þá hafði verslun dalað nokkuð á Laugavegi í kjölfar opnunar Kringlunnar og lögleiðing bjórsins 1989 hafði eflaust áhrif. Þá fjölgaði talsvert krám og skemmtistöðum á Laugavegi, svo mjög að mörgum þótti nóg um. Á endanum var setttur kvóti á fjölda vínveitingastaða á Laugavegi sem varð til þess að margir staðir opnuðu í hliðargötunum. Það var ekki heldur vinsælt, að minnsta kosti ekki meðal íbúa. 

Skemmtistaðurinn Sirkus við Klapparstíg. Í kjölfar þesss að banni við sölu bjórs var aflétt fjölgaði vínveitingastöðum við Laugaveg. Árið 2002 var settur kvóti á fjölda skemmtistaða sem varð til þess að slíkir staðir sóttu í auknum mæli í hliðargötur. Mynd: Guðmundur Rúnar Guðmundsson/Myndasafn Morgunblaðsins.

Lemúrinn: Færum okkur aftur í byggingarnar sjálfar og tíðarandann. En byggingar og tíðarandi virðast haldast hönd í hönd þegar kemur að Laugaveg. Allt frá burstabæ til póstmódernisma er eins og gatan geti breytt um svip eins og kynslóðir breyta um hárgreiðslur eftir tískubylgjum. Þetta hlýtur að vera nokkuð einstakt? 

Herrahúsið Adam Bankastræti 7a, Samvinnubankinn Bankastræti 7 og Verzlunarbankinn Bankastræti 5 á 9. áratugnum. Gamla timburhúsið við Bankastræti 7 var rifið 1973 og í stað þess reis nýbygging fyrir Samvinnubankann. Mynd: Borgarskipulag/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Guðni: Já, það er í raun merkilegt hversu marga og fjölbreytta byggingarstíla er að finna við einu og sömu götuna, en við tókum saman tuttugu mismunandi stíla í bókinni. Svo er það hitt að byggingarnar og rýmið á milli þeirra hefur í gegnum tíðina að töluverðu leyti breyst í takt við tíðarandann hverju sinni. Þegar funkísstíllinn varð t.d. ráðandi á  fjórða og fimmta áratugnum þá voru mörg timburhús múrhúðuð að utan og gluggar stækkaðir. 

Um 1980-1995, tískufataverslunin Í takt við Laugaveg 60a, Bella við Laugaveg 60, Laugavegur 62 og Laugavegur 64. Steinsteypta húsið á horni Vitastígs var reist 1980 og er eina fullbyggða steinsteypta húsið á reitnum milli Frakkastígs og Vitastígs. Mynd: Borgarskipulag/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Svo er tíðarandinn líka alltaf mjög sýnilegur í búðaskiltunum og gluggaútstillingum, sem gerir það að verkum að þegar maður skoðar gamlar ljósmyndir af götunni þá veit maður alltaf á hvaða áratug þær eru teknar. Það er þó ekki síst rýmið á milli húsanna sem gefur vísbendingar um tíðarandann, því auk ljósastaura og götugagna þá spila bílar, og aðrir fararskjótar, og fatatíska þeirra sem eiga leið um götuna stóran sess í stemmningunni og tíðarandanum á ljósmyndunum. 

Um 1960, bókaverslunin Bókhlaðan við Laugaveg 47 í Reykjavík. Húsið stóð á horni Frakkastígs og Laugavegs en hefur nú verið rifið. Til hægri er Laugavegur 49, steinhús. Til vinstri sér í gaflinn á Frakkastíg 9. Mynd: Pétur Thomsen/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Lemúrinn: Eigið þið ykkur eftirlætis tímabil eða útlit Laugavegar, nú eftir þessa miklu rannsóknarvinnu? Er Laugavegur enn á sínu blómaskeiði, ef svo má að orði komast? 

Bankastræti 4 á 8. áratugnum þegar verslunin Hraun og Mæðrabúðin voru í austurhluta hússins. Verslunin Hans Petersen var starfrækt á þessum stað frá 1907 til 2009. Fyrstu tvo áratugina var hún í litlu timburhúsi á lóðinni sem vék fyrir nýbyggingunni árið 1928. Í horninu má sjá hvernig húsið átti að rísa samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar en aðeins jarðhæðin var reist. Mynd: Kristinn Guðmundsson/Ljósmyndasafn Íslands.

Anna: Þriðji áratugurinn er sá tími sem við vorum hvað mest heilluð af í upphafi rannsóknarinnar, og vorum jafnvel að hugsa um að bókin yrði fyrst og fremst um þann tíma. Þá eru kaupmenn að byggja þrílyft steinsteypt stórhýsi utan um rekstur sinn af miklum metnaði og framtíðarsýn. Kaupmenn sem höfðu margir hverjir flutt til bæjarins einhverjum árum fyrr með báðar hendur tómar. Stórhýsi þeirra voru með verslun á jarðhæð, lager í kjallaranum og oft verkstæði með stórum vélum jafnvel á efri hæðum. Á efri hæðum voru líka oftast íbúðir þar sem kaupmenn bjuggu með sínum fjölskyldum. Öll rými sem ekki voru nýtti fyrir reksturinn voru svo auðvitað leigð út, enda eftirspurnin mikil. Sýn þessarar kynslóðar sem er að fæðast öðru hvoru megin við aldamótin 1900 á framtíð Reykjavíkur, þegar hún er að breytast úr þorpi í borg, er svo spennandi. 

Húsið á horni Laugavegar og Klapparstígs var reist 1916 af Jóni í Vaðnesi. Hann rak í byrjun 20. aldar þekkta verslun handan Klapparstígs þar sem fólk víða úr sveitum seldi vörur sínar. Synir Jóns tóku við rekstrinum eftir að hann lést úr spænsku veikinni 1918. Í hornhúsinu rak Björgvin sonur hans lengi vefnaðarverslunina Grund. Gluggum var breytt 1937 og húsið steinað. Mynd: Einar Ólafsson/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Guðni: Guðjón Samúelsson gerir á þessum tíma fyrsta heildarskipulag fyrir Reykjavík, og samkvæmt því átti Laugavegurinn að vera randbyggð þrílyftra steinsteyptra húsa og rífa átti öll timburhús við götuna. En svo kemur kreppan og þessi uppbygging stöðvast nánast alveg, ef frá eru taldar allar þessar viðbyggingar sem við erum búin að nefna, sem þó áttu að vera upphaf að stórhýsi sem yrði svo klárað eftir kreppu. En svo kom stríð og innflutningshöft og þegar uppbygging hófst aftur á sjötta áratugnum var módernisminn kominn til sögunnar, og já bara allt önnur hugmyndafræði komin fram á sjónarsviðið. 

Gömlu timburhúsin á Laugavegi 61 og 63 á 8. áratugnum. Þau voru flutt af Laugaveginum 1984 til að rýma fyrir nýbyggingu. Húsin voru lengi í eigu gömlu Alþýðubrauðgerðarinnar sem var frá 1918 með sölubúð í gamla timburhúsinu á Laugavegi 61 sem reist var 1899. Mynd: Borgarskipulag/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Anna: Sem er líka svo spennandi og erfitt að horfa framhjá í svona bók, svo við enduðum á að fjalla um sögu götunnar frá upphafi til dagsins í dag. Við réðumst í raun í að taka fyrir hvert einasta húsnúmer á milli Lækjargötu og Hlemms. Það var auðvitað risastórt verkefni og kannski eftir á að hyggja smá brjálað en við sjáum ekki eftir því. 

Klapparstígur 31, Málning og járnvörur, á 9. áratugnum. Gatnamót Laugavegs og Klapparstígs. Mynd: Borgarskipulag/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Síðan við fæðumst eftir 1980 er kannski erfitt að tala um blómaskeið í sambandi við Laugaveginn en gatan er samt alltaf lifandi og í stöðugu samtali við samtíma sinn. Það mætti kannski frekar tala um síðustu áratugi sem breytingaskeið. Allir eru sammála um að þetta sé aðalgatan okkar og að það verði hún alltaf. Við erum enn með verslanir við götuna sem hafa verið þar í yfir 100 ár. Það er mjög merkilegt því á sama tíma hefur borgin sem heild breyst alveg ótrúlega mikið. Þótt gatan sé ekki lengur mikilvæg umferðaræð verður hún alltaf almenningsrými sem fólk, Reykvíkingar og gestir borgarinnar, munu sækja mikið í. Og þar sem er fólk verður alltaf eftirspurn eftir einhverskonar verslun og þjónustu.