„Þessi heimildarmynd er Glasnost tilraun.“

 

Svo mælti Serebrov hershöfðingi þegar hann leyfði bandarísku og bresku kvikmyndagerðarmönnunum Jeff Harmon og Alexander Lindsay að festa á filmu starfsemi sovéska hersins í Afganistan síðustu vikurnar áður Sovétmenn drógu herdeildir sínar varanlega út úr landinu.

 

Þetta var í febrúar árið 1989, en sovéska stríðið í Afganistan hafði þá staðið í tíu ár og kostað yfir milljón manns lífið. Upptökin á afskiptum Sovétmanna má rekja til kommúnistastjórnar Afganistans, sem bað Sovétríkin um aðstoð í baráttunni við íslamska mujahideen skæruliða árið 1979.

 

Sovésk herþyrla flýgur yfir fjöllin.

Sovésk herþyrla flýgur yfir fjöll Afganistan.

Úr myndskeiðum Harmon og Lindsay varð til stórmerkileg og hugnæm heimildarmynd, Afgan: The Soviet Experience, en hún sýnir ástandið í Afganistan frá sjónarhorni sovéskra hermanna í fremstu víglínu.

 

Kvikmyndagerðarmennirnir ferðast með alls kyns herdeildum Sovétmanna, þ.á.m. flughernum og Spetsnaz-sérsveitunum margrómuðu. Þeir ræða við almenna hermenn, fylgjast með hernaðaraðgerðum þyrluflugmanna og eru næstum sprengdir í loft upp af skæruliðum á ferð sinni um landið. Eins og kunnugt er nutu þessir íslömsku skæruliðar — þ.á.m. Osama bin Laden — stuðnings Bandaríkjanna, sem sendu þeim vopn og vígbúnað.

 

Starfsandi sóvésku hermannanna virðist slæmur og menn bersýnilega úrvinda eftir áratug af árangurslausum átökum við skæruliðana í fjöllunum. Hliðstæðurnar við núverandi stöðu Bandaríkjahers í Afganistan eru sláandi.

 

Hægt er að horfa á myndina hér, en hún er um 40 mínútur að lengd.

 

Afgan: The Soviet Experience (1989)

Vídjó