Hvað ef nútímamaður myndi ferðast aftur til ársins 900 á Íslandi? Hvernig yrði honum tekið?

 

Árið 1956 birti Poul Anderson smásöguna The Man Who Came Early, Maðurinn sem kom snemma, í tímaritinu The Magazine of Fantasy and Science Fiction.

 

Hinn dansk-bandaríski Anderson, sem lést árið 2001, var einn af merkustu höfundum Bandaríkjanna á sviði vísindaskáldsagna á tuttugustu öld og skrifaði ógrynni vinsælla bóka.

 

Eitt af því sem hann velti fyrir sér var samband nútímans og fortíðarinnar. Ef tímaferðalög væru möguleg, hvernig myndi nútímamaður fóta sig í fortíðinni?

 

Ímyndum okkur að Íslendingur úr nútímanum ferðaðist aftur um nokkrar aldir. Yrðum við virkilega að einhverju gagni í heimi þar sem ekkert er rafmagnið eða netsambandið? Þau okkar sem ekki eru sérstaklega tæknilega menntuð ættu erfitt með að beita nútímauppfinningum í slíku samfélagi. Þeir sem eru vel að sér í sögu gætu kannski starfað sem völvur og spámenn eins og Nostradamus, spáð fyrir atburðum. Það er oft sagt að fortíðin sé framandi land og það er örugglega rétt lýsing á Íslandi fyrri alda fyrir okkur.

Photo-3-Caption-–-Poul-Anderson-at-Westercon-28

Poul Anderson (1926-2001) skrifaði fjölmargar skáldsögur og smásögur. Hann velti tímaferðalögum fyrir sér í sögunni um hermanninn sem lendir á þjóðveldisöld á Íslandi.

 

The Man Who Came Early fjallar um bandaríska dátann Gerald Roberts sem sinnir herskyldu í herstöðinni í Keflavík á dögum kalda stríðsins. Hann er ungur maður og var við nám í verkfræði í háskóla áður en skyldan kallaði.

 

Gerald er á göngu í Reykjavík dag einn í rigningu og roki þegar eldingu lýstur skyndilega niður og hæfir hann.

 

Þegar hann vaknar úr rotinu liggur hann í fjörunni á ókunnum stað. Fjarri mannabyggðum að því er virðist.

 

Hann gengur drykklanga stund þangað til hann rambar á nokkra menn sem safna rekaviði við sjóinn.

 

Þeir eru vopnaðir sverðum og spjótum.

 

Sagan er sögð með fyrstu persónu-frásögn víkingahöfðingjans Óspaks. Það er hann sem finnur bandaríska hermanninn unga.

 

Eldingin flutti hann alla leið til 10. aldar á Íslandi. Þar horfa Óspakur og menn hans forviða á aðkomumanninn. Þeir halda að hann sé skipreka maður. En furða sig auðvitað á hermannabúningnum frá 20. öldinni, og hjálminn sem hefur áletrunina MP með rómverskum stöfum. Hlutirnir hans eru eins og galdragripir.

 

En tuttugustu aldarmaðurinn heldur að þriðja heimsstyrjöldin sé kannski hafin. Vörpuðu Sovétmenn kjarnorkusprengju á Ísland?, spyr hann.

 

Víkingahöfðinginn skýtur skjólshúsi yfir Gerald sem hjá víkingunum er Samsson, þar sem faðir hans heitir Sam.

 

F&SF002

 

Gerald hafði sem hermaður lært hrafl í íslensku og getur beitt henni í samræðum við þessa Íslendinga þjóðveldisaldar.

 

Höfðinginn vill stráknum vel þó hann skilji ekki almennilega hvaðan hann komi. Gerald áttar sig á því að hann hafi ferðast aftur tímann. Hann segist vera frá Bandaríkjunum, landi sem sé ekki ennþá til, þar sem allir menn séu frjálsir. Víkingarnir skilja hvorki upp né niður í þessu.

 

Mikil skelfing grípur um sig á meðal Forn-Íslendinganna þegar Gerald dregur upp skammbyssuna sína og skýtur hross sem átti að fórna.

 

En að öðru leyti er tímaferðalangurinn harla verðlaus á víkingaöldinni. Í fyrstu heldur hann að hann geti beitt verkfræðikunnáttu sinni og nútímavætt Íslendingana. En þegar hann hefst handa sér hann að það er ómögulegt. Hann kann ekki á verkfærin eða hráefnin á þessum tíma og gefst fljótlega upp. Hann getur ekki einu sinni rakað sig með kutum höfðingjans án þess að skera sjálfan sig til blóðs.

 

Vikings-vikings-2013-33439559-600-400

Myndir þú þora að vera uppi á víkingaöld? Úr Vikings, sjónvarpsþáttum um Ragnar loðbrók.

 

Víkingarnir líta niður á þennan ónytjung sem hafði þó sagst vera hermaður. Verst er þó þegar Gerald segist ekki vera af fjölskyldu landeigenda. Hann hafi alist upp í fjölbýlishús í miðri stórborg. Þetta hefur það að verkum að virðing fyrir honum hverfur, því í landbúnaðarsamfélagi víkinganna hefur landareign allt að segja. Landlaus maður er einskis virði.

 

Gerald og Þórgunnur, dóttir Óspaks víkingahöfðingjanna, fella hugi saman. Ketill, piltur á næsta bæ sem girnist hana, reiðist og móðgar Gerald. Það endar með hólmgöngu þar sem Ketill er við það að drepa Bandaríkjamanninn sem dregur þá upp byssu sína og skýtur andstæðing sinn til bana.

 

Eftir þetta verður Gerald útlagi, líkt og Gísli eða Grettir, og flýr upp á hálendi með skammbyssuna og örfá skot eftir.

 

Um þessi sorglegu örlög tímaflakkarans segir Óskapur höfðingi:

 

Flestir halda að Gerald Sámsson hafi verið geðveikur, en ég held að hann hafi lent á vitlausum tíma. Samt horfi ég til framtíðar, þegar þúsund ár hafa liðið, þegar þeir fljúga um loftið og aka um í hestlausum vögnum og tortíma borgum með einu höggi. Ég hugsa um Ísland þá og hina ungu bandarísku menn sem leggja okkur lið til að verja landið þegar heimsendir virðist nálgast. Kannski munu einhverjir þeirra ganga í móanum og sjá móta fyrir haugi. Þeir munu þá kannski velta fyrir sér hvaða forni víkingur sé grafinn þar og kannski óska þeir sé þess að hafa verið uppi á þeirri fornöld þegar menn gengu frjálsir á þessari köldu eyju í hafinu.