Tómas Tómasson, trésmiður á Laugavegi í Reykjavík, birti fjórar auglýsingar í Vísi í ársbyrjun 1912 með sama textanum undir dálknum Tapað-Fundið.

 

Hann bað „kunningja“ að skila úri sem hann hafði lánað þeim ónefnda manni í pósthúsportinu við síðastliðin „lok“.  Hvaða undarlega atburðarás var þetta?

 

Vísir, 28. janúar 1912.

 

Vísir, 31. janúar 1912.

 

Vísir, 2. febrúar 1912.

 

Vísir, 6. febrúar 1912.

 

Tómas Tómasson drukknaði árið eftir í hörmulegu slysi við höfnina í Reykjavík sem þá var í byggingu. Hér á eftir er sorgleg frásögn af slysinu sem birtist í blaðinu Reykjavík í október 1913. Tómas datt af pöllum við járnbrautarlestina sem notuð var við hafnargerðina, féll í sjóinn og sogaðist út með hörðum straumum. Hann lét eftir sig konu og fimm börn.

 

 

Slys við hafnarvinnuna.
Maður dettur í sjóinn og drukknar.

Svo bar við seinni hluta dags á þriðjudaginn að þrír menn voru við vinnu á verkpalli einum framarlega í járnbrautarbrúargrindinni. Eru staurar miklir reknir niður í sjávarbotninn, sem eiga að halda uppi járnbrautinni, er flytur möl og stórgrýti í hafnargarðinn og eru staurarnir reknir niður og brúin þannig lengd, jafnótt og garðinum miðar áfram.

 

Þessir þrír menn, sem á pallinum stóðu, voru Tómas Tómasson trésmiður hér í bæ, Guðmundur Þorgrímsson og Þorlákur Magnússon úr Hafnarfirði. Stóðu þeir Tómas og Guðmundur á pallinum vestanverðum en Þorlákur austantil á honum. En alt í einu brotnaði planki, sem hélt pallinum uppi vestanmegin og varð þeim þá fótaskortur Tómasi og Guðmundi.

 

Guðmundur náði samt fljótt í einn af brúarstaurunum og gat haldið sér föstum, en Tómas rann út af pallinum og í sjóinn. Fallið var ekki hátt — liðug alin — en hann fór í kaf og skaut ekki upp fyr en þó nokkrum (á að gizka 5—10) föðmum fyrir vestan brúna; því að harður útstraumur var. Guðmundur og Þorlákur hlupu strax til og fleygðu út til hans tveim plönkum og einu borði — enda kallaði Tómas til þeirra að gera það.

 

En það var til einskis því að hann náði ekki í plankana þó að þeir kæmu mjög nálægt honum, og virtist sem þá væri svo af honum dregið að hann ekki hefði mátt til að handsama þá. En þeir Þorlákur hlupu þá upp brúna og fóru með öðrum í bát, sem lá þar í fjörunni við garðinn innanverðan, og reru sem mest þeir máttu út þangað, er þeir hugðu Tómas vera. Leituðu þeir að honum í fulla klukkustund en tókst ekki að finna hann. Var hann þá sokkinn. En seinna um kvöldið fannst hann liðið lík á Akureyjargranda.

 

Jón Magnússon bæjarfógeti hélt jafnskjótt próf út af slysinu og skýrðu sjónarvottar frá því eins og að framan er sagt. En um plankann, sem brotnaði og örsakaði slysið þá ber mönnum saman um að hann hafi virst hinn traustasti og átt að geta borið miklu meiri þunga en þessa 3 menn. Hann var 7 þumlungar á breidd, 2 þuml. á þykt og var á rönd undir pallinum og hafið tæp hálf sjötta alin.

 

Sárið þar sem hann brotnaði var hvítt og engir gallar að sjá í plankanum. Það er því í raun og veru lítt skiljanlegt hvernig hann fór að brotna, en efalaust hefir viðurinn í honum af einhverjum ástæð-um verið ónýtari en hann virtist vera, úr því telja má víst, að plankinn hafi verið heill þegar hann var festur. En mennirnir sem á pallinum stóðu höfðu sjálfir tekið hann og fest. Það á því enginn sök í þessu slysi. Það var ófyrirsjáanlegt og óviðráðanlegt. Tómas heitinn fór frá konu og fimm börnum. Vátrygður var hann sem aðrir, er að höfninni vinna.