Kim Jong-il, fyrrum leiðtogi Norður-Kóreu, var mikill kvikmyndaáhugamaður. Árið 1978 leist honum illa á kvikmyndalífið í landinu og fór því að stunda mannrán á suðurkóresku kvikmyndagerðarfólki til að pína það til að gera fyrir sig bíómyndir.

Íslenskir leyniþjónustumenn handsama sænska kvikmyndaleikstjórann Ingmar Bergman seint á áttunda áratugnum og flytja hann nauðugan til Íslands. Hér á landi er hann svo píndur árum saman til að gera áróðursbíómyndir um glæsilega sögu Íslendinga og baráttu íslenskrar alþýðu. Eða kannski endalausar endurgerðir á stórmyndinni Hrafninn flýgur.

Þetta er náttúrulega út í hött. En í Norður-Kóreu varð hliðstæður atburður.

Kim Jong-il, faðir þess sem nú stjórnar landinu og sonur þess sem stofnaði kommúnistaríkið, ríkti sem leiðtogi frá 1994 til dauðadags í desember árið 2011.

Kim Jong-il var mikill kvikmyndaáhugamaður og átti um 20 þúsund vídjóspólur og DVD-diska. Hann horfði mikið á bandarískar bíómyndir sem voru bannaðar í landinu, til dæmis Friday the 13th, Rambo og Kung Fu-myndir frá Hong Kong. Hann var sérstaklega hrifinn af bresku leikkonunni Elizabeth Taylor og horfði aftur og aftur á myndir hennar.

Kim Jong Il var yfirmaður kvikmynda í landinu áður en hann tók við valdataumunum.
Kim Jong-il var yfirmaður kvikmynda í landinu áður en hann tók við valdataumunum.

Áður en hann tók við valdataumunum í landinu sinnti hann ýmsum störfum. Á meðal þess var umsjón með kvikmyndaiðnaði Norður-Kóreu, sem eins og gefur að skilja er allur á vegum ríkisins. Hann sá um framleiðslu ýmissa mynda og skrifaði árið 1973 bók um kvikmyndagerð.

kimjong-directing

Í bókinni, sem heitir einfaldlega Um kvikmyndalistina, segir hann meðal annars:

Hlutverk kvikmynda í nútímanum er að hjálpa til við að breyta fólki í sanna kommúnista. Þetta sögulega verkefni snýst því fyrst og fremst um að breyta kvikmyndagerð í byltingarstarf.


Kvikmyndasafnið í Pyongyang, höfuðborg landsins, er í rauninni helgað honum því hann var helsti framleiðandi kvikmynda í áratugi.

Áróðursmálverk sýnir hinn dásamlega kvikmyndagerðarmann að störfum.
Áróðursmálverk sýnir hinn dásamlega kvikmyndagerðarmann að störfum.


En á áttunda áratugnum horfði Kim Jong-il með öfundaraugum á nágrannaríkið Suður-Kóreu, sem Norður-Kóreumenn hafa eldað grátt silfur við í langan tíma. Þeir voru með blómlegan kvikmyndaiðnað, gerðu flottar bíómyndir á meðan meðalmennska einkenndi iðnaðinn í norðrinu.

Árið 1978 var til dæmis gerð skelfilega léleg áróðurskvikmynd. Nafnlausar hetjur hét hún og fjallaði um Kóreustríðið. Eins og í öðrum áróðursmyndum þarf að hafa leikara sem geta leikið illmennin í sögunni. Í þessu tilfelli voru vondu karlarnir Bandaríkjamenn.

Um og eftir Kóreustríðið, sem lauk árið 1953, höfðu nokkrir Bandaríkjamenn flutt til Norður-Kóreu eða lent í varðhaldi þar, sumir höfðu heillast af málstaðnum en öðrum var haldið þar nauðugum. Fjórir Bandaríkjamenn úr þessum hópi léku í Nafnlausum hetjum.

Hér er brot úr henni:

Vídjó


Charles Jenkins, bandarískur hermaður sem bjó áratugum saman í Norður-Kóreu var einn þeirra. Hann sagði síðar að hann hefði verið píndur til að leika í myndinni. Hann fór með hlutverk Dr. Kelton, grimms Kana sem skipuleggur hernað gegn Alþýðulýðveldinu. Leikur Jenkins var klaufalegur enda var hann langt frá því að vera leikari.

Charles Jenkins (t.v.) og James Dresnok flúðu báðir til Norður-Kóreu og leiddust út í kvikmyndaleik þar sem þeir léku iðulega bandarísk illmenni.
Charles Jenkins (t.v.) og James Dresnok flúðu báðir til Norður-Kóreu og leiddust út í kvikmyndaleik þar sem þeir léku iðulega bandarísk illmenni.


James Dresnok, sem flýði til Norður-Kóreu árið 1962, er frægt andlit í landinu en margir kalla hann Arthur út af persónu sem hann lék í bíómyndum. LEMÚRINN mælir með þessari heimildarmynd um hann: Crossing the Line.

En eins og áður sagði öfundaði Kim Jong-Il Suður-Kóreumenn af blómlegu kvikmyndalífi. Einn helsti kvikmyndaleikstjóri nágrannaríkisins var Shin Sang-ok. Hann hefur stundum verið kallaður „Orson Welles Suður-Kóreu“ en hann gerði um 60 myndir á tuttugu árum.

Hann nútímavæddi kvikmyndaiðnaðinn og gerði greinina mjög blómlega. Eiginkona hans var leikkonan Choi Eun-hee. Hjónin voru mikið stjörnupar í Seúl.

choi_eun-hee_and_shin_sang-ok
Shin og Choi ung og hamingjusöm.

En á áttunda áratugnum ríkti grimm herforingjastjórn í Suður-Kóreu undir stjórn Park Chung Hee. Eftir rifrildi við yfirvöld var kvikmyndaveri Shin lokað og ferilinn virtist á enda.

Kim Jong-il fylgdist vel með þessu. Hann hafði lengi dreymt um að ráða Shin til sín og gera með honum stórmyndir um Norður-Kóreu.

Árið 1978 voru Shin og eiginkonan Choi skilin. Einn góðan veðurdag ferðaðist hún til Hong Kong. Hún hafði fengið boð um að fara í viðtal vegna hugsanlegs hlutverks í mynd.

Hong Kong árið 1978.
Hong Kong árið 1978.

En hún kom ekki til baka. Virtist hafa horfið. Shin ákvað því að ferðast sjálfur til Hong Kong til að leita hennar, rannsaka málið. Þó þó væru ekki lengur hjón gat hann ekki horft upp á að fyrrverandi eiginkona sín væri horfin.

En hann fann hvorki tangur né tetur af henni.

Og einu sinni að kvöldi til þegar hann gekk um götur Hong Kong réðst einhver á hann skyndilega og rakk klút upp að andliti hans. Svæfði hann með klóróformi.

Kim Jong-il hafði sent leyniþjónustumenn til Hong Kong, lokkað parið þangað og handsamað bæði. Þau voru umsvifalaust flutt til Norður-Kóreu með herskipum en voru aðskilin. Þegar Choi steig á land tók Kim Jong-Il á móti henni. „Takk fyrir að koma, frú Choi,“ sagði hann. Eins og hún væri að koma af skemmtiferðaskipi og að hann væri elskhugi hennar.

Shin vaknaði í notalegu húsi úti á landi. En hann hafði ekki ferðafrelsi. Einn góðan veðurdag reyndi hann svo að sleppa. Hann fékk far niður á lestarstöð og faldi sig í lestinni. En hann náðist daginn eftir og var þá sendur í skelfilegt fangelsi.

Eftir fjögurra ára fangelsisvist var Shin skyndilega leystur úr haldi. Hann var fluttur til höfuðborgarinnar Pyongyang og beint í kvöldverðarboð hjá Kim Jong-Il. Þar var líka stödd Choi, fyrrverandi eiginkona hans sem gapti af undrun þegar hún sá eiginmann sinn fyrrverandi. Hún vissi ekki að hann væri líka í Norður-Kóreu.

Hjónin með Kim Jong Il eftir að þau sameinuðust á ný.
Hjónin með Kim Jong-il eftir að þau sameinuðust á ný.

Í þessu kvöldverðarboði fengu þau loksins að vita hvers vegna þau væru í landinu. Þau áttu að búa til bíómyndir. Kim Jong-Il sagði að norðurkóreskir kvikmyndagerðarmenn væru lélegir, þyrftu aðstoð.

Shin og Choi horfðu hvort á annað. „Standiði ekki eins og þvörur,“ sagði Kim Jong-Il, „ætliði ekki að faðmast“. Og að beiðni eða skipan hans giftust hjónin aftur.

Sagt er frá þessu í endurminningabókinni Konungsríki Kim, sem Shin skrifaði um raunir sínar.

Hjónin með Kim.
Hjónin með Kim.

Shin fór ekki aftur í fangelsi. Þvert á móti. Nú vildu stjórnvöld allt fyrir hann gera. Það var misskilningur á milli embættismanna sem varð til þess að hann fór í steininn, var sagt.

Nú fékk Shin sitt eigið kvikmyndaver, glæsikerru og þrjár milljónir dollara í árslaun. Hann stóð frammi fyrir erfiðu vali. Flótti virðist ómögulegur. Í bili að minnsta kosti. Hann ákvað að vinna með Norður-Kóreumönnum og búa til bíómyndir. Hann gæti reynt að sleppa ef hann fengi að fara á kvikmyndahátíð í einhverju austantjaldslandinu. Hjónin voru neydd til að halda blaðamannafund og segjast hafa flutt til Norður-Kóreu af fúsum og frjálsum vilja.

Og þar sem Shin var farinn að gera kvikmyndir – sem að vísu voru með fyrirframákveðnum söguþræði, allt í samræmi við heilaþvott yfirvalda – fékk hann töluvert listrænt frelsi. Hann færði framleiðsluna upp á hærra plan, gerði allt betur, myndirnar urðu skemmtilegar og áhorfsvænar og tæknileg atriði vel unnin. Kim Jong-il hafði fengið fyrirskipanir frá föður sínum um að gera eingöngu áróðurskvikmyndir en nú virtist hann áhugasamur að gera öðruvísi myndir.

Úr myndinni Pulgasari.
Úr myndinni Pulgasari.

Shin og eiginkonan fengu að fljúga til Austur-Berlínar vegna vinnunnar en norðurkóreskir leyniþjónustumenn fylgdu þeim hvert fótmál. Þau gengu framhjá bandaríska sendiráðinu en sáu ekki leið til að sleppa í það skiptið.

Kim Jong-Il var gríðarlega ánægður með skrímslamyndina Pulgasari, en Shin leikstýrði henni. Fengnir voru Godzilla-sérfræðingar frá Japan til að aðstoða við tæknibrellur. Horfið á þessa stórfenglegu kvikmynd hér og lesið um hana.

Kim vildi meira. Og virtist til í að fjármagna hvaða verkefni sem var. Þeir sem lesa LEMÚRINN muna kannski eftir umfjöllun um The Conqueror, eina verstu mynd kvikmyndasögunnar, en í henni lék kúrekinn John Wayne mongólahöfðingjann Genghis Kahn með skelfilegum hætti. Shin hafði séð þessa mynd og taldi sig geta gert mun betur en John Wayne. Nú þyrftu Asíumenn að gera alvöru flotta mynd um Gengis Kahn. Kim leist vel á þetta. Árið var 1986.

Ákveðið var að kynna hugmyndina erlendis. Þá væri hægt að sýna kvikmynda víða um heim. Austurrískt fyrirtæki vildi hugsanlega dreifa myndinni. Kim Jong-il treysti Shin til að ferðast til Vínarborgar til að ræða við menn þar um þessi mál. Hann tók konuna sína með. Þau komu aldrei aftur til Norður-Kóreu.

Þau hittu japanskan kvikmyndarýni í hádegismat á veitingastað. Hann hjálpaði þeim að sleppa undan norðurkóresku fylgdarmönnunum. Þau brunuðu af stað í leigubíl, stungu hina af og komust í bandaríska sendiráðið. Þrátt fyrir að lifa í miklu ríkidæmi í Norður-Kóreu sögðust þau aldrei hafa efast um að vilja sleppa frá Norður-Kóreu þar sem þeim var haldið nauðugum í heil átta ár.

Shin í Bandaríkjunum.
Shin í Bandaríkjunum.

Hjónin bjuggu í Bandaríkjunum í nokkur ár. Shin vann við nokkrar kvikmyndir. Árið 1992 gerði hann krakkamyndina 3 Ninjas Knuckle Up sem var framhaldsmynd mjög vinsællar myndar um þrjá krakka sem leysa ýmis glæpamál með japönskum bardagabrögðum.

Fyrst um sinn þorði Shin ekki að flytja aftur heim til Suður-Kóreu. Yfirvöld myndu kannski ekki trúa því að hann hafi verið fangi í Norður-Kóreu heldur búið þar af fúsum og frjálsum vilja. En hann flutti á endanum aftur heim og fékkst þar við kvikmyndagerð til dauðadags árið 2006. Choi er enn á lífi og býr í Seúl.

3 Ninjas Knuckle Up.
3 Ninjas Knuckle Up.

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa alltaf neitað að hafa tekið hjónin til fanga. Þau hafi einfaldlega flutt sjálf til landsins.

Og nú er Kim Jong-il allur.

LEMÚRINN veit ekkert um kvikmyndasmekk arftakans, Kim Jong-un. En við vitum að hann er mikill körfuknattleiksáhugamaður og hefur oft fengið fyrrverandi NBA-manninn Dennis Rodman í heimsókn. Á unglingsárunum var piltur sendur til náms í einkaskóla í Sviss.

Kim Jong-un í rússíbana.
Kim Jong-un í rússíbana.

Bekkjarsystkin hans segja að Kim litli hafi teiknað körfuboltahetjuna Michael Jordan í sífellu með blýanti og verið mikill tölvuleikjamaður. Og hann ku hlusta á Eric Clapton. Í dag er leiðtoginn sagður mjög veisluglaður, hann drekkur víst stíft og er með innflutta sánu í híbýlum sínum til að ná sér hraðar upp úr þynnku.

Kannski mun því líta í ljós norðurkóresk kvikmynd í kommúnískum dúr um vaska og drykkfellda körfuboltahetju sem baðar sig í gufubaði og berst við skrímsli sem éta járn eða kannski kjarnorkuúrgang. Vonum að Clapton greyinu verði ekki rænt.

En þangað til er hægt að horfa á eldri norðurkóreskar myndir á YouTube. LEMÚRINN mælir með dramamyndinni Umferðarstjóri á krossgötum. Hún fjallar um konu sem vinnur við umferðareftirlit í Pyongyang. Hún hittir mann sem notar vinnutrukkinn til persónulegra nota og keyrir ógætilega! Sjá hér:

Vídjó