Dana Scully les. „Jose Chung’s ‘From Outer Space’“ er fjörugur þáttur í þriðju seríu The X-Files sem leikur sér með bókmenntalega klæki á borð við nokkra óáreiðanlega sögumenn og misjafna túlkun á veruleikanum.
Þessi tækni er stundum kölluð „Rashomon áhrif“, í höfuðið á samnefndri kvikmynd Akira Kurosawa, þar sem fjögur vitni lýsa morði hvert á mismunandi hátt. Í þættinum er líka frásögn í bókarformi um sjálfa atburði sögunnar sem flækja málin enn frekar.
Manst þú eftir fleiri bókum sem komu við sögu í bíómyndum eða þáttum en voru ekki til í raun og veru?
Dagur-Tíminn hitaði upp fyrir sýningu þáttarins í Ríkissjónvarpinu 16. janúar 1997:
Geimverur safna liði!
Eins og alkunna er ágerist það heldur í seinni tíð að geimverur nemi saklaust fólk á brott og eins og dæmin sanna er þeim sem eiga ferð um Miklubrautina hollast að hafa sóllúguna lokaða og beltin spennt.
Í Ráðgátum í kvöld kemur rithöfundurinn Jose Chung að máli við Dönu Scully vegna bókar sem hann er að skrifa um geimgísla eða numa eins og Daníel Þorkell Magnússon myndlistarmaður kallar þá.
Dana segir honum sögu af ungu pari sem kveðst hafa verið uppnumið en vandinn er sá að vitnum ber ekki saman um atburðinn.
Er þetta bara uppspuni í hinum meintu numum eða eru þeir að segja satt, og ef svo er, hvort voru það þá geimverur sem námu fólkið á brott eða útsendarar hersins í einhverjum dularfullum tilgangi?“