Á eyjaklasanum Svalbarða í Norður-Íshafi er að finna nyrsta byggða ból í veröldinni. Mikið norðar er ekki hægt að komast. Svalbarði er um 1.500 kílómetrum norðan við heimskautsbaug og aðeins 10 breiddargráðum frá sjálfum Norðurpólnum. Stærsti þéttbýlisstaðurinn og höfuðstaður eyjanna er norski námabærinn Longyearbyen, en þar búa um tvö þúsund manns. Hann er nyrsti bærinn á þessari jarðkringlu en staðsetning hans er 78°22’N.

 

Yfigefin lest frá dögum námuvinnslunnar í Nýja-Álasundi. (Wikimedia Commons)

 

Enn norðar er þó að finna tvo aðra bæi, sem í dag eru að mestu komnir í eyði. Annarsvegar er það Nýja Álasund, sem er staðsett á 78°55’N. Þar var fyrir margt löngu kolavinnsla en í dag eru þar aðeins vísindamenn með fasta búsetu. Um 30-35 manns hafast þar við allt árið, en yfir sumartímann fjölgar þeim í 120 í góðu árferði. (Þegar hitinn rýkur upp í 5 gráður á celsíus!) Nýja Álasund er nyrsti staðurinn í heiminum þar sem menn hafa fasta búsetu. Þar er einnig að finna nyrsta pósthús í heimi.

 

Hins vegar er það bærinn Pyramiden, sem staðsettur er á 78°41’N. Bærinn dregur nafn sitt af fjallstoppi einum sem gnæfir yfir bæinn og minnir á píramída að lögun. Það voru Svíar sem stofnuðu bæinn árið 1910 og hófu að grafa kol úr jörð en árið 1927 keyptu Sovétmenn bæinn af Svíum til að tryggja ítök sín á svæðinu. Lengi vel höfðu margir augastað á Svalbarða og svæðinu þar í kring og renndu hýru auga til framtíðar. Enginn gat vitað hvað framtíðin myndi bera í skauti sér, og var allt eins líklegt að eyjurnar myndu öðlast hernaðarlegt mikilvægi í stríðum framtíðarinnar.

 

Brjóstmynd af Lenín á torgi bæjarins árið 2005. (Wikimedia Commons)

Hvað sem Sovétmönnum gekk til þá var það sennilega ekki gróðavonin sem rak þá áfram. Á um 40 ára tímabili voru unnin 9 milljón tonn af kolum í Pyramiden, og þar af fór 1 milljón í að kynda bæinn sjálfan. Ekki var vanþörf á en íbúar bæjarins, sem voru um 1.000 talsins, höfðu allt til alls. Má þar nefna kvikmyndahús, sundlaug, íþróttahús, gróðurhús og menningarmiðstöð, þar sem enn er að finna nyrsta flygil sem til er!

 

Kolavinnslan á staðnum nam um 200.000 tonnum á ári, sem er ansi lítið í stóra samhenginu en ársneysla kola í heiminum er um 6 milljarðar tonna. Efnahagslegar forsendur leiddu til þess að staðurinn var yfirgefinn eftir að Sovétríkin liðu undir lok. Árið 1998 ákváðu eigendurnir, ríkisfyrirtækið Arktikugol Trust, að loka og skella í lás. Allir íbúarnir, sem voru um þúsund þegar best lét, voru fluttir burt með hraði og eftir stendur einn magnaðasti draugabær sem fyrirfinnst.

 

Kolanáman í Pyramiden árið 2005. (Wikimedia Commons)

 

Við fyrstu sýn gæti maður haldið að íbúarnir væru enn á staðnum. Tíminn virðist bókstaflega vera frosinn og í raun er hann það. Loftslagið á Svalbarða gerir það að verkum að mönnum reiknast til að bærinn muni ekki breytast mikið næstu 500 árin.

 

Fyrir þá sem hafa áhuga á að ferðast til Pyramiden og skoða bæinn þá eru Rússar að vinna að því að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn á staðnum.

 

Fjallið sem bærinn Pyramiden var nefndur eftir. (Wikimedia Commons)