Borgin Norilsk í Rússlandi er merkileg fyrir margar sakir. Hún er nyrsta borg í heimi með yfir hundrað þúsund íbúa og stærsta borgin norðan heimskautsbaugs fyrir utan Murmansk. Tengsl íbúa Norilsk við umheiminn eru takmörkuð þar sem engir vegir né lestarkerfi tengja hana við aðrar borgir Rússlands og árið 2001 lokuðu rússnesk stjórnvöld borginni fyrir öllum útlendingum, öðrum en Hvítrússum.

 

Íbúar Norilsk, sem eru frá 175-220 þúsund eftir árstíma, lifa því í einangrun í einni af menguðustu borgum heimsins árið um kring. Langflestir íbúarnir vinna við námuvinnslu á nikkel en ekkert svæði í heiminum er jafnt ríkt af nikkel og svæðið í kringum Norilsk. Það er brætt á staðnum og mengunin sem af því hlýst er gríðarleg, en reiknað hefur verið út að um 1% af öllum útblæstri brennisteinsdíoxíðs í heiminum komi frá námuvinnslunni í Norilsk.

 

En það er ekki nóg með að mengunin sé ein sú mesta í heiminum í Norilsk, borgin er einnig ein sú kaldasta í heiminum. Borgin er ein af þremur í heiminum sem er byggð á freðmýri og hún er þakin snjó í um 250-270 daga á ári. Þar af eru snjóbyljir í um 110-130 daga.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar þann 27. maí síðastliðinn. Fjórir dagar í sumarið og enn er allt á bólakafi í snjó. Meðalhitinn í maí er -1.7° en í júlí rýkur hann upp í 18,2°. Súrt regn og viðvarandi mengunarský draga þó sennilegu mestu sumargleðina úr íbúum borgarinnar.

 

Myndirnar birtust á vefsíðunni English Russia.

 

may_norilsk_05

 

may_norilsk_03

 

may_norilsk_02

 

„Ekkert sumar hér“ - krotað á vegg í Norilsk.

„Ekkert sumar hér“ – krotað á vegg í Norilsk.