Árið 1944, á meðan síðari heimsstyrjöldin stóð enn yfir, birti Heimilisritið nokkra brandara um Adolf Hitler.

 

Þessar einkennilegu skrýtlur voru ekki birtar til að gera lítið úr hörmungunum sem nasistar framkölluðu. Þær virðast frekar eiga að sýna að þýskur almenningur bæri eftir allt saman takmarkaða virðingu fyrir foringjanum og félögum. Spaugið væri tilraun til andófs. „Jafnvel einræðisherrarnir standa berskjaldaðir fyrir biturri fyndni.“

 

Indverjii, K. Krishnamurthi, segir frá. „Fyrir nokkru ferðaðist ég frá Liverpool til Indlands og varð þá samferða ungum skólamanni sem hafði dvalið í þrjú ár í Þýzkalandi. Við röbbuðum mikið saman á leiðinni og meðal annars sagði hann mér ýmsar kímnisögur um Hitler og eru þær orsök þess að ég gríp nú pennann. Þær eru sagðar hér eftir minni.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Í bókinni Dead Funny: Telling Jokes in Hitler’s Germany, fjallar höfundurinn Rudolph Herzog — hann er sonur kvikmyndaleikstjórans góðkunna, Werners Herzog — um brandara í Þýskalandi nasismans.

 

Bókin spyr hvort hlæja megi yfirleitt að Hitler. Margir eru viðkvæmir fyrir slíku og þykir grínið gera lítið úr hryllingnum sem hann bar ábyrgð á. En kannski er svoleiðis kímni stundum bráðholl?

 

Herzog lýsir hvernig hugmyndin um hinn „fáránlega Hitler“, skrípafígúruna sem birtist oft í nútímamenningunni, var þegar þekkt í Þýskalandi nasismans. Hann safnar bröndurum frá þeim tíma, til dæmis „hvísluðum skrýtlum“ sem voru útgefnar rétt eftir stríðslok sem endurspegla hvað þýskur almenningur vissi um grimmdarverk nasistanna. Jafnvel útrýmingarbúðirnar komu fyrir í aulabröndurum.

 

Rudolph Herzog leikstýrði líka bráðskemmtilegri heimildarmynd á BBC með sama efni, Laughing with Hitler:

Vídjó

 

Í Þriðja ríkinu snérust brandararnir aðallega um persónur æðstu leiðtoga landsins. Hermann Göring var þannig vinsæll skotspónn brandarakarla, enda var hann stór og feitur, hégómlegur spjátrungur. Tveir góðir úr bók Herzog:

 

Göring bætti nýlega við enn einni orðunni á einkennisbúning sinn. Orðan er í laginu eins og ör og á henni stendur: Heldur áfram á bakinu.

 

Hinn sanni aríi er eins ljóshærður og Hitler, jafn hávaxinn og Göbbels og vel vaxinn og Göring.

 

Fyrir fórnarlömb nasismans var þessu auðvitað öðruvísi farið. Í fanga- og útrýmingarbúðum nasista ræktuðu gyðingar og aðrir fangar með sér kolsvartan húmor.

 

Tveir gamlir kunningjar hittast á götu.

Annar ávarpar hinn – „Nei, gaman að rekast á þig. Hvernig var svo í Dachau?“

„Það var bara ljómandi“ svarar hinn. „Við fengum morgunmatinn í rúmið, með nýmöluðu kaffi eða kakói. Svo stunduðum við íþróttir og hádegismaturinn var þrírétta með súpu, kjöti og eftirrétt. Eftir það spiluðum við á spil og lögðum okkur. Og eftir kvöldmatinn var kvikmyndasýning.“

Fyrri maðurinn trúir ekki sínum eigin eyrum. „Vá! Það eru þá meiri lygarnar sem ganga um þann stað. Ég var að tala við Meyer um daginn, hann var þarna líka. Hann hafði nú allt aðra sögu að segja.“ Seinni maðurinn kinkar kolli og segir: „Jú einmitt, þess vegna var hann líka sendur aftur.“

 

Undir lok heimsstyrjaldarinnar, þegar ljóst var að stríðrekstur Þjóðverja var dauðadæmdur, var byrjað að leggja þungar refsingar við því að hæðast að nasistum. Árið 1944 var Marianne Elise K, starfsmaður í stríðsgangaverksmiðju í Berlín tekin af lífi. Hún hafði verið dæmd til dauða fyrir það sem kallað var að grafa undan stríðsrekstrinum með meinfýsnum ummælum.

 

Sú ummæli voru brandari sem löghlýðinn samstarfsmaður hennar heyrði hana segja í matarhléi og sá tilkynnti brotið til yfirvalda.

 

Brandarinn hljóðaði svona:

 

Hitler og Göring standa efst í útvarpsturninum í Berlín og horfa út yfir borgina. Hitler segir að eftir allt þetta stríð vilji hann gera eitthvað fyrir Berlínarbúa til þess að gleðja þá. Nú, segir Göring. Af hverju stekkurðu þá bara ekki?

 

Hitler sjálfur átti það jafnvel til að segja brandara, þó þeir hafi kannski ekki verið upp á marga fiska enda verður hans líklega seint minnst fyrir mikla kímnigáfu. Þann 10. nóvember 1933 ávarpaði hann verkamenn í Siemens-verksmiðjunni í Berlín. Hann hafði þá aðeins verið kanslari Þýskalands í nokkra mánuði. Hitler segir: „Kannski eru einhverjir ykkar mér enn reiðir fyrir að hafa bannað marxistaflokkinn. En félagar, ég bannaði líka alla aðra flokka!“

 

Hér grínast hann í annarri verksmiðju árið 1940:

Vídjó

 

Spaugfuglinn Hitler gerir grín úr orðum Franklins D. Roosevelt Bandaríkjaforseta:

Vídjó

 

Grínmyndin Er ist wieder da frá 2015 er byggð á skáldsögu Timur Vermes og er sumpart uppgjör við ímynd Hitlers í nútímanum:

Vídjó