Lemúrar eru ótrúlega fjölbreyttar skepnur. Líffræðingum hefur reiknast að til séu 101 tegundir af lemúrum, sem allir hafast við á eyjunni Madagaskar í Indlandshafi. Og nú eru þær orðnar 102! Í nýjasta tölublaði apafræðiritsins Primates tilkynnti hópur þýskra og madagaskra vísindamanna að þau hefðu uppgötvað nýja tegund lemúra í regnskóginum Sahafina á austurhluta Madagaskar.

 

Nýi lemúrinn hefur fengið nafnið Músalemúr Gerps (e. Gerp’s mouse lemur, l. Microcebus gerpi). GERP er skammstöfun á Groupe d’Étude et de Recherche sur les Primates de Madagascar, madagaskri lemúrarannsóknarstofnun. Lemúrinn hefur áður fjallað um frænda nýja lemúrsins, hinn agnarsmáa músalemúr frú Berthe. Sá er nefndur eftir Berthe Rakotosamimanana, sem var einmitt framkvæmdastjóri GERP til margra ára.

 

Tegundir músalemúra eru fjölmargar og jafnan nefndar eftir vísindamönnum. Helstu skyldmenni músalemúrs Gerps eru músalemúr Jollys og músalemúr Goodmans, báðir nefndir í höfuðið á bandarískum lemúrafræðingum, Alison Jolly og Steve Goodman.

 

Gerpur, er það ekki ágætt íslensk nafn á kauða? Ekki köllum við hann ‘gerpi’!

 

Gerpur litli er á stærð við meðalhamstur og vegur 60-70 grömm. Það er í stærri kantinum af músalemúr að vera. Hann er náttdýr og heldur sig á láglendi Sahafina-regnskógarins. Lítið annað er vitað um hagi hans — en fullyrða má að hann sé í einhverri útrýmingarhættu. Skógurinn þar sem hann býr er ekki friðaður og innfæddir valsa þar um og veiða dýr og fella öll þau tré sem þeim sýnist. Heimabyggðir gerps fara því síminnkandi.

 

Ritstjórn veftímaritsins Lemúrsins óskar gerpum hvarvetna til hamingju með að hafa verið uppgötvaðir af vísindasamfélagi mannanna og óskar þeim einnig velfarnaðar í framtíðinni.

 

Fyrsti gerpurinn sem vísindamenn rannsökuðu. Þessum frumkvöðli var síðan sleppt aftur lausum í regnskóginn.