Þorpið Potosí stóð í hinni hálendu Tachira-sýslu í vesturhluta Venesúela í tvö hundruð ár. Árið 1984 voru allir íbúar þess fluttir í burtu þegar þorpinu og nærsveitum þess var drekkt þegar uppistöðulón myndaðist vegna Uribante Caparo-stíflunnar sem byggð var það ár. Potosí-búar höfðu mótmælt því harðlega að þorpinu þeirra yrði eytt, en þeir voru á endanum þvingaðir til þess en fengu ný heimili annars staðar.

 

Þeir þurftu að kveðja heimaslóðir sínar fyrir fullt og allt og bjuggust ekki við að sjá þær aftur.

 

Potosí-fólkið var því furðu lostið fyrir tveimur árum þegar skæðir þurrkar gerðu að verkum að uppistöðulónið hvarf og kirkjan og rústir þorpsins birtust allt í einu, líkt og gamlir draugar.

 

Í Potosí stóð myndarleg kirkja með 25 metra háum turni. Þegar vatnsborð lónsins er í eðlilegri hæð, stendur krossinn á turni kirkjunnar upp úr vatninu, og minnir þá sem flækjast upp í fjöllin að eitt sinn stóð þorp á þessum stað.

 

Stíflan sá stjórnvöldum um árabil fyrir miklu rafmagni en hefur á köflum verið óstarfhæf síðustu ár vegna skæðra þurrka. Vatnsyfirborðið í uppistöðulóninu hefur oft og tíðum lækkað mikið þegar hitabylgjur og þurrkar hafa geisað.

 

Kirkjan reis úr djúpinu
Árið 2010 lýsti Hugo Chávez, forseti Venesúela, yfir neyðarástandi í landinu vegna sérstaklega skæðra þurrka sem geisuðu vegna veðurfyrirbærisins El Niño.

 

Þá gerðist undraverður hlutur. Vatnið í uppistöðulóninu í fjöllunum hvarf smám saman og gamla kirkjan í Potosí birtist aftur. Skyndilega var hægt að sjá aftur mannvirki þorpsins sem vatnið hafði leikið um í áraraðir. Þegar sólin bakaði blautan jarðveginn spruttu um leið plöntur og gras.

 

Josefa Garcia er 76 ára og ferðaðist til Potosí þegar þetta gerðist. Hún sagðist í samtali við Reuters vera þakklát fyrir þurrkana, jafnvel þó að þeir hefðu valdið gífurlega miklum rafmagnsskorti. Hún stóð á gamla torgi bæjarins og rifjaði upp þegar þáverandi forseti landsins, Carlos Andres Perez, lenti með þyrlu í þorpinu til þess að tjá bæjarbúum að þeir þyrftu að flytja, að lónið myndi bráðum drekkja Potosí. „Hann sagði að við þyrftum að fara. Við misstum alla von.“ Garcia flutti til annarrar sveitar og hafði aldrei snúið aftur heim fyrr en þegar viðtalið var tekið.

Drottinn minn! Josefa Garcia virðir fyrir sér glataðar æskuslóðir sínar.

Þegar vatnið var horfið kom kirkjan í ljós ásamt rústum íbúðarhúsa, kirkjugarðsins og torgsins sem nokkrir fyrrverandi, forviða og steinhissa bæjarbúar fengu að sjá í fyrsta skipti síðan þorpinu var drekkt fyrir 28 árum.

 

Orkukreppa
Verstu þurrkar landsins í 50 ár þurrkuðu upp uppistöðulón í vatnsaflsvirkjunum landsins, en meirihluti raforkunnar í Venesúela kemur frá slíkum virkjunum. „Sumir stjórnarandstæðingar ætla að kenna yfirvöldum um að það hefur ekki rignt í meira en ár. En aðalástæðan fyrir því er hið skæða fyrirbæri El Niño, sem er afkvæmi loftslagsbreytinganna í heiminum,“ sagði Chávez, sem hefur verið harðlega gagnrýndur á síðustu árum fyrir daufleg viðbrögð við orkukreppu í landinu, þrátt fyrir fögur loforð. (Birtist að hluta í DV árið 2010.)