Vídjó

Yfirvöld í guðveldinu Sádi-Arabíu hafa þungar áhyggjur af því að þegnar þeirra líti of mikið til Vesturlanda og rækti ekki hina hefðbundnu menningu Bedúína, eyðimerkurhirðingjanna sem meirihluti íbúa landsins á ættir til að rekja.

 

Ákváðu yfirvöld því að efna til hátíðar þar sem hirðingjamenningin yrði í hávegum höfð. Menningar- og þjóðararfshátíðin Janadriya hefur verið haldin árlega á vormánuðum síðan 1985, og er nú einn af viðburðum ársins í Sádi-Arabíu. Stærðarinnar þorp er reist fyrir utan höfuðborgina og gestum og gangandi boðið upp á ýmis þjóðleg skemmtiatriði: úlfaldakappreiðar, ljóðaupplestur, þjóðlagatónlist, eyðimerkurtískusýningar, handverkssýningar og fleira. Hátíðin stendur í rúmar tvær vikur og lungann af þeim tíma er hún aðeins opin karlmönnum. Konum er þó frjálst að mæta á „fjölskyldudaga“ og svo sérstaka konudaga. Má þá fræðast um henna, hefðbundna andlitsförðun Bedúínakvenna og fleira kvenlegt.

 

Hápunktur Janadriya-hátíðarinnar er lokaathöfnin, þegar kuflklædd karlahersingin dregur upp sverð og stígur stríðsdansinn arda við taktfastann trumbuslátt. Svona ku hermenn í hinum arabísku hirðingjaættbálkum hafa dansað áður en þeir héldu af stað til bardaga forðum. Fyrir dansinum fer sjálfur Abdullah bin Abdul Aziz, konungur Sádi-Arabíu. Myndbandið hér að ofan er frá hátíðinni í fyrra, 2010. Konungurinn var þá 86 ára gamall. Upp á síðkastið hefur hans hátign verið heilsuveill og danssporin á síðustu hátíð, nú í apríl síðastliðnum, voru því miður ekki eins tilkomumikil.

 

Hér að neðan má svo sjá nokkrar ljósmyndir frá Janadriya-hátíðum undanfarna ára.