Jörundur Hundadagakonungur var ein litríkasta persónan í sögu síðustu alda á Íslandi en hann var um skamma hríð konungur Íslands árið 1809. Margir muna að eitt af verkum Jörundar var að reisa vígi við Arnarhól – svokallað Batterí – þar sem stríðsmenn hans (sem lýst hefur verið sem hálfgerðum rónum) stóðu vörð og munduðu aldagamlar fallbyssur sem grafnar höfðu verið upp úr mold á Bessastöðum.

 

Myndin sem hér birtist – og er líklega frá 1911 – sýnir leifarnar af hervirki þessu. Nokkrum áratugum eftir að ljósmyndin birtist í tímaritinu Hauki fullyrti Morgunblaðið að hún væri sú eina sem til væri af Batteríinu.

 

Þegar framkvæmdir við hafnargerðina hófust árið 1913 kom fljótlega að því að Batteríið var rifið, eins og kemur fram í fróðlegri skýrslu frá Minjasafni Reykjavíkur um Arnarhól og nærliggjandi svæði.

 

Hús Seðlabanka Íslands stendur nú á sama stað og þetta vígi Jörundar Hundadagakonungs. Sagt er að fallbyssunum gömlu hafi verið fleygt í sjóinn eftir að valdatíð Jörundar var lokið. En hér er greinin sem birtist með myndinni í tímaritinu Hauki árið 1911:

 

Jörundarvígi

Það eru nú rúm hundrað ár síðan Jörundur Hundadagakóngur ljek skollaleik sinn hjer á landi. Það var eins og kunnugt er fyrri helming ársins 1809. Einu menjar hans hjer á landi eru nú leifarnar af „víginu“, sem hann ljet gera hjer við Reykjavík. Í sögu hans er sagt að hann hafi leigt sjer ellefu „stríðsmenn til vaktar“, og „voru það flest umrenningar og óreiðumenn“…

 

Þótti það „lítilmótlegt, að hafa þessa menn berskjaldaða og bæinn varnarlausan. Tóku þeir Phelps og Jörgensen því að láta hlaða vígi á Arnarhóli austan til við höfnina í Reykjavík, þar sem nú er kallað „Battarí“. En fallbyssurnar vantaði. Vildi þá svo vel til að suður á Bessastaðaskanzi voru gamlar fallbyssur sem Henrik Bjelke höfuðsmaður hafði látið flytja út (til Íslands) þegar hann ljet byggja skanzinn 1668.

 

Þær voru nú sokknar í jörð og kolryðgaðar, en Jörundur ljet grafa þær upp og flytja inn til Reykjavíkur og setja þær á nýja vígið, sem kallað var Phelps-vígi (Fort Phelps).

Þær voru 6 að tölu. Brjóstvarnir voru byggðar og fyrsta fallbyssan sett á vígið 25. júlí og var skotið úr henni tveim kúlum og gekk það vel „svo að byssuhólkarnir hafa þó ekki verið orðnir alveg ónýtir“.

 

En Jörundur var ekki lengi kóngur eftir þetta, því að nú kom Alex Jones til sögunnar. 21. ágúst kom „mergð orlogsskipverja í land og fóru að niðurrifa skanzinn, en færðu kanónurnar flestar nokkuð út sjó“.

 

Og daginn eftir „setti landfógeti Frydensberg plakat upp, að allir skyldi fara til rífa skanzinn, hvað og gert var af mergð mikilli án alls betalings.

 

….kostuðu Gunnarsson, Faber og allir þeir fulla rommfötu þangað sem voru 12 pottar, hvar af hver mátti drekka eftir sem vildi“. En „Jörgen að misstri allri makt og tign hjer, fer nú strax heim til Íslands“.

 

– Sjálfsagt er hjer meira gert úr niðurrofi vígisins, heldur en í raun og veru hefir átt sjer stað, því að eins og myndin sýnir, ber Arnarhóll þess enn ljós merki, að þar hefir vígi verið.

 

Kort frá 1902 sem sýnir Batteríið (lengst til hægri) og svo hafnarsvæðið og Arnarhólinn. (Minjasafn Reykjavíkur)

 

Samsettar myndir eftir Magnús Ólafsson. Smellið til að stækka. Texti Ljósmyndasafns Reykjavíkur: “8. maí 1917, séð yfir Reykjavíkurhöfn og Arnarhól. Nær eru verslunarhús við Hafnarstræti, m.a. Zimsenhús, Siemsenhús, Nordalsíshús, Melsteðhús, Thomsenhús og fleiri byggingar. Fjær er Austurhöfn, Ingólfsgarður, Batteríið og Arnarhóll. Lengst til hægri sést trésmiðjan Völundur við Skúlagötu. Skip og bátar liggja á ytri höfninni, togarar, kaupskip og skútur. Skipið lengst til vinstri við Ingólfsgarð er norska kaupskipið Flora.“

 

Á hinum stórgóða vef Borgarvefsjá er hægt að bera saman kort af Reykjavík frá 1902 við loftmyndir frá nútímanum. Hér er auðvelt að glöggva sig á legu Batterísins.