Vídjó

Hajj, hin árlega pílagrímsför múslima til helgu borganna Mekka og Medínu í Sádi-Arabíu, hófst í gær. Árlega taka að minnsta kosti þrjár milljónir manns þátt í þessum gríðarstóru hátíðarhöldum sem mynda hápunktinn á trúarlífi múslima.

 

Einungis múslimum er leyft að fara til Mekka, og borgin er þakin einskonar dulúðarljóma mörgum þeim sem munu aldrei fá að stíga þangað fæti. Til eru frægar sögur af Evrópumönnum sem lögðu á sig mikið erfiði til þess eins að laumast inn í borgina á meðan pílagrímaförinni stóð. Breski ævintýramaðurinn Richard Francis Burton, sem heimsótti Mekka í dulargervi múslima árið 1853, lærði arabísku og íslamska siði í þeim tilgangi í mörg ár. Hann lét svo umskera sig til þess að fullkomna dulargervið — enda hefði hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu hefði upp um hann komist.

 

Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er orðið fátt á huldu varðandi pílagrímsferðina og hefðir hennar. Fréttaflutningur er þaðan á hverju ári og í ár verður meira að segja hægt að horfa á herlegheitin í Moskunni miklu í beinni útsendingu á YouTube. Öllum milljónum pílagrímanna sem streyma um helgistaðana á ári hverju er frjálst að segja hverjum sem er frá reynslu sinni, en þeim er þó bannað að taka myndir á heilugustu stöðunum.

 

Suroosh Alvi, stofnandi kanadíska tímaritsins VICE, fór pílagrímsferðina með pakistönskum foreldrum sínum árið 2009. Hann var með kvikmyndavél meðferðis, lét boð og bönn um eyru þjóta og tók upp hvert skref á leiðinni — pílagrímaflugið, svimandi fólksmergðina, helgisiðina, fátækustu pílagrímana sofandi á götum úti. Afraksturinn varð 15 mínútna heimildamynd, Mecca Diaries.

 

Risastór lúxushótel fyrir ríkustu pílagrímana gnæfa yfir sjálfri Moskunni miklu ...

 

... en þeir sem eru ekki eins loðnir um lófana búa í tjöldum í útjaðri borgarinnar helgu.