Vídjó

Sé minnst á Sádi-Arabíu fá mörg okkar vafalaust mynd upp í hugann af pattaralegum olíufurstum í skínandi gullkuflum sem veltast um í fjöllum af seðlum. En raunin er auðvitað að alls ekki allir íbúar landsins fá að njóta góðs af olíuauðnum. Fátækt er einnig að finna í Sádi-Arabíu. Í kringum 22% þjóðarinnar glíma við fátækt. Sádiarabíski kvikmyndagerðarmaðurinn Firas Buqnah bjó til þennan stutta heimildaþátt um fátækrahverfi í höfuðborginni Riyadh og íbúa þess.

 

Buqnah er greinilega mjög undrandi og hneykslaður á aðstæðum í fátækrahverfinu, sem er aðeins nokkra kílómetra frá miðborg Riyadh. Þar búa stórar fjölskyldur í pínulitlum, niðurgrotnandi íbúðum og hafa varla efni á brauðbita í matinn. Börn leiðast út í dópsölu og vændi.

 

Í lok myndarinnar biðla íbúar fátækrahverfisins til Abdullah Sádiarabíukonungs að hjálpa þeim. Yfirvöld í Sádi-Arabíu kusu hinsvegar að bregðast við á annan hátt — Firas Buqnah og samstarfsmenn hans voru handteknir og stungið í fangelsi. Þar hafa þeir nú dúsað í tvær vikur án réttarhalda.