Fjöldi manns á norðurhveli jarðar fylgdist grannt með sólmyrkvanum í gærmorgun, en svo mikill sólmyrkvi mun ekki sjást aftur á Íslandi fyrr en 12. ágúst 2026. Sólmyrkvar eru ekki bara fágætir og fagrir viðburðir. Þeir hafa einnig komið við sögu í hinum ýmsu vestrænu ævintýrabókum, þar á meðal í myndasögum Hergé um belgíska blaðamanninn Tinna.

 

Fjórtánda Tinnabókin, Le Temple du Soleil, kom út árið 1946.

Fjórtánda Tinnabókin, Le Temple du Soleil (ísl. Fangarnir í sólhofinu), kom fyrst út árið 1946.

Í fjórtándu Tinna-bókinni, Fangarnir í sólhofinu, eru Tinni og ferðafélagar hans Kolbeinn kafteinn og Vandráður prófessor handsamaðir af Inkum, sóldýrkandi frumbyggjum Suður-Ameríku. Leiðtogi Inkanna, sonur sólarinnar, hyggst brenna þá á bálkesti en leyfir Tinna og Kolbeini að velja daginn sem þeir verða brenndir.

 

Á meðan þeir kumpánarnir eru fangelsaðir í sólhofinu finnur Tinni dagblað sem greinir frá yfirvofandi sólmyrkva, hrópar af kæti, og segir syni sólarinnar á hvaða degi þeir skuli brenndir. Þann dag er þeim öllum stillt upp á bálköst en Tinni grípur til þess ráðs að ávarpa sólguðinn og segir honum að hafna fórninni með því að hylja andlit sitt. Eftir þetta gengur sólmyrkvinn að sjálfsögðu í garð, og óttaslegnir Inkarnir fallast á að láta Tinna og vini hans lausa.

 

King Solomon's Mines eftir H. Rider Haggard kom fyrst út árið 1885.

King Solomon’s Mines eftir H. Rider Haggard kom fyrst út árið 1885.

Fangarnir í sólhofinu kom út árið 1946 en sú hugmynd að Evrópumenn gætu hrellt frumstæða þjóðflokka með því að spá fyrir um sólmyrkva er ívið eldri. Hana má að öllum líkindum rekja til ævintýrabókarinnar Námur Salómons konungs (1885) eftir Sir Henry Rider Haggard. Bókin er dæmigerð ævintýrasaga frá Viktóríutímanum og segir frá enska landkönnuðinum Alan Quatermain og leit hans að hinum goðsagnakenndu námum Salómons konungs í Afríku.

 

Í bókinni eru Quatermain og ferðafélagar hans handsamaðir af Zúlu-konunginum Twala djúpt í iðrum „álfunnar myrku“. Konungssonurinn Scragga hyggst drepa þá stúlku er Twala þykir fegurst, sem eins konar fórn til þöglu steinkvennanna sem heimamenn telja að sitji á verði í fjöllunum. Ensku sjentilmönnunum líst ekkert á blikuna og vilja ólmir bjarga lífi mærinnar. Þeir fá þá hugmynd að rýna í almanakið sem þeir hafa með sér og uppgötva að það verður sólmyrkvi daginn eftir. Í kjölfarið segja þeir konunginum að þeir séu miklir seiðkarlar, „hvítir menn frá stjörnunum“, og hóta að slökkva á sólinni ef stúlkunni er ekki þyrmt. Líkt og í Tinnabókinni hrellast frumbyggjarnir þegar sólmyrkvinn gengur í garð og hvítu mennirnir fá vilja sínum framgengt.

 

Námur Salómons konungs kom einnig út á íslensku í teiknimyndaform í syrpunni Sígildar sögur.

Námur Salómons konungs kom einnig út á íslensku í frábæru teiknimyndablaða-syrpunni Sígildar sögur.

Námur Salómóns konungs er hin skemmtilegasta lesning þótt sagan sé vissulega barn síns tíma. Hún er fáanleg í íslenskri þýðingu sem rafbók á vefnum rafbokavefur.is, en þar stendur: „Rétt er að nefna að þó bókin hafi á sínum tíma talist mjög frjálslynd í viðhorfum til svartra manna þá eru viðhorfin gamaldags á okkar mælikvarða.“

 

Lemúrinn birtir hér stuttan útdrátt úr bókinni þar sem lýst er hvernig söguhetjan Quatermain og félagar hans blekkja Zúlú-konunginn Twala og hirð hans:

 

„Ég held ég viti, hvað við eigum að taka til bragðs,“ sagði Good, ofsaglaður. „Biðjið þá að lofa okkur að hugsa okkur um eitt augnablik.“

 

Ég gerði það, og höfðingjarnir höfðu sig á braut. Jafnskjótt og þeir voru farnir, gekk Good að litla kassanum, þar sem meðul hans voru, lauk honum upp og tók þar dálitla vasabók. Framan á henni var almanak. „Skoðið þið nú til, kunningjar, er ekki 4. júní á morgun?“

 

Við höfðum nákvæmlega fylgst með dagatalinu, svo að við gátum sagt honum að svo væri.

 

„Gott og vel, þá kemur það heim – „4. júní, almyrkvi á sólu, byrjar kl. 11.15 eftir Greenwich tíma, sést á þessum eyjum – Afríku o.s.frv.“ Þarna er jarteikn handa ykkur. Segið þeim, að þið ætlið að myrkva sólina á morgun.“

 

Hugmyndin var ágæt. Það eina, sem var að óttast, var í raun og veru það, að villa kynni að vera í almanaki Goods. Kæmum við með falsspádóm um slíkt efni, þá glataðist álit okkar að eilífu.

 

 

„Ég er að bíða eftir sólmyrkvanum,“ svaraði ég, „ég hef verið að gæta að sólinni síðasta hálftímann, og ég hef aldrei séð henni líða betur.“

 

„Hvað um það, þér verðið nú að hætta á það, annars verður stúlkan drepin. Twala er að missa þolinmæðina.“

 

Ég sá að hann hafði satt að mæla, leit enn einu sinni örvæntingaraugum á sólina glóbjarta, því að aldrei hefur ákafasti stjörnufræðingur beðið eftir neinum viðburði meðal himintunglanna með annarri eins óþreyju, og svo steig ég fram milli stúlkunnar, sem lá þarna endilöng, og spjótsins, sem Scragga beindi að henni, og ég reyndi að bera mig svo tígulega eins og mér var mögulegt.

 

„Konungur,“ sagði ég, „það verður ekkert af þessu. Við þolum ekki annað eins og þetta, láttu stúlkuna fara í friði.“

 

Twala reis upp úr sæti sínu bálreiður og steinhissa, og undrunarkliður heyrðist frá höfðingjunum og samþjöppuðu stúlknaröðunum. Stúlkurnar höfðu búist við að sjá sorgarleik, og þær höfðu hægt og hægt alveg slegið hring utan um okkur.

 

„Skal ekki verða af því, hvíti hundurinn þinn, sem gjammar að ljóninu í bæli þess, skal ekki verða af því! Ertu vitlaus! Varaðu þig, annars kynnu sömu forlög að bíða þín eins og þessa hænuunga og þeirra, sem með þér eru. Hvernig getur þú aftrað því? Hver ert þú, sem setur þig upp á móti mér og mínum vilja? Farðu burt, segi ég. Scragga, dreptu hana. Varðmenn! takið þessa menn fasta.“

 

Þegar hann hafði grenjað þetta, komu vopnaðir menn á harða hlaupum framundan kofanum. Þeir höfðu auðsjáanlega verið settir bakvið hann fyrirfram.

 

Sir Henry, Good og Umbopa röðuðu sér út frá hliðunum á mér, og lyftu upp byssum sínum.

 

„Standið kyrrir,“ kallaði ég djarflega, þó að hjartað væri komið ofan í stígvélin mín. „Standið kyrrir! Við, hvítu mennirnir frá stjörnunum, segjum að það skuli ekki verða af því. Ef þið færið ykkur, þó ekki sé nema einu skrefi nær, þá skulum við slökkva sólina og láta myrkur verða um landið. Þið skuluð fá að kenna á töfrum okkar.“

 

Hótunarorð mín urðu ekki árangurslaus. Mennirnir námu staðar, og Scragga stóð enn frammi fyrir okkur, með spjótið á lofti.

 

„Heyrið þið, hvað hann segir! Heyrið þið, hvað hann segir!“ vældi Gagool, „hlustið þið á lygarann, sem segist ætla að slökkva sólina eins og lampaljós. Látið þið hann gera það, og þá skal stúlkunni ekkert verða gert. Já, látið þið hann gera það, og að öðrum kosti deyja með stúlkunni, hann og þá, sem með honum eru.“

 

Ég leit upp til sólarinnar, og til mikils fagnaðar fyrir mig, sá ég, að okkur hafði ekki skjátlast. Á röndinni á ljómandi yfirborði hennar var óglögg skuggabugða.

 

Ég lyfti höndunum mínum hátíðlega til himins, og Sir Henry og Good fylgdu dæmi mínu, og ég las upp eina eða tvær línur úr Helgisögum Ingoldsbys með svo áhrifamiklum málróm sem ég átti til í eigu minni. Svo kom Sir Henry með eitt vers úr Gamla testamentinu, en þar á móti ávarpaði Good drottningu dagsins með þeim ágætustu blótsyrðum, sem hann mundi eftir í þann svipinn.

 

Hægt og hægt færðist dimma bugðan yfir glóandi sólina, og meðan á því stóð, heyrði ég djúpar hræðslustunur stíga upp frá brjóstum manngrúans umhverfis okkur.

 

„Lít þú á, konungur! Lít þú á, Gagool! Lítið á, höfðingjar og menn og konur og sjáið, hvort hvítu mennirnir frá stjörnunum halda orð sín, eða hvort þeir eru aðeins fánýtir lygarar! Sólin verður dimm fyrir augum vorum, bráðum verður nótt – já, nótt um hádegisbilið. Þið hafið beðið um jarteikn, þið hafið fengið það. Vert þú dimm, sól! Hverf þú burt með ljós þitt, þú bjarta vera, ger þú hjörtun drambsömu að dusti, og ét þú upp heiminn með skuggum.“

 

Áhorfendurnir stundu hátt af skelfingu. Sumir stóðu eins og steingervingar af ótta, aðrir köstuðu sér á hné og hrinu. Af konunginum er það að segja, að hann sat grafkyrr og fölnaði undir dökkleitu húðinni.