Lenín liggur enn smurður á Rauða torginu í Moskvu. Mun hann liggja þar um aldur og ævi? Af hverju var hann smurður? Og hvernig? „Nefnd um ódauðleika Vladimírs Lenín“ kom við sögu fyrstu árin eftir dauða hans.

 

Mitt á hinu sögufræga Rauða torgi í Moskvu stendur rauð og svört granítbygging sem líkist egypskum þrepapíramída. Hún er heldur lítil miðað við byggingarnar í kring — þjóðminjasafnið, dómkirkju heilags Basils og veggina sem umkringja Kreml.

 

Hún er þó alveg jafn tilkomumikil. Fyrir ofan innganginn eru ritaðir örfáir stórir bókstafir, sem gefa skýrt til kynna hvað sé að finna innandyra. Þar stendur einfaldlega LENÍN, því þetta er auðvitað grafhýsi Vladimírs Leníns, stofnanda Sovétríkjanna, sem þarna hefur nú legið í níutíu ár.

 

Bloggsíðan English Russia birti þessar myndir sem eiga að sýna þrifnað á líki Leníns. LEMÚRINN er ekki fullkomlega sannfærður um að þetta sé Lenín en bíður þess að það verði hrakið:

 Lenín deyr

Árið 1924 var Lenín orðinn gamall og veikburða, þó hann væri ekki nema 53 ára. Á tveimur árum hafði hann þrisvar fengið heilablóðfall og var orðinn rúmfastur og næsta mállaus. Að kvöldi 21. janúar missti hann meðvitund og lést klukkustund síðar, á sveitasetri sínu í Gorkí í nágrenni Moskvu.

 

Sagan segir að ein hinsta ósk Leníns til eiginkonu sinnar Krúpskaju hafi verið að vera grafinn við hlið móður sinnar, í hefðbundnum grafreit. En stjórnvöld í Sovétríkjunum höfðu aðrar hugmyndir um hvað ætti að gera við leiðtogann mikla að honum látnum.

 

Mikhaíl Kalínin, forseti aðalnefndar rússneska sovétsins, var tárvotur og mátti vart mæla þegar hann tilkynnti morguninn eftir á rússneska ráðaþinginu að landsfaðirinn Lenín væri látinn. „Kæru félagar, ég hef hræðilegar fréttir að færa. Heilsa Vladimírs Lenín…“ Einhverjir í salnum ráku strax upp örvæntingaróp. Þegar Kalinín náði loks að klára setninguna brast hver einasti maður í þingsalnum í grát.

 

Kista Leníns flutt.

Kista Leníns flutt.

Daginn eftir var lík leiðtogans fyrrverandi flutt til höfuðborgarinnar. Áhrifamenn í kommúnistaflokknum báru líkkistuna á lestarstöðina í fylgd ótal óbreyttra syrgjenda.

 

Í fjóra daga lá það á viðhafnarbörum í húsi verkalýðsfélaganna í Moskvu. Allt að því ein milljón syrgjenda lögðu leið sína þangað úr öllum krókum og kimum Sovétríkjanna til þess að votta Lenín sína hinstu virðingu þessa fjóra daga. Fólk stóð í biðröðum tímunum saman í nístandi janúarkuldanum.

 

 

Þjóðarsorg

Dauði Leníns kom almennum sovéskum borgurum á óvart og því var harmurinn mikill. Lenín hafði legið banaleguna lengi, en sovéska pressann hafði flutt tíðar og ósannar fréttir af því að hann væri alltaf að braggast.

 

Í öllum Sovétríkjunum ríkti algjör þjóðarsorg. Vinnustaðir voru lokaðir í heila viku, sem og leikhús og aðrir skemmtistaðir. Það eina sem var opið voru verslanir sem seldu myndir af Lenín. Þessar myndir birtust svo í svo að segja í öðrum hverjum glugga vafin í svört sorgarklæði. Sorgarfundir voru haldnir á vinnustöðum, í herdeildum, samtökum og í skólum þar sem fólk sór þess heit að heiðra minningu Leníns með því að vinna í þágu kommúnismans.

 

Fyrrum höfuðborg Péturs mikla við Eystrasaltið var endurskírð Leníngrad.

 

Auðvitað var ekki hægt að grafa sjálfan Lenín í venjulegri gröf í jörðu. Því var byggt grafhýsi fyrir leiðtogann á mest áberandi stað sem hægt er — á miðju Rauða torginu. Grafhýsið var úr tré og ekki gert ráð fyrir í fyrstu að það yrði þar til frambúðar, aðeins á meðan versta sorgaraldan gekk yfir.

 

Frá útför Leníns.

Frá útför Leníns.

 

Útför Leníns var svo gerð á Rauða torginu 27. janúar. Athöfnin tók sex klukkustundir í nístandi þrjátíu og fimm stiga frosti. Enn streymdi fólk að kveðja Lenín í hinsta sinn á meðan internasjónalinn var spilaður aftur og aftur.

 

Í öðrum borgum Sovétríkjanna voru haldnir útifundir þar sem tugþúsundir söfnuðust saman. Í borginni sem nú hét Leníngrad voru settar upp sérstakar læknisstöðvar þar sem syrgjendur gátu fengið meðhöndlun við kali.

 

Málverk Ísaks Brodskíj af útför Leníns.

Málverk Ísaks Brodskíj af útför Leníns.

 

Þetta var upphafið að dýrkun á Lenín, sem einhverskonar yfirmannlegum dýrlingi kommúnismans, dýrkun sem varð svo alvanalegur hluti af lífi í Sovétríkjunum — með styttum af Lenín í hverju einasta krummaskuði og slagorðum eins og Lenín lifir að eilífu og Lenín er alltaf með okkur.

 

Skáldið Vladimír Majakovskí orti: „‘Lenín’ og ‘dauði’ – þessi tvö orð eru óvinir. ‘Lenín’ og ‘líf’, eru félagar. Lenín lifði. Lenín lifir. Lenín mun lifa“.

 

Allir framármenn kommúnista voru sammála um að varðveita yrði líkama Leníns eftir fremsta megni. Líkið hafði þegar verið smurt enda liðu margir dagar milli andlátsins og jarðarfararinnar. En þó að hundruð þúsunda hefðu á þeim tíma virt fyrir sér lík Leníns og vottað því virðingu sína voru ótal íbúar Sovétríkjanna sem enn höfðu ekki gert það.

 

Nefnd um ódauðleika Vladimírs Lenín

Hugmyndir voru uppi um að frysta líkamsleifar leiðtogans. Einn af helstu hvatamönnum þess var Alexander nokkur Bogdanov, læknir og vísindaskáldsagnahöfundur. Bogdanov var áhugamaður um yngingaraðferðir og eilíft líf. Hann mælti með blóðgjöfum sem allra meina bót, með því að láta dæla í sig blóði yngdist maður upp, endurheimti sjónina og fleira. Bogdanov stærði sig af því að honum hefði með blóðgjöf tekist að yngja upp nokkra kommúnistaleiðtoga. En hann var annars ekki í náðinni og fljótlega var ákveðið að reyna að varðveita jarðneskar leifar Leníns með öðrum og hefðbundnari hætti.

 

Nefnd var stofnuð sem bar heitið Nefnd um ódauðleika Vladimírs Lenín og fólu nefndarmennirnir Vladimír Vorobiov, prófessor í líffærafræði við háskólann í Kharkov, og lífefnafræðingnum Boris Zbarsky að sjá um að varðveita Lenín um aldur og eilífð.

 

tumblr_l8zotg7DlT1qzdx6f

 

 

Þetta voru ný og óþekkt fræði. Í fjóra mánuði gerðu Zbarsky og Vorobiov þrotlausar tilraunir á öðrum líkum sem þeir böðuðu í ýmsum efnum. Þeir urðu þó að hafa hraðar hendur — því á meðan þeir unnu var lík Leníns að rotna, hægt en örugglega. Húð hans var þegar farin að fölna og hafði tekið á sig grænan blæ, og eyrun höfðu krumpast saman.

 

Innyflin voru fjarlægð og heilinn var sendur til sérstakrar rannsóknar til Berlín. Þýski taugafræðingurinn Oskar Vogt, sem rannsakaði heilann, fann þar eitthvað sem hann kallaði ‘risafrumur’ sem hann sagði að benti til þess að Lenín hafi verið einstökum gáfum gæddur.

 

Í júlí 1924, hálfu ári eftir andlát leiðtogans, voru vísindamennirnir komnir með töfraformúlu, blöndu af glýseról, kalín, kínín og alkóhóli. Með því að baða Lenín reglulega úr þessari efnablöndu hægði á rotnuninni og líkið leit strax líflegra út.

 

Fyrst var Lenín „geymdur“ í þessu viðargrafhýsi.

Fyrst var Lenín „geymdur“ í þessu viðargrafhýsi.

 

Ódauðleikanefndin hyllti vísindamennina sem galdramenn. Viðargrafhýsið, sem líkið hafði hvílt í síðan í jarðaförinni, þótti ekki nægilega tilkomumikið og því var efnt til samkeppni um annað og varanlegra. Ótal tillögur bárust frá helstu arkítektum Sovétríkjanna. Byggingar sem líktust stóru skipi sem sigldi í átt að vita prýddum rauðum stjörnum, traktorar og lestarvagnar, skógi vaxið fjall með stærðarinnar kastala sem úr skein leiðarljós Leníns til heimsbyggðarinnar, tuttugu hæða risastytta af Vladímír sjálfum, grafhýsi sem líktust helst evrópskum dómkirkjum eða grískum hofum.

 

En sigurtillagan var reyndar einföld, granítbyggingin sem við lýstum hér í upphafi, innblásin af egypskum þrepapýramídum og grafhýsi Kýrosar mikla í Persepólis.

 

Og þar hvílir lík Leníns enn og hefur vísindamönnum með undraverðum leiðum tekist að varðveita það í níutíu ár. Þetta varð ævistarf þeirra Vladimirs Vorobiovs og Borisar Zbarsky sem sáu um smurninga upphaflega — síðan tók sonur Zbarskys, Ilya Zbarsky, við af föður sínum og sá um líkið í áratugi.

 

Málverk eftir Ísak Brodskíj af nýja grafhýsinu.

Málverk eftir Ísak Brodskíj af nýja grafhýsinu.

 

Boris Zbarsky var enginn eldheitur kommúnisti en var, vegna þekkingar sinnar, algjörlega ómissandi fyrir sovésk stjórnvöld. Eftir fall Sovétríkjanna 1991 fletti sonurinn Ilya Zbarsky föður sínum upp í leyniskjölum KGB. Kom þá í ljós að hann hafði ítrekað verið yfirheyrður af KGB fyrir grun um andkommúnískar skoðanir. En aldrei handtekinn. Á skýrslu KGB um Boris Zbarsky var skrifað — ‘Ekki hreyfa við honum fyrr en staðgengill finnst’. Rithöndin var Jósefs Stalíns.

 

 

Gríðarfærir líksnyrtar

Einu sinni hefur þurft að færa líkið af dvalarstað sínum í grafhýsinu. Það var í seinni heimsstyrjöld. Árið 1941 var líkið flutt til öryggis til Síberíu þar sem það var svo geymt öll stríðsárin. Moskvubúar fengu ekki að vita þetta — þeir áttu auðvitað að halda að Lenín væri enn í höfuðborginni, og þjáðist við hlið annarra borgarbúa. En síberíukuldinn ku hafa gert Lenín gott og líksnyrtarnir sem voru með í för skrifuðu hjá sér að líklega hefði hann aldrei litið betur út en einmitt þá, tuttugu árum eftir andlátið.

 

Ho Chi Minh var smurður með Leníntækninni.

Ho Chi Minh var smurður með Leníntækninni.

 

Líksnyrtar Leníns hafa átt ágæta tilveru, þetta var ágætlega borgað starf á sovéskan mælikvarða. Þeir voru líka sérfræðingar í sínu fagi, að varðveita líkamsleifar byltingarleiðtoga, og ferðust því víða — til dæmis til Víetnam, að leiðbeina Víetnömum hvernig best væri að smyrja Ho Chi Minh, og svo framvegis.

 

Eftir fall Sovétríkjanna fóru þeir út í einkabissness og buðu þjónustu sína hæstbjóðanda, smurðu og löppuðu upp á lík rússneskra mafíósa og olígarka.

 

Frægt er að smurðu líki Stalíns var svo komið fyrir við hlið Lenín eftir andlát hans árið 1953. En það fékk ekki að hvíla þar lengi því í umbótum Krúsjoffs árið 1961 var lík Stalíns fjarlægt úr grafhýsinu og það grafið við hlið annarra leiðtoga og herforingja í grafreitnum við veggi Kreml, aðeins stutta vegalengd frá grafhýsinu.

 

Hvað næst?

En hvað á að verða um Lenín? Á hann að hvíla þarna að eilífu, eins og var hugmynd leiðtoga Sovétríkjanna við andlát hans — þó að nú sé Sovétríkin líka löngu hætt að vera til? Framtíð smyrlingsins á Rauða torginu er Moskvubúum nokkur höfuðverkur.

 

Enn sefur Lenín við Kremlarmúra.

Enn sefur Lenín við Kremlarmúra.

 

Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var árið 2012 voru 56 prósent Rússa fylgjandi því að fjarlægja Lenín úr grafhýsinu og grafa líkið. Enginn stjórnmálaleiðtogi hefur þó viljað enn taka þessa afdrifaríku ákvörðun. Og smyrlingurinn á sér enn eldheita stuðningsmenn. Nýskipaður menningarmálaráðherra, Vladimir Medinsky, hafði orð á því í útvarpsviðtali árið 2012 að kannski væri best að grafa Lenín með viðhöfn eins og gert var við Stalín.

 

Viðbrögðin sem Medinsky fékk voru ekki góð. Og hvergi verri en hjá liðsmönnum rússneska kommúnistaflokksins, því enn er jú kommúnistaflokkur starfræktur í Rússlandi. Formaður hans, Gennady Zyuganov, sagði að það eitt að vekja máls á því að færa lík Leníns væri ögrun við minningu Leníns og tilrauns til þess að grafa undan rússneska sambandslýðveldinu. Mótmælendur birtast við grafhýsið hvenær sem sá orðrómur kemst á kreik að fjarlægja eigi líkið til greftrunar.

 

Og þó það hafi tekist að varðveita líkið með undraverðum árangri er ekki hægt að neita því að karlinn er orðinn ævagamall og níutíu ár síðan hann lést. Auðvitað er aldurinn farinn að segja til sín og arftakar Zbarsky-feðga sem sjá um líkið þurfa að beita æ róttækari aðferðum og efnum til þess að viðhalda honum. Orðið á götunni í Moskvu ku vera að af þeim Vladimír Lenín sem ferðamenn berja í dag augum í grafhýsinu á Rauða torgi, sé ekki nema um tíu prósent í alvörunni Vladimír Lenín. En hvað eru þá hin níutíu prósentin?

 

Rússneskir kommúnistar fyrir framan grafhýsið.

Rússneskir kommúnistar fyrir framan grafhýsið.