Falklandseyjaúlfurinn var eina landspendýrið sem lifði á Falklandseyjum þegar menn komu þangað fyrst. Síðasti úlfurinn af tegundinni drapst árið 1876, og er eina dýrategundin af hundaætt sem dáið hefur út á sögulegum tímum.

 

Breski skipstjórinn John Strong sá dýrið fyrstur manna svo vitað sé árið 1692. Skipstjórinn tók einn úlf upp í skipið, en hann skelfdist á leiðinni til Evrópu þegar skotið var af fallbyssu skipsins og stökk útbyrðis.

 

Líffræðingar hafa lengi velt fyrir sér hvernig dýrategundinni tókst að nema land á eyjaklasanum en hann er mjög afskekktur, liggur í um 500 kílómetra fjarlægð frá meginlandi Suður-Ameríku. Vitað er að úlfategundin þróaðist í langan tíma einangruð á eyjunni, því henni svipar ekki sérstaklega til úlfategunda Suður-Ameríku.

 

Teikning af Falklandseyjaúlfinum úr bók Charles Darwin um ferðalag hans með skipinu Beagle.

Telja sumir að indíánar hafi numið land á eyjunum fyrir þúsundum ára og skilið nokkra úlfa eftir, sem þeir höfðu sem gæludýr. Önnur kenning hermir að ísbrú hafi legið á milli Falklandseyja og meginlandsins á síðustu ísöld.

 

Nýlegar erfðafræðirannsóknir benda hins vegar til að Falklandseyjaúlfurinn sé skyldur faxúlfinum, sem er suðuramerísk úlfategund. Eigi tegundirnar sameiginlegan forföður sem uppi var fyrir 6 milljónum ára. Það þykir furðu sæta því talið er að úlfar hafi ekki komið til Suður-Ameríku fyrr en fyrir þremur milljónum ára. Falklandseyjaúlfurinn útdauði er því mikil ráðgáta.

 

Hér er hægt að glöggva sig á legu Falklandseyja (Malvinaseyja):

 


View Larger Map