Vídjó

 

„Ég hef elskað uppreisnarmanninn í þér, hann hefur alltaf verið mér hvatning, en ég er ekki hrifinn af geislabaugunum, ég mun ekki biðja fyrir þér“

 

Svo skrifaði sádiarabíski blaðamaðurinn Hamza Kashgari á Twitter 3. febrúar síðastliðinn, á afmælisdegi Múhameðs spámanns. Kashgari, sem er 23 ára gamall, skrifaði alls þrjú ‘tvít’ sem hann beindi til afmælisbarns dagsins.

 

Í öðru skrifaði hann: „Ég mun ekki kyssa hönd þína, heldur taka í hana eins og jafningjar gera […] og ávarpa þig sem vin, ekki meir“.

 

Twitterskrifin vöktu strax hörð viðbrögð — Kashgari barst 30.000 mótsvör frá guðhræddum löndum sínum á samskiptasíðunni, þar sem honum var meðal annars hótað lífláti og öllu illu fyrir að hafa móðgað spámanninn. Hann eyddi tvítunum og baðst afsökunar, en það sljákkaði ekki reiði hinna trúuðu. Að lokum flúði hann land til Malasíu. Stjórnvöld þar framseldu hann aftur til Sádi-Arabíu í morgun.

 

Hvað bíður Kashghri heima fyrir? Dauðarefsing liggur við guðlasti í Sádi-Arabíu, og háværar raddir í sádiarabísku samfélagi fara nú fram á að Kashgari hljóti þá refsingu. Meðal þeirra er klerkurinn sjeik Nasser Al Omar, í vídjóinu hér að ofan. Hann var svo miður sín vegna þessarar grófu móðgunar við spámanninn að hann fór að hágráta í miðri predikun.

 

Hamza Kashgari, bloggari og pistlahöfundur hjá dagblaðinu Al-bilad í Jeddah.