Nat Mendelsohn var háskólakennari í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar. Hann keypti árið 1958 þrjú hundruð ferkílómetra land í Mojave-eyðimörkinni.

 

Draumur hans var að skapa þar borg sem yrði jafnstór Los Angeles. Borgin fékk nafnið California City.

 

Við fyrstu skoðun mætti ætla að draumurinn hafi ræst.

 

california-city

 

Á korti sést hvar götur og stræti mynda flókin mynstur á stórum svæðum í eyðimörkinni. Það er engu líkara en stórkostleg bílaborg með strjálbýlum úthverfum – í anda ameríska draumsins – rísi úr auðninni eins og vin í eyðimörkinni.

 

Þegar betur er gáð kemur í ljós að það er eitthvað stórkostlega bogið við borgina California City: Það standa engin hús við göturnar. Göturnar liggja aleinar og berar um sandana – líkt og skrælnuð beinagrind af ólánssömu dýri sem villtist í eyðimörkinni.

 

LA Times birti magnaðar myndir  frá California City.

 

Þegar litið er á gervihnattarmyndir af svæðinu blasa við furðulegar rákir sem göturnar mynda og minna þær einna helst á hinar dularfullu Nazca-rákir í Perú.

 

californiacity

Google Maps.

 

Hin stóru plön Mendelsohns misheppnuðust herfilega. Hann lagði vegi fyrir tugþúsunda manna hverfi og hélt að hann gæti selt þau um leið í fasteignabólunni sem þá var. Kaliforníubúar vildu ekki flytja í Mojave-eyðimörkina og þar við sat.

 

Borgin er reyndar ekki alveg tóm. Í henni búa um 15 þúsund manns. Margir bæjarbúar starfa í gríðarstóru fangelsi á svæðinu og aðrir í herstöð bandaríska flughersins. En California City virðist ekki á leiðinni að skáka Los Angeles í bráð.

 

Google Maps.

Google Maps.