Á 18. öld kom út í Danmörku saga um íslenskan skipbrotsmann sem lent hafði á eyðieyju og dúsað þar einn líkt og Róbinson Krúsó.

 

Skip sekkur út á langt úti á hafi, og langt fjarri meginlöndunum. Í stormi og brotsjó kemst aðeins einn af skipverjunum lífs af. Við illan leik nær hann landi á lítilli eyju.

 

Næstu daga, vikur, mánuði, ár þarf skipbrotsmaðurinn að reyna að sjá fyrir sér á eyðieyjunni.

 

Kannski er hann eini maðurinn á eyjunni — eða kannski eru þar fyrir eyjarskeggjar, kannski mannætur.

 

Allir kannast við svona sögur. Strandaglópurinn á eyðieyjunni er eitt af þekktustu minnum bókmenntasögunnar  — við þekkjum svona sögur úr kvikmyndum og sjónvarpi, ævintýrum jafnt sem martröðum.

 

Eyðieyja. (https://www.flickr.com/photos/edgarbarany/)

Eyðieyja. (https://www.flickr.com/photos/edgarbarany/)

 

Frægasta dæmið um slíkan strandaglóp er auðvitað Róbinson Krúsó, í samnefndri bók Bretans Daniel Defoe sem kom út árið 1719.

 

Eftir að verk Defoes sló í gegn þeystu fjölmargir höfundar um víða veröld fram á ritvöllinn og skrifuðu sínar eigin skipbrotsmanna- og eyðieyjusögur. Róbinson-æði greip um sig, má segja.

 

Daniel Defoe bjó til „Róbinsonæðið“ og var einn helsti brautryðjandi nútímaskáldsögunnar.

Daniel Defoe bjó til „Róbinsonæðið“ og var einn helsti brautryðjandi nútímaskáldsögunnar.

 

Vinsældir slíkra bóka má ef til vill skýra að einhverju leyti með því að þær voru um leið fræðslurit um fjarlæga staði og þjóðir.

 

Einn þeirra sem framleiddi slíkar sögur á færibandi var Johan Georg Fleischer, herforingi í Kaupmannahöfn, sem mun hafa verið fremur lítilfjörlegur rithöfundur.

 

Hann skrifaði um norræna Róbinsona. Ein bókin var um danskan Róbinson og önnur um færeyskan Róbinson. Og 1755 sendi Fleischer svo frá sér bók um íslenskan Róbinson Krúsó. Eins og tíðkaðist á 18. öld bar bókin ægilega langan titil. Í daga þótti ekki nógu fínt að kalla bækur stuttum nöfnum, eins og þekkist í dag: Mýrin, Da Vinci lykillinn, Illska. Nei. Bókin hét:

 

Sá íslenski Róbinson eða hinar undarlegu ferðir og atburðir sem drifu á daga Gissurs Ísleifs, sem fæddur var á Íslandi; er hér sérstaklega lýst einveru hans á óbygðri smáeyju og hvernig hann komst loksins þaðan, en inn í þessa frásögn er skotið skemtilegum ástasögu annarra manna. Aptanvið er viðbætir, stutt en þó áreiðanleg skýrsla um hina stóru eyju Ísland og nákvæmt kort af henni.

 

Það var og. Það er kannski óþarfi að lesa sjálfa bókina eftir alla þessa romsu.

 

Lemúrinn hefur þessa miklu sögu ekki undir höndum. Þess í stað styðjumst við við endursögn hennar sem Ólafur Davíðsson skrifaði í Sunnanfara 1893.

 

Hinn íslenski Róbinson Krúsó heitir Gissur Ísleifsson og bar því sama nafn og biskup Íslands í eldgamladaga. Ekki kemur fram hvers vegna Fleischer valdi það háheilaga nafn á söguhetjuna.

 

Fyrst er sagt frá æskuárum Gissurar á Íslandi. Faðir hans var kaupmaður og hafði ferðast víða um lönd. Kaupmaður frá Hamborg, sem ferðast hafði með kaupskipi til Íslands, veiktist og gat ekki siglt með félögum sínum heim. Hann gisti því í föðurhúsum Gissurar. Sér til skemmtunar kenndi hinn veiki kaupmaður drengnum þýsku. Þegar sá þýski jafnaði sig bauð hann Gissuri að koma með sér til Hamborgar og þáði hinn efnilegi piltur það góða boð.

 

ship1

 

Gissur fór til Hamborgar og hóf feril sem kaupmaður þar og síðar sjómaður. Sagt er frá ýmsum skrautlegum atburðum, hann kynnist vændiskonu í Amsterdam og verður ástfanginn af henni. Síðar ferðast hann svo alla leið til Indlands með kaupskipi. Á leiðinni mætir skipið ægilegu sjóskrímsli en sem betur fer sluppu Gissur og félagar undan því.

 

Hann ferðast svo til Indónesíu, sem á þessum tíma var hollensk nýlenda. Í borginni Batavíu hitti Gissur Íslending sem var veitingamaður þar og ræddu þeir mikið saman um hið fjarlæga heimaland. Og í Batavíu varð Gissur auðvitað bálskotinn í laglegri stúlku, sem Karitas hét og fer mikið púður í að útskýra allt það ævintýri. Áður en skip hans fór náði hann að biðja Karitasar. En svo lagði skipið af stað og þá hefst hin eiginlega Róbinson-saga.

 

Ferðin gekk ágætlega suður að Góðrarvonarhöfða, en þá skalla á fjarskalegur stormur með geysilegum þrumum og eldingum. Stormurinn stóð í átta daga og keyrði allt úr lagi. Siglutrén brotnuðu og sjórinn gekk hátt yfir skipið; voru allir lafhræddir nema skipstjóri.

 

Andries_Beeckman_-_The_Castle_of_Batavia

Jakarta, höfuðborg Indónesíu, bar nafnið Batavía, þegar landið var undir hæl Hollendinga.

 

Þegar minnst að vonum varði brotnaði skipið í spón og fórst öll skipshöfnin nema Gissur; hann náði í vatnstunnu og hélt í hana dauðahaldi; lægði nú storminn nokkuð og um morguninn sá Gissur að hann var nærri landi; tókst honum að svamla þangað og bjarga tunnunni; kom hún honum í góðar þarfir, því hún var hálffull af vatni og hressti Gissur sig á því.

 

Þegar Gissur fór að litast um sá hann að ekki leit glæsilega út fyrir sér. Hann var staddur á svolítilli sandeyju, svo illar horfur voru með vatn og vistir. Auk þess var hann alveg verkfæralaus, nema hann hafði stóran hníf í vasa sínum. Hann lét þó ekki hugfallast og var þess fullviss að guð ætti eins hægt með að bjarga sér af þessari eyðieyju og hann hefði átt hægt með að bjarga sér þangað. Það styrkti hann líka í þessari trú, að hann fann kistu fulla af tvíbökum í flæðarmálinu og var nú ekki hætt við að hann dæi úr hungri eða þorsta í bráð. Kistuna sló hann í sundur og reisti fjalirnar upp við svolítinn skúta; lagðist hann til svefns í þessu hreysi og steinsofnaði.

 

Þegar Gissur vaknaði næsta morgun var hann miklu hressari og fór að kanna eyna, því daginn áður hafði hann ekki haft sinnu á því. Hann sá land í nánd við eyna svo sem fjórðung mílu frá henni og fór þegar að hugsa um að brjótast þangað, en hætti þó við það í svipinn, því honum datt í hug að þar kynnu að búa villimenn, sem mundu drepa sig. Auk þess gat alltaf borið skip að eyju hans og bjargað honum.

 

Á heimleiðinni sá Gissur kistur, kassa og ýmislegt annað velkjast í flæðarmálinu, en gat engu náð af því nema timburöxi og eldspaða. Auk þess fann hann fílabeinskistil með gullspöngum og gullhandföngum og hékk gulllykill við annað.

 

Auðséð var að kistillinn hafði legið þar lengi mjög. Gissur lauk upp kistlinum og fann  þar ýmis smálíkneski úr gulli og mjög hagleg málverk. Auk þess voru þýsk ástarljóð í stokknum. Allt var þetta óskemmt; vakti allt þetta dót mjög alvarlegar og raunalegar hugsanir hjá Gissuri og ásetti hann sér að ef hann kæmist lífs úr þessum vanda, skyldi hann hugsa minna um ást og skemmtanir en meira um náð guðs og eilífa velferð sína og skoða skipbrotið svo sem „hirtingarvönd syndugs manns“.

 

Enn fann hann kistu fulla af peningum og gullstöngum, og bar hann hvort tveggja heim að hreysi sínu, þótt hann hefði reyndar lítið við peninga að gera í bráðina, en nú fór Gissur að verða vatnslaus og neyddist hann því til að reyna að slarka til landsins, því dauðinn var vís á sandeynni. Honum datt fyrst í hug að reyna að synda til landsins, en þótti það víðsjárvert. Skömmu seinna rak tóma vatnstunnu við eyna og nokkrar spýtur, og datt honum nú ráð í hug að komast af eynni, en það var að sigla til lands á tunnunum. Hængur var þó á þessu, því hann átti ekkert band né snæri til í eigu sinni.

 

castaway_786_poster

 

Gissur var þó ekki ráðalaus; hann fléttaði reipi úr þurru þangi og batt tunnurnar saman með því. Að því búnu negldi hann fjalir ofan á þær og reisti einn staurinn, sem rekið hafði, milli þeirra og festi hann vel; skyldi hann vera siglutré, en skyrtu sína ætlaði hann í staðinn fyrir segl.

 

Enn bjó hann út stýri; fyllti hann nú tómu tunnuna gulli, svo sem svaraði vatninu, sem eftir var í hinni og reyndi svo farið, ef far skyldi kalla; þótti honum það duga framar öllum vonum; ásetti Gissur sér nú að halda þegar af stað til ókunna landsins, því veður stóð þangað; lagði hann nú það sem eftir var af gullstöngunum, nokkuð af peningum, tvíbökum o.s.frv. ofan á fjalirnar, sem hann hafði neglt á tunnurnar og lét í haf.

 

Ferðin gekk furðanlega vel og bar hann skjótt að landi; festi hann fyrst far sitt, en því næst féll hann á kné og lofaði guð; var hann nú ekki lengur hræddur við villimenn, því hann þóttist vera viss um, að hann mundi hafa orðið var við báta þeirra, eða sé reyki til þeirra ef þeir væru þar fyrir.

 

Næsta morgun var komið ákaflegt óveður, en samt fór Gissur að kanna landið; leið ekki á löngu áður en hann fann bæði nóg vatn og ávaxtatré; bjó hann sér þá til hreysi og settist þar að.

 

1280px-Desertisland

 

Gissur okkar Ísleifsson nemur farsællega land á eyðieyjunni. Hann finnur til dæmis gamla geit sem hann temur og mjólkar sér til matar.

 

Sex ár liðu svo að Gissur varð ekki var við skip né menn, og fann hann sér ýmislegt til dægrastyttingar og jafnframt til að bæta hag sinn. Hann brenndi diska og skálir úr límkenndum leir, sem hann fann og límdi saman með honum kókoshnetur, sem hann hafði opnað og fyllt með peningum, svo ekki sást annað en að þær væru óbrotnar. […]

 

Gissur fór nú að venjast einverunni og var hann næstum því hætt að langa burt frá eynni, en þá sjaldan hann fékk óyndi varpaði hann allri áhyggju sinni upp á guð og var það honum hin mesta hugsvölun. Einu sinni þegar Gissur var í vondu skapi heyrði hann mjög ámátlegt fuglsgarg og sá hvar ránfugl elti páfagauk. Páfagaukurinn var lafhræddur og fleygði sér niður fyrir fætur Gissuri og hreyfði sig ekki þaðan langalengi, en ránfuglinn flaug burtu; tamdi Gissur páfagaukinn og hafði af honum hina mestu skemmtun.

 

blackrockfullsail

 

Þegar Gissur hafði verið 10 ár á eyðieyjunni sá hann morgun einn, þegar hann vaknaði, að skip lá fyrir atkerum við eyna. Hann ætlaði að taka bát sinn og róa til skipsins, en sá fljótt að margir af skipverjum voru komnir í land, og sá hann að fataburði þeirra að þeir voru Hollendingar. Hann hafði nú tal af þeim og kom þeim vel saman; kvaðst Gissur mundu biðja skipstjóra um far frá eynni og sögðu þeir að nógur tími væri til að tala við hann, því skip þeirra væri lekt og yrðu þeir því að liggja þar nokkuð lengi.

 

Gissur hitti nú skipstjóra og lofaði hann að honum fúslega að flytja hann heim. Fræddi skipstjórinn hann á því að það væri aðeins hending að hann hefði komið til eyjarinnar, því annars lægi hún svo afskipt, að skip kæmu aldrei þangað. Skipstjóri rak augun í kókoshnetur Gissurar og tók eina upp; kvaðst hann aldrei hafa vitað jafnþunga kókoshnot. Gissur sagði honum satt frá hvernig stæði á því og bauð honum að þiggja svo margar peningahnetur sem hann vildi, en skipstjóri vildi ekki þiggja einn einasta eyri og varð það úr að Gissur gaf skipshöfninni svolítið af peningum, eftir undirlagi skipstjóra, en miklu minna en hann vildi.

 

Skipið lá nokkuð lengi við eyna og notaði Gissur tímann á meðan til að búa sig af stað. Skipstjórinn reyndist honum eins og besti bróðir og skinnaði hann upp til skeggs og fata; varð Gissur þá eins og annar maður. Auk þess lét skipstjóri sauma poka, svo Gissur gæti flutt farangur sinn á burt og voru það einkum peningahneturnar, gullið og svo ýmis áhöld til minja.

 

Þegar farartími skipsins nálgaðist flutti Gissur hafturtask sitt út í það og rann honum nú svo til rifja að skilja við ey sína, að hann fékk ekki tára bundist, en þegar [kærustunni] Karitas brá fyrir hugskotssjónir hans hvarf þessi ömurleiki og skildi Gissur loks glaður við eyna, því hann bjóst við að innan skamms mundi hann sjá Karitas sína og það þótti honum mestu skipta.

 

Ferðin gekk ágætlega til Kap og var Gissur svo hepppinn að þar lá skip ferðbúið til Batavia og kom hann sér þegar í það.

 

Þessi mikla saga endar vel því Gissur kemst fljótt til Batavíu í Indónesíu þar sem kærastan Karitas bíður hans enn. Hann lifir sæll til æviloka þar í landi ásamt konu sinni og hefur félagsskap af landa sínum sem hann hitti þar.

 

Og þau lifðu hamingjusöm allt til æviloka.

Og þau lifðu hamingjusöm allt til æviloka.