Enginn forseti Bandaríkjanna hefur talað annað tungumál en ensku frá því er Franklin D. Roosevelt var forseti (1933-1945) en hann hafði gott vald á bæði þýsku og frönsku. Forveri hans Herbert Hoover talaði reiprennandi kínversku.

 

Að vísu kunna Jimmy Carter og George W. Bush hrafl í spænsku, en aðeins fáein orð. Bill Clinton lærði þýsku á háskólaárum sínum og segist geta haldið uppi mjög einföldum samræðum.

 

Barack Obama forseti bjó á æskuárum sínum í Indónesíu og heillaði Susilo Bambang Yudhoyono forseta upp úr skónum þegar hann náði að skjóta á hann „fjögurra orða spurningu“ á indónesísku. En þar við sat. Obama hefur opinberlega sagst skammast sín fyrir að tala ekki annað tungumál en ensku. Þá hefur hann viðurkennt að tala aðeins 15 orð í spænsku.

 

En eins og margir vita er spænska næst mest talaða tungumál Bandaríkjanna og móðurmál milljóna manna. Margt hefur breyst frá þeim árum er spænskumælandi skólabörn voru þögguð niður með ofbeldi í bandarískum skólum. Nú finnst stjórnmálamönnum mikilvægt að höfða til latínókjósenda á einhvern hátt.

 

Þessi auglýsing birtist í kosningabaráttunni sem lýkur nú í kvöld. Þó það heyrist að Obama tali ekki góða spænsku og að hann sé líklega aðeins að lesa texta sem hann skilur illa sjálfur, er framburðurinn frekar góður. Rætt er um að slík viðleitni muni stuðla að aukinni spænskunotkun í bandarískum stjórnmálum.

 

Vídjó

 

En maður er nefndur Mitt Romney og er forsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins. Hann er mormóni og starfaði sem trúboði fyrir það trúfélag í Frakklandi á sjöunda áratugnum. Romney eyddi rúmlega tveimur árum í Frakklandi og lærði frönsku. Hér er myndband sem sýnir hann tala reiprennandi frönsku á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City árið 2002.

 

Vídjó

 

Ef Romney nær kjöri verður hann því fyrsti forsetinn frá stríðslokum sem kann annað tungumál en ensku.