Mikið hjólreiðaæði reið yfir heimsbyggðina um og upp úr 1890 þegar reiðhjól með keðjudrifi komu fyrst fram. Rússland var ekki undanskilið þessum tíðaranda og margir Rússar eignuðust sín fyrstu reiðhjól um þetta leyti. Meðal þeirra var rithöfundurinn mikli Lev Tolstoj sem fékk reiðhjól að gjöf frá nýstofnuðum samtökum reiðhjólaunnenda í Moskvu.

 

Tolstoj hafði þá nýlega misst yngsta son sinn sem var bara sjö ára þegar hann dó úr sótt í febrúar 1895, og var hjólið ætlað til að stytta honum stundir í sorginni.

 

Lev og Soffía með hjólið góða.

Lev og Soffía með hjólið góða.

 

Tolstoj var 67 ára en lagði mikið upp úr útivist og fullyrða má að hjólið hafi hann fílað í botn. Eftir nokkrar kennslustundir — því hann hafði jú aldrei hjólað áður — var hann farinn að hjóla á hverjum degi, og raunar svo mikið að Soffía, eiginkona hans, var fljótt farin að hafa áhyggjur af hamslausum hjólreiðum eiginmannsins. Hún skrifaði í bréfi til sonars síns, Lev Tolstojs yngri, síðar árið 1895:

 

„Hann hjólar allan daginn, það er þess vegna sem ég hef áhyggjur, því allir segja að hjólreiðar séu skaðlegar. Læknirinn kemur á hverjum degi og skoðar pabba þinn en hann hefur ekki fundið að þetta hafi nein slæm áhrif.“

 

Hjólið hans Tolstojs er nú geymt á safni honum tileinkuðu í Moskvu.

Hjólið hans Tolstojs er nú geymt á safni honum tileinkuðu í Moskvu.

 

Hjólaæði Tolstojs vakti blendnar tilfinningar hjá fleirum í návígi hans. Vinur hans og lærlingur Vladimír Tsjertkov mun hafa velt fyrir sér hvort að hjólreiðar stönguðust ekki á einhvern hátt á við kristnar hugsjónir skáldsins. En Tolstoj sjálfur hlustaði ekki á gagnrýnisraddir og skrifaði í dagbók sína:

 

„Ég veit ekki af hverju ég er svona hrifinn af [hjólreiðum]. [Tsjertkov] er móðgaður og gagnrýnir mig fyrir það, en ég held áfram að hjóla og skammast mín ekki. Þvert á móti finnst mér ég eiga rétt á ákveðinni náttúrulegri léttúð, að skoðanir annarra skipti mig engu máli, og að það sé ekkert að því að njóta lífsins á einfaldan hátt, eins og drengur.“ (úr Tolstoy e. Henri Troyat, 2001, bls. 511)

 

Tolstoj stundaði fleiri dægrastyttingar en bara hjólreiðar. Hann var til dæmis einn af fyrstu tennisfrömuðum í Rússlandi. Í Önnu Karenínu er minnst á tennis og Tolstoj sjálfur gat spilað tennis klukkustundum saman á sumardögum. Hér fylgja nokkrar myndir af Tolstoj við ýmis störf.

 

Tolstoj og félagar í tennis. Mynd frá 1878.

Tolstoj og félagar í tennis. Mynd frá 1878.

 

Tolstoj spilar keiluspil við son Vladimírs Tsjertkov, maí 1909.

Tolstoj spilar keiluspil við son Vladimírs Tsjertkov, maí 1909.

 

Tolstoj á skautum í Moskvu,  mars 1898.

Tolstoj á skautum í Moskvu, mars 1898.

 

Tolstoj á sleða, 1903.

Tolstoj á sleða, 1903.