Skrifuðu Terry Pratchett heitinn og Yrsa Sigurðardóttir sömu söguna á sama tíma fyrir skemmtilega tilviljun?

 

Breski rithöfundurinn Sir Terence David John Pratchett, betur þekktur sem Terry Pratchett, lést í gær, fimmtudaginn 12. mars á heimili sínu. Banamein hans var alzheimer-sjúkdómurinn sem hafði hrjáð hann síðustu ár þó hann héldi áfram að gefa út bækur ótrauður. Pratchett er annar mest lesni höfundur Bretlands og var á tíunda áratugnum sá söluhæsti þar í landi.

 

Þekktasta höfundarverk hans er Discworld eða Diskheimurinn en hann hefur skrifað meira en fjörtíu bækur sem gerast í eða fjalla um hann. Einnig skrifaði hann bókina Good Omens með rithöfundinum og myndasöguhöfundinum Neil Gaiman og vísindaskáldsögur með Stephen Baxter ásamt mörgum fleiri bókum fyrir bæði börn og fullorðna.

 

diskworld

Svona lítur Diskheimur út.

 

Sjónvarpsmyndir, tölvuleikir, myndasögur, leikrit og jafnvel tónverk hafa verið byggð á verkum hans og hér á landi setti leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð upp verkið Örlagasystur byggt á diskheimsbókinni Wyrd Sisters. Þó hafa einungins tvær bækur eftir hann verið þýddar á íslensku, Litbrigði galdranna og Furðuljósið.

 

Þó að bækur Pratchetts hafi flestar verið gamansögur og fantasíur þá er oft að finna alvarlega undirtóna hjá honum. Nútímavæðing, togstreita á milli kynþátta, jafnrétti kynjanna og trúarbragðadeilur eru aðeins nokkur af þeim viðfangsefnum sem bækur hans eiga við þó að grínið sé sjaldnast langt undan.

 

9780552152679.RH_

 

Árið 2005 kom út bókin Thud eða Dynkur sem er ein af mörgum sem fjalla um lögregluforingjann Sam Vimes og ýmis vandamál sem koma upp í stórborginni Ankh-Morpok. Dvergur finnst myrtur í borginni og það verður til þess að ýfa upp gagnkvæma andúð á milli þeirra og trölla borgarinnar en þessir kynþættir eiga sér langa sögu úlfúðar í Diskheiminum.

 

Það er hinsvegar nokkuð forvitnilegt að margt er svipað í söguþræði Thud og fyrstu bók Yrsu Sigurðardóttur Þriðja tákninu sem kom út sama ár.

 

68828

 

Báðar bækurnar snúast um morðrannsókn á aðkomufólki sem myrt var í tengslum við einhverskonar helgisiði. Þýski sagnfræðineminn Harald Guntlieb finnst myrtur í Árnagarði án augna og með galdrastaf ristann í bringuna en dvergurinn Grag Hamcrusher er einnig limlestur eftir dauða sinn í tengslum við dularfulla helgisiði. Báðir tengjast skuggalegum hópum sem svífast einskis til að verða sér úti um forboðna þekkingu.

 

Í báðum bókum er líka merkum gripum stolið af safni í tengslum við morðin, málverki af orrustu á milli dverga og trölla sem hefur að geyma tákn um falinn fjársjóð í Thud og steinskál sem var notuð við blót og mannfórnir úr Þjóðminjasafninu í Þriðja tákninu.

 

1613280

 

Háskóli Íslands, eins og honum er lýst af Yrsu, með nemendum sem velta fyrir sér eðli galdra í nútímanum og gera tilraunir með þá, svipar meira að segja til Ósýnilega háskólans, Unseen University, sem skipar stóran þátt í Diskheimi Pratchetts.

 

Þar sem bækurnar komu út á sama ári á sitthvoru tungumáli og innan ólíkra bókmenntahefða er líklega bara um skemmtilega tilviljun að ræða en báðar sverja þær sig ætt við dulspekilega glæpasögur þó þær séu aðlagaðar að sérstökum sögusviðum sínum. Dvergar og tröll Diskheims eru líka skilgetin afkvæmi þeirra norrænu galdrahefðar og goðafræði sem er viðfangsefni Yrsu í Þriðja tákninu.

 

Aðdáendur ævintýrabóka og gamansagna um allan heim munu sakna þessa afkastamikla og fjölhæfa rithöfundar sem dó aðeins 66 ára að aldri. Dóttir hans setti inn þessar þrjár Twitter-færslur eftir dauða hans:

 

 

 

 

Þar gengur Terry Pratchett inn í elífðina í fylgd sögupersónu sinnar úr Diskheimi Dauðanum og að þannig lýkur sögu hans.