Sjáið þessa fögru, frábæru skepnu. Þetta er glæný lemúrategund, áður óþekkt: Lavasóa-dverglemúr (Cheirogaleus lavasoensis).

 

Lavasóa-dverglemúrinn hefur auðvitað verið til lengi, og er ekki „nýr“ í öðrum skilningi en að við mennirnir, sem sækjumst eftir því að skilgreina lemúra heimsins í flokka og tegundir, vissum ekki fyrr en nú af tilvist hans og sérstöðu.

 

Eins og dyggir lesendur vita eru til meira en hundrað lemúrategundir. Þar á meðal var talið að væru fimm tegundir dverglemúra (dverglemúrar eru minni en flestar aðrar tegundir lemúra, en stærri en músalemúrar), en nú hafa knáir lemúrafræðingar við Johannes Gutenberg-háskólann í Mainz í Þýskalandi sannað með genarannsóknum að dverglemúrategundirnar eru í raun sex.

 

Hinn áður óþekkti sjötti dverglemúr, sem jafnframt er lemúrategund númer 105,  dregur nafn sitt af fjallgarðinum Lavasóa í suðurhluta Madagaskar þar sem vísindamenn römbuðu á þessa snilldarlegu skepnu. Lavasóa-dverglemúrar eru um 54 sentímetra langir og vega 300 grömm, og eins og sjá má  á meðfylgjandi myndum eru þeir einstaklega gáfulegir.

 

Það er vitanlega miklar gleðifréttir að Lavasóa-dverglemúrinn hafi bæst í ríka lemúraflóruna, en um leið er það sorgarfregn. Því miður er dverglemúrinn, líkt og svo margar aðrar lemúrategundir, líklega í bráðri útrýmingarhættu. Lemúrafræðingar telja að ef til vill séu aðeins um fimmtíu dýr af þessari nýju tegund til.

 

Dverglemúrinn ferski í náttúrulegu umhverfi sínu.

Dverglemúrinn ferski í náttúrulegu umhverfi sínu.