Það að ímynda sér hvernig samfélag og siðir okkar mannanna litu út frá sjónarhóli geimvera, t.d. marsbúa, er algeng þankatilraun. Við tökum ýmsu sem gefnum hlut þó það gæti virst utanaðkomandi vitsmunaverum stórfurðulegt. Vísindaskáldsagnahöfundar hafa gert sér mat úr þess konar þankatilraunum og skrifað sögur þar sem lesandinn skoðar samfélag jarðarinnar frá öðrum sjónarhóli. Glöggt er gests augað.

 

Þekktust er kannski skáldsaga Roberts A. Heinlein, Stranger in a Strange Land frá 1961. Hún lýsir upplifun manns sem alist hefur upp á meðal Marsbúa allt sitt líf af samfélagi jarðarbúa, eða þeirri nánu framtíð þess sem Heinlein dregur upp og byggir mest á bandarísku samfélagi eftirstríðsáranna.

 

Hann skrifaði bókina sérstaklega í uppreisn gegn ríkjandi siðfræðigildum og í gegnum hinn fordómalausa Marsbúa skoðar hann kynlífshegðun og trúarbrögð manna með gagnrýnum hætti. Söguhetjan endar svo á því að gerbylta jarðnesku samfélagi í gegnum trúarhreyfingu sem hann og fylgjendur hans stofna.

 

Skoski vísindskáldsöguhöfundurinn Iain M. Banks sem lést langt fyrir aldur fram í fyrra skrifaði sögu í svipuðum dúr, State of the Art. Glöggskyggnar geimverur þeirrar sögu láta sér hinsvegar nægja að fylgjast með jörðinni úr leynum og taka í kjölfarið þá ákvörðun að skipta sér ekki af þrátt fyrir uggvænleg teikn um kjarnorkustríð og umhverfishörmungar.

 

Iain M. Banks.

Sagan er sett upp sem endurminningar einnar geimverunnar af ferð sinni til jarðarinnar. Sú gengur undir nafninu Diziet Sma og kemur einnig fyrir í öðrum sögum höfundarins. Hún er borgari í samfélagi sem kallar sig einfaldlega „The Culture“ eða Menninguna, og er það sögusvið flestra vísindaskáldsagna höfundarins þar sem jörðin kemur ekkert við sögu.

 

Flestir borgarar Menningarinnar eru af tegundum sem líkjast okkur að mestu leiti — en þetta er nokkurskonar anarkísk útópía þar sem ofurgáfaðar gervigreindir vaka yfir og útvega allar þær vörur og þjónustu sem nokkur gæti girnst. Skortur og þau félagslegu vandamál sem honum fylgja eru því óþekkt.
Geimskipið Arbitrary í könnunarflota Menningarinnar kemur til Jarðarinnar með áhöfn um það bil 300 geimvera árið 1977 til að safna eins miklum upplýsingum um hana og hægt er á nokkrum mánuðum.

 

Gervigreind skipsins hefur yfir öflugum mælitækjum að ráða en sendir líka niður meðlimi áhafnarinnar í dulbúningi til að kynnast samfélagi manna með nánari hætti. Sögumaðurinn heillast að mörgu en hefur yfir það heila ekki mikið álit á framferði mannkyns sem geri yfirleitt ekkert annað en að myrða hvort annað og finna upp nýjar og betri leiðir til þess að drepa í framtíðinni. Hún mælist til þess að þau afhjúpi sig og beiti kröftum sínum til að beina mannkyninu á braut framfara og upplýsingar.

 

Aðrir áhafnarmeðlimir hafa aðrar skoðanir. Einn sérvitringur um borð er til dæmis þeirrar skoðunar að best væri að eyða jörðinni með því að henda svosem einu svartholi inn í kjarna hennar vegna þess hve hættuleg tegundin sem byggi hana sé. Þessu lýsir hann yfir í athöfn þar sem hann skipar sjálfan sig skipstjóra, búinn alvöru geislasverði eftir að hafa séð nýfrumsýnt Stjörnustríð.

 

Þessu er öllu tekið af mikilli léttúð enda skipið algjörlega sjálfs síns herra. Sérvitringurinn býður til mikillar veislu til að vinna fólk á sitt band og meðal hápúnkta eru kjötréttir ræktaðir úr DNA helstu leiðtoga og einræðisherra jarðarinnar. Geimverurnar gæða sér með bestu lyst á Idi Amin-kássu, Pinochet-chili con carne, Nixon-hamborgurum, Kim Il Sung-fríkasse og kebab úr Íranskeisara.

 

Þetta borða þau af diskum soldánsins af Brúnei með munnþurrkum úr Títanik og skola svo niður með vínum úr heimsmetabók Guinness, allt fengið að láni með fjarflutningi.

 

Richard Nixon bendir á Kambódíu.

 

Geimverurnar hafa ýmislegt að segja um ástand jarðarnnar. Á skoðunarferðum sínum um Vesturlönd hlakkar í sögumanninum yfir því að framtíðin sé djúprauð frá þeirra sjónarhóli þar sem hún kemur úr samfélagi þar sem peningar eru ekki til og framleiðslutækin ekki bara sameiginleg heldur sjálfsmeðvituð. Hún þarf enda að minna sig á að borga fyrir vörur í hvert skipti.

 

Lönd kommúnismans heilla hana samt ekki og virðast fyrir henni sem lélegar eftirlíkingar af neyslusamfélagi Vesturlanda. Samferðarmenn hennar upplifa svo hryllinginn í Kambódíu Rauðu khmerana og berjast með Eritríubúum í stríðinu við Eþíópíu á meðan geimskipið rennir í gegnum útreikinga um líkindi þess að mannkynið lifi af án kjarnorkustríðs og umhverfisógna. Líkön þess virðast ekki gefa tilefni til mikillar bjartsýni um næstu öld.

 

Álit þeirra er þó ekki aðeins neikvætt, þær drekka í sig menningu jarðarbúa. Geimskipið sjálft fær æði fyrir ýmsum tónlistarmönnum frá Bach til Stockhausen, og sendir in ósk til BBC World Service um að spila Space Oddity eftir Bowie sem er ekki sinnt, hinu nær-almáttuga geimskipi til mikillar gleði. Sögumaðurinn ráfar fyrir slysni í gegnum minnismerki í París um gyðinga sem fluttir voru í útrýmingarbúðir af nasistum og er djúpt snortin af þversagnakenndu eðli mannskepnunar, getunni til að fremja svo hryllileg ódæðisverk og til að sjá eftir þeim þeirra með svo áhrifamiklum hætti.

 

Minnismerkið Mémorial des Martyrs de la Déportation í París.

 

Einn áhafnarmeðlimur hrífst svo af mönnum að hann hyggst setjast að á Jörðinni og heimtar að sér verði breytt til þess að líkjast mönnum sem mest, sem flestar hinna háþróuðu geimvera myndju telja mikla afturför. Frásögn sögumannsins snýst að mestu um tilraunir hennar fyrir hönd skipsins til að telja honum hughvarf, án árangurs. Í síðustu ferð sinni til jarðarinnar hittir hún hann í New York þar sem hann hefur snúist til kristni og talar af mikilli ákefð og hrifningu um allt sem líf á Jörðinni hefur fram að bjóða umfram öryggi og fyrirsjáanleika Menningarinnar. Hann hefur gefið sig á vald þeim örlögum sem allir menn eru háðir og forsmáir aðstoð geimskipsins.

 

Svo óheppilega vill til að ráðist er á þau þegar þau eru að leita sér að vetingastað. Sögumaðurinn bregst við í tæka tíð þökk sé ofurmannlegum viðbrögðum sínum en hinn breytti félagi hennar er silalegri og er stunginn lífshættulega. Fram á síðustu stundu neitar hann að þiggja hjálp skipsins. Hans hinsta ósk er virt enda Menningin ekki mikið fyrir að takmarka frelsi fólks. Sögumaðurinn hefur þó mikið samviskubit yfir að hafa ekki gert meira til að bjarga honum frá sjálfum sér.

 

Geimskipið Arbitrary yfirgefur sólkerfið skömmu síðar, í janúar árið 1978, hafandi ákveðið að jörðin skuli vera viðmiðun í þeim tilraunum sem Menningin gerir til að bæta frumstæð samfélög lík okkar. Þessar öflugu geimverur munu því ekkert aðhafast þó að menn eyðileggi vistkerfi sitt eða sprengi sig upp í kjarnorkubáli. Þar sem sagan er sögð í formi endurminniga um löngu liðna atburði og gefið er í skyn að Jörðin sé enn þess virði að skoða er þó hægt að greina einhverja von um að við höfum ekki dáið út enn.