Skoski trúboðinn og landkönnuðurinn David Livingstone er þekktastur fyrir fund sinn og kollegans Stanley við strendur Tanganyika-vatns þegar hinn síðarnefndi mælti hina frægu setningu: ‘Dr. Livingstone, I presume?

 

Henry Morton Stanley hafði verið sendur af bandaríska dagblaðinu New York Herald að leita að Livingstone, sem hafði verið týndur vestrænni siðmenningu í næstum sex ár.

 

Síðasta ferð Livingstones hófst í ársbyrjun 1866 í Sansíbar. Markmið hans var að finna uppsprettu árinnar Níl — nokkuð sem Evrópumenn voru ekki á einu máli um. Livingstone og föruneyti hans lagði af stað meðfram farvegi Ruvuma-árinnar sem í dag hlykkjast á landamærum Tansaníu og Mósambík en leiðangurinn gekk illa frá upphafi. Starfsmenn Livingstones yfirgáfu hann í hrönnum, matarbirgðir voru af skornum skammti og sjálfur veiktist hann alvarlega.

 

Þetta kort sýnir ferðir Livingstones um Mið-Afríku. Bærinn Nyangwe er rúmlega fyrir miðju. Smellið á kortið til þess að stækka það.

 

Þegar komið var fram á sumarið 1871 var hann auk þess orðinn uppiskroppa með blek og pappír til þess að halda dagbók. Í stað þess páraði hann niður minnispunkta á gamalt dagblað og notaðist við blek búið til úr berjasafti.

 

Berjasaftið entist þó ekki jafn vel og almennilegt blek og þessir minnispunktar Livingstones urðu fljótt ólæsilegir og hafa verið síðan. En nú hafa fræðimenn í Skotlandi og Bandaríkjunum tekið höndum saman og með sérstakri litrófsljósmyndatækni tekist að ráða í illlæsilegt pár Livingstones á hinum viðkæma forna dagblaðapappír. Myndir af minnispunktunum, sem og allir textinn á ensku er hægt að skoða hér á heimasíðu bókasafns Kaliforníu-háskóla í Los Angeles.

 

 

Dagbók Livingstones árið 1871.

 

Það merkilegasta sem kemur fram í punktum Livingstones að hann hafi orðið vitni af hræðilegum fjöldamorðum í bænum Nyangwe í júlí 1871 sem nú er í Austur-Kongó, þegar arabískir þrælasalar frá Sansíbar stráfelldu á fimmta hundrað bæjarbúa.

 

Lýsingar Livingstones á fjöldamorðunum eru átakanlegar, og ljóst að reynslan fékk á hann — hann gafst þá loks upp á að leita að upptökum Níl og snéri aftur til Tanganyika-vatns, fárveikur og þunglyndur, þar sem Stanley ‘fann’ hann loks í október 1871.

 

Morðingjarnir eru á hinum bakkanum og ræna og skjóta – Það er ömurlegt, hræðilegt, þetta er skelfilegur heimur – á meðan ég skrifa er skotið aftur og aftur á flóttamennina á hinum bakkanum sem veina hástöfum vegna þeirra sem þegar eru myrtir – Ó, til komi þitt ríki!

 

Kanóarnir voru allir fastir í vík við markaðinn og eigendur þeirra gátu ekki komist að þeim – konurnar hentu frá sér afurðunum og börðust fyrir lífi sínu – menn köstuðu frá sér árunum af ótta sem miskunnarlaus skothríðin dundi á þeim frá öðrum mönnum sem hljóta að hafa vitað af áformum um morðin. Konurnar sukku fljótlega niður í votar grafir …

 

Livingstone varð áfram í Afríku og lést árið 1873, illa haldinn af malaríu og blóðkreppusótt.

 

Livingstone barðist ötult gegn þrælahaldi og sérstaklega hinum arabísku þrælasölum sem fóru ránshendi um Afríku. Þessi teikning er frá trúboðasamtökum Livingstones, London Missionary Society, og sýnir þrælasala að verki.