Flugvellir þykja venjulega ekki mjög spennandi staðir. Þeir eru oft frekar tilbreytingalaus rými þar sem þreyttir og stressaðir farþegar reika um langa ganga, bíða eftir tengiflugi eða kaupa Toblerone og áfengi í flúorlýstum fríhöfnum.

 

Stærsti flugvöllur Bandaríkjanna að flatarmáli, alþjóðaflugvöllurinn í Denver í Colorado, virðist við fyrstu sýn ekki vera undantekning. Honum var plantað niður á meðal víðáttumikilla akra á flatlendinu við rætur Klettafjalla til að leysa af hólmi eldri flugvöll og opnaði eftir nokkra byrjunarörðugleika í febrúar árið 1995.

 

Af hverju skyldi hann þá hafa orðið tilefni ótal samsæriskenninga?

 

 

 

Í fyrsta lagi er hornsteinn byggingarinnar næstum eins og ögrun til sæmsæriskenningasmiða. Merki frímúrarareglunnar prýðir steininn sem var lagður af tveimur stúkum samtakanna í Denver. Undir merkinu stendur auk þess „New World Airport Comission“.

 

Þetta er heiti þess hóps fyrirtækja og stofnanna sem komu að byggingu flugvallarins en minnir óneitanlega á samsæriskenninguna um „New World Order“. Það að þetta er ekki formleg stofnun sem finnst hvergi nefnd á öðrum flugvöllum ýtir aðeins undir orðróminn. Hornsteinninn hvílir svo á tímahylki sem ekki má opna fyrr en 2094.

 

Veggmyndirnar eftir listamanninn Leo Tanguima sem skreyta flugvöllinn þykja líka athyglisverðar hvort sem maður tekur mark á samsæriskenningum eða ekki. Þær eru tvær, hver í tveimur pörtum, og undir áhrifum sósíalískra veggmynda frá Mexíkó.

 

Fyrsta myndin, „In Peace and Harmony with Nature“, sýnir börn fyrst syrgja eyðileggingu náttúrunnar og dauða manna, dýra og plantna, en koma svo saman í til að rækta hana á ný. Þar má meðal annars sjá uppstoppaðan geirfugl og hver veit nema það sé sá sem Náttúrufræðistofnun Íslands keypti á uppboði eins og frægt er.

 

 

 

Seinni veggmyndin á að lýsa þrá listamannsins eftir heimsfrið. Fyrst sýnir hún dauða og eyðileggingu stríðs persónugerða í ógurlegri veru með gasgrímu og sverð. Allt endar þó vel að lokum þar sem seinni hluti myndarinnar sýnir börn frá öllum heimshornum klædd í þjóðbúninga fagnandi friði og fjölbreytni.

 

 

Aðrir hafa þó lesið skuggalegri boðskap úr þessum myndum, allt frá því að þær séu sósíalískur áróður um eitt heimsríki yfir í það að sýnirnar af eyðileggingu og dauða séu fyrirboði um það sem koma skal.

 

Fleiri skondin listaverk er að finna á göngum flugvallarinns. Ufsagrýlur í ferðatöskum vaka yfir komufarþegum til að tryggja að farangurinn komist til skila. Og vídeólistaverkið „Rising“ framlengir gang svo að hann virðist ná út í hið óendanlega.

 

 

 

Síðust en ekki síst er höggmyndin „Mustang“, sem er eins og nafnið gefur til kynna af villihesti. Höggmyndin er tíu metra há og hesturinn er eins og hann hafi grafið sig upp úr helvíti; blár, æðaber og með rauðglóandi augu.

 

 

Höggmyndin reyndist skapara hennar líka stórhættuleg. Höfuðið féll á hann er hann var að leggja lokahöndina á verkið með þeim leiðu afleiðingum að slagæð í fætinum á honum opnaðist og honum blæddi út. Þetta huggulega listaverk tekur svo á móti fólki þegar það kemur að flugvellinum.

 

Að lokum má svo nefna aðra staðreynd um þennan óhugnanlega flugvöll, og það sem hefur kynnt hvað mest undir samsæriskenningum — það er að flugbrautirnar liggja í hakakross í kringum flugvallarbygginguna.

 

Það er því kannski ekki að undra að sumir æstir samsæriskenningasmiðir telji flugvöllinn þjóna sem einhversskonar musteri hinnar nýju heimsskipunar — þó að röð sérviskulegra ákvarðanna flugvallarhönnuða sé talsvert líklegri útskýring.